Aðlögun að breyttu heilsufari

Georgía M. Kristmundsdóttir

Er ég sá/sú sem ég var áður?

Þruma úr heiðskíru lofti

Upp úr miðjum aldri aukast líkur á því að heilsa okkar bili og eru hjartasjúkdómarnir algengir orsakavaldar. Þótt þeir eigi sér oft aðdraganda, er hætt við að við höfum lengi horft framhjá þeim einkennum, sem hefðu getað varað okkur við. Veikindin koma því ósjaldan sem þruma úr heiðskíru lofti.

 

Endurskoðun á gildum/Sátt við nýja manninn Það sem áður var svo auðvelt og sjálfsagt er það ekki lengur.  Þrekið minnkar, við getum t.d. ekki lengur stokkið upp stiga í nokkrum skrefum eða gengið á fjöll, getum ekki unnið jafnmikið og áður eða erum orðin svo veikburða að við getum illa sinnt  daglegum þörfum. Ef við höfum verið hraust fyrr á ævinni, stöndum við frammi fyrir geysimiklu verkefni við að aðlagast þessu breytta ástandi. Sjálfsímynd okkar sem hraust og dugleg þarfnast nú endurskoðunar.  Við þurfum að ná einhverri sátt við þá nýju manneskju sem við erum orðin.  Ef sjálfsímynd okkar hefur snúist um dugnað og atorkusemi, getur verið þrautin þyngri að læra að meta við okkur það sem við getum þó gert og skilgreina dugnað og atorkusemi upp á nýtt.  Það eitt að komast í göngu kringum húsið gæti nú fallið undir dugnað. Sveigjanleiki og hugmyndaauðgi Breytt atgervi kallar á að við finnum okkur verkefni og tómstundaiðju sem hentar ástandi/skertu heilsufari okkar. Við þurfum því á sveigjanleika að halda og hugmyndaauðgi.

 

Hræðsla og kvíði

Hræðsla er þekktur fylgifiskur hjartabilunar. Manni finnst maður ekki ná andanum, fær sára og annarlega brjóstholsverki og alls konar hjartsláttartruflanir. Læknar og sérfræðingar segja okkur vissulega að margt af þessu sé ekkert hættulegt, en við getum samt þurft að taka virkilega á til að halda ró okkar gagnvart sumum þessara einkenna.

 

Fjölskylda og vinir

Fólkið okkar þarf líka að læra að lifa með okkur við þessar breyttu aðstæður. Það þarf að vinna bug á óttanum um heilsu okkar, þarf að sætta sig við breytt lífsmynstur og breytt áhugamál. Við þekkjum ýmsa sem hafa náð góðum tökum á þessu verkefni og finnst jafnvel að hinar breyttu aðstæður hafi opnað ný og gefandi svið í lífinu.  Öðrum gengur ekki jafn vel. Kvíði, depurð, þunglyndi og önnur vanlíðan gætu verið það þungbær að rétt sé að leita aðstoðar fagmanna.

 

Georgía M. KristmundsdóttirGeorgía M. Kristmundsdóttir er sjálfstætt starfandi sálfræðingur og hjartasjúklingur. Georgía lauk embættisprófi eða m.ö.o. Cand psych frá Aarhus Universitet 1983 og síðar tveggja ára sérnámi í hugrænni atferlismeðferð (HAM) 2001. Hefur auk þess sótt  fjölda námskeiða eftir lok kandidatsprófs, en störf hennar hafa snúist um greiningar og meðferð á einstaklingum og fjölskyldumeðferð.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *