Hvernig tengist ráðleggingin hjartaheilsu

Grænmeti og ávextir daglega

Í grænmeti og ávöxtum er ríkulegt magn ýmissa efna sem virðast hafa verndandi áhrif gegn hjarta- og æðasjúkdómum; fæðutrefjar, fólasín, kalíum, andoxunarefni (t.d E-vítamín, karótenóíðar og flavenóíðar) og ýmis plöntuefni. Ráðlagt er að neyta a.m.k. 200 g af grænmeti og a.m.k. 200 g af ávöxtum daglega. Áhrifin virðast meiri eftir því sem meira er borðað af

mismunandi tegundum ávaxta og grænmetis.

 

Fiskur – tvisvar í viku eða oftar

Áhrif fiskneyslu á hjartasjúkdóma er að miklu leyti rakin til fiskifitunnar (ómega-3 fitusýra). Má þar nefna áhrif á blóðfitur (lækkun), bólgusvörun, blóðstorknun (minni hætta á  blóðtappamyndun) og bætta blóðþrýstings-stjórnun. Erlendar rannsóknir benda til að þeir, sem borða tvær til þrjár fiskmáltíðir í hverri viku, fái mun síður hjartaáfall en þeir sem borða lítinn eða engan fisk.

 

Gróf brauð og annar kornmatur

Rannsóknir benda til þess að neysla á grófu kornmeti dragi úr líkunum á hjarta- og æðasjúkdómum. Sumar gerðir fæðutrefja,  sem finna má í grófu brauði eða kornmat (t.d. í höfrum), geta haft kólesteróllækkandi áhrif.

 

Fituminni mjólkurvörur

Mataræði, sem er ríkt af mettaðri fitu, hækkar LDL-kólesteról í blóði sem aftur eykur hættu á kransæðasjúkdómum. Af þeim sökum er ráðlagt að neyta feitra mjólkurvara í hófi en velja oftar fituminni vörur. Einnig er bent á að forðast matvörur sem innihalda herta fitu (sem einnig hækkar LDL-kólesteról í blóði), svo sem kex, kökur, snakk og sælgæti.

 

Salt í hófi

Með því að minnka saltneyslu má draga úr hækkun blóðþrýstings.

Með því að bæta fæðuvenjur í heild, má enn frekar stuðla að bættri blóðþrýstingsstjórnun.

 

Lýsi eða annar D-vítamíngjafi

Aðalástæða ráðleggingar um lýsisneyslu byggist á því að lýsið er góður D-vítamíngjafi. Hins vegar er einnig að finna í lýsi ómega 3 fitusýrur sem taldar eru afar „hjartavænar" (sjá umfjöllun um fisk).

 

Vatn er besti Svaladrykkurinn

Á síðustu árum hefur framboð drykkja sem gefa orku aukist gríðarlega (sykraðir gosdrykkir, ávaxtasafar o.fl.). Neysla á sykruðum drykkjum tengist auknum líkum á offitu sem er einn af áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma. Því er fólk hvatt til þess að nota vatn sem svaladrykk fremur en sykraða drykki og aðra orkuríka drykki.

 

Dr. Ingibjörg Gunnarsdóttir, dósent, Rannsóknastofa í næringarfræði við HÍ og LSH

Úr Velferð blaði Hjartaheilla, landssamtaka hjartasjúklinga mars 2008.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *