Forvarnargildi mælinga

Forvarnargildi mælinga á blóðfitu og blóðþrýstingi á vegum Hjartaheilla og SÍBS frá árinu 2000.

Magnús Þorgrímsson, sálfræðingur í Borgarnesi, hefur um árabil staðið í forystusveit Hjartaheilla á Vesturlandi. Undanfarin ár hefur hann stundað framhaldsnám við Háskóla Íslands og hafa starfsmenn Velferðar fengið leyfi til að birta hér brot úr ritgerð sem hann skrifaði þar.

Lýðheilsa – Forvarnarverkefni

Kennari: Unnur A. Valdimarsdóttir

 

1. Hjartasjúkdómar:

Hjartasjúkdómar hafa undanfarna áratugi verið ein algengasta dánarorsökin í iðnríkjunum t.d. í Bandaríkjunum. Sama á við um Ísland, þar sem hjartasjúkdómar hafa undanfarna áratugi verið algengasta dánarorsök Íslendinga og þar af hafa kransæðasjúkdómar verið lang algengastir eða um 80%.  Í upphafi síðustu aldar var tíðni þeirra mun lægri, en jókst síðan, sérstaklega eftir seinni heimstyrjöldina, en frá um 1980 hefur dánartíðnin farið lækkandi. Hún hefur lækkað hjá körlum á aldrinum 25-74 ára á tímabilinu 1981 – 1998 um 57%  og um 51% hjá konum. "Nýgengi hefur lækkað um 40% hjá körlum og 34% hjá konum og heildartíðni um 49% og 44% " "Dánarhlutfall er nú með því lægsta sem gerist samanborið við aðrar þjóðir. Líklegt er að forvarnaraðgerðir verði árangursríkastar til að lækka tíðni þessara sjúkdóma" (Nikulás Sigfússon o.fl. 2001).

 

Árið 2006 dóu 363 manns úr bráðri kransæðastíflu 201 karlar og 162 konur, en 165 fengu slag. (Matthías Halldórsson 10. desember 2007 og heimasíða Hagstofu Íslands 2007).

 

Það er ljóst að hjartasjúkdómar eru mjög alvarlegur heilsufarsvandi hjá þjóðinni og því er full ástæða til að gera það sem hægt er til að fyrirbyggja hann, draga úr dánarorsökum og eins að draga úr neikvæðum fylgikvillum hjartasjúkdóma.

 

Skv. Hagstofu Íslands er  hlutfall hjartasjúklinga af örorkulífeyrisþegum ekki stórt, eða 6 %. Þessar tölur benda til þess að með góðri meðferð geti stór hluti hjartasjúklinga gegnt áfram störfum sínum í þjóðfélaginu.

 

Eflaust eru skerðingar vegna hjartasjúkdóma meiri í efri aldurshópum en meðal yngra fólks.  Það er ljóst að skert hjartastarfsemi takmarkar lífsgæði margra. Þunglyndi er bæði sjálfstæður áhættuþáttur kransæðasjúkdóma og einnig algengur fylgikvilli þeirra. Algengi þunglyndis meðal hjartasjúklinga við komu á Reykjalund á einu ári 2005 -2006 var 9,5% og kvíða 11,6%. Við meðferð lækkuðu þessar tölur í  3,1% og 2,5%  ( Karl Kristjánsson, Þórunn Guðmundsdóttir og  Magnús Jónasson  2007). Önnur sálræn einkenni fylgja oft kransæðasjúkdómum. Einnig hefur verið sýnt fram á skerta vitræna starfsemi eins og minni hjá eldri sjúklingum sem hafa fengið hjartaáfall. ( Snorri B Rafnsson ofl. 2007).

 

Rannsóknir tengja sálræna/ geðræna þætti við kransæðasjúkdóma. Áður var talað um að svokölluðum A týpum væri hættara við kransæðasjúkdómum. Það er fólk sem er kappsamt, óþolinmótt, kröfuhart gagnvart sjálfu sér, eiga erfitt með að slaka á o.fl.(sjá m.a. Ólaf Ólafsson 2007 bls.345). Hóprannsóknir fyrir 1970 sýndu að kransæðasjúkdómar væru algengari á meðal atvinnurekenda og  langskólagenginna, en annarra. Eftir það breytist þetta og meira ber á þeim meðal þeirra sem hafa styttri skólagöngu. (Ólafur Ólafsson 2006 bls.11-12). Í Framingham rannsókninni hefur komið fram að konur (45-65 ára) sem höfðu innibyrgða  andúð, spennu og ótta, þ.e. "týpa A" höfðu miklu meiri hættu á kransæðasjúkdómi en þær sem voru "B týpur". Týpa A og reiði voru sjálfstæðir áhættuþættir.  Svipaðar niðurstöður koma fram hjá körlum sem vinna skrifstofuvinnu (Haynes SG, ofl. 1980).

 

Seinni rannsóknir hafa beint athyglinni frá A týpunni yfir á tengsl hjartasjúkdóma við týpu D, bæði sem sjálfstæðum og sem samvirkandi áhættuþætti. Þessi persónuleika tilhneiging einkennist m.a. af armæðu, áhyggjum, neikvæðni, drunga, skorti á sjálfstrausti, félagslegri varfærni og hömlum(sbr. skilgreiningu á Wikipedia).  Týpa D hefur tilhneigingu til að upplifa neikvæðar tilfinningar og bæla þær með sér og tjá þær ekki í samskiptum við aðra (Denollet J. Ofl. 2006). Rannsóknir hafa sýnt sterk tengsl á milli hjartasjúkdóma og lágstéttar, skorts á félagslegum stuðningi og félagslegrar einangrunar, langvarandi stress í vinnu eða fjölskyldu, neikvæðra tilfinninga, þunglyndi ofl ( Albus C. ofl. 2005; Bunker SJ. ofl 2003;  Schiffer AA. ofl. 2005)

 

2. Mælingar á blóðþrýstingi og blóðfitu

Hjartaheill og aðildarfélög þess um allt land hafa staðið fyrir mælingum á blóðþrýstingi og blóðfitu frá haustinu 2000 ( í Stykkishólmi). Mælingarnar hafa farið fram 55 sinnum á um 40 stöðum um allt land. Mælingarnar hafa verið gerðar af heilbrigðisstarfsfólki og lögð hefur verið áhersla á samvinnu við heilbrigðisstarfsfólk á viðkomandi stað. Að auki fór fram tilraunaverkefni á Ísafirði í eitt ár sem samvinnuverkefni heilsugæslustöðvar og Heilbrigðisstofnunar Ísafjarðarbæjar. Síðasta haust var farin ferð um 17 staði á Norður- og Austurlandi. Alls hafa um 7500 manns komið í þessar mælingar

 

Mælingarnar hafa stundum verið gerðar í samvinnu við SÍBS og hefur þá fagfólk á þeirra vegum verið með í för. Auk fyrrnefndra mælinga á blóðfitu og blóðþrýstingi, hefur púlsinn verið tekinn, súrefnismettun í blóði verið mæld og gerð öndunarpróf.

 

Á Ísafirði fór af stað tilraunaverkefni 2002 til 2003 hjá heilsugæslunni á Ísafirði í samvinnu við Hjartaheill. Markmið verkefnisins var: „Í fyrsta lagi að vekja einstaklinga til umhugsunar um hversu mikil áhrif og mikla ábyrgð þeir hafa á eigin heilbrigði og vellíðan. Í öðru lagi að veita einstaklingsmiðaða fræðslu og ráðgjöf um ýmsa þætti er tengjast lífsháttum og hjarta- og æðasjúkdómum, svo sem blóðþrýsting, blóðfitu, mataræði, hreyfingu, reykingar, streitu o.s.frv. Þriðja markmið verkefnisins var svo loks að gefa útskrifuðum hjartasjúklingum af bráðadeild HÍ tækifæri á að fá svör við spurningum sem kunna að hafa vaknað eftir útskrift þeirra." (Sigríður Ragna Jóhannsdóttir 2004.) Um var að ræða samstarfsverkefni við læknana á staðnum. Hvorki þurfti að borga fyrir þjónustuna, né að panta tíma og var hún í boði á föstum tímum síðdegis einu sinni í mánuði. Auk mælinganna fór fram einstaklingsmiðuð fræðsla og reynt að finna leiðir sem hentuðu hverjum og einum. Alls komu 236 einstaklingar í 322 skipti. 63% konur og 37% karlar. Um 60% þeirra sem komu voru undir 60 ára. (Sigríður Ragna Jóhannesdóttir 2004)

 

Í upphafi árs 2007 fór af stað tilraunaverkefni á Suðurnesjum, í samstarfi milli Hjartaheilla á Suðurnesjum, stéttarfélaga, líkamsræktarstöðva og íþróttaakademíunnar og Inpro (Heilsuverndarstöðvarinnar), þar sem 40 ára og eldri var boðið upp á mælingar á heilsufarsþáttum. 842 einstaklingar nýttu sér þetta verkefni. 127 manns var vísað til frekara eftirlits. Fólki hefur verið boðið upp á fræðslu, og tilboði um heilsurækt ofl..(Heimasíða Heilsuverndarstöðvarinnar 2008)

 

3. Forvarnargildi mælinganna

Það er erfitt að meta forvarnargildi þessara mælinga og það hafa ekki fundist neinar rannsóknir sem sýna forvarnargildi aðgerða sem þessarar.

 

Almennt er ánægja með mælingarnar, bæði hjá almenningi út um allt land og eins hjá heilbrigðisstarfsfólki. Sendar voru út spurningar til sérfræðinga í hjartasjúkdómum og beðið um álit þeirra á forvarnargildi mælinga Hjartaheilla. En svörunin var mjög lítil. Almennt eru læknar mjög jákvæðir og ánægðir með þessar aðgerðir og hvetja félagið til að halda þeim áfram og að þær hafi meira gildi en almenn fræðsla um áhættuþætti.

 

Forvarnargildi mælinganna felst ekki síst í þeirri kynningu sem er á gildi þess að fylgjast með blóðfitunni og blóðþrýstingnum og hvernig þessir þættir hafa áhrif á hjartasjúkdóma. „Mælingarnar krefjast þátttöku einstaklingsins og hann fær tölur til að vinna með á sama tíma og honum er veitt fræðsla". "Þetta hvetur einstaklinginn til þess að fylgjast með eða láta fylgjast með blóðfitum og blóðþrýstingi auk þess sem það hvetur hann til aðgerða sem hafa áhrif á þessa þætti svo sem aukin hreyfing, breytt mataræði etc". (Axel F Sigurðsson hjartalæknir 10. desember 2007) . . .

 

4. Niðurstaða.

Það er ljóst að þessar mælingar Hjartaheilla hafa mest gildi fyrir þá sem mælast mjög háir þ.e. blóðfitu 7 og yfir eða með háan blóðþrýsting.  Mörgum hefur verið vísað til læknis beint í kjölfarið á  mælingunum og það er ljóst að það hefur bjargað heilsu og lífi einhverra. Þannig hafa mælingarnar gildi sem 2. stigs forvörn sem nær að leita uppi fólk sem er í áhættu fyrir hjartasjúkdóma eða sem hefur þróað með sér ákv. áhættuþætti þeirra.

 

„Ein besta tryggingin fyrir því að svona mælingar skili  árangri er einmitt að vinna með fagfólkinu sem þarf að sinna viðkomandi eftir að Hjartaheill hverfur af staðnum þ.e.a.s. fagfólkið skynjar einnig eftirá mikilvægi þessara mælinga þegar einstaklingarnir skila sér til þeirra aftur. Þó nokkrir samstarfsaðilar hafa haft samband eftir ferðina miklu og tjáð okkur hreinlega að einstaklingar hefðu farið í nánari skoðun hjá þeim, gildin okkar staðist og viðkomandi farið á lyf sem hlýtur að teljast forvarnarstarf af bestu gerð."  ( Ásgeir Þór Árnason 2008)

 

Það er ljóst að mælingar Hjartaheilla snúa aðeins að hluta þeirra áhættuþátta sem orsaka hjartasjúkdóma. Forvarnargildið snýr að þessum þáttum

 

Hjartaheill stendur frammi fyrir því hvað er framkvæmanlegt á vegum samtaka sem byggja á sjálfboðavinnu og velvilja og því hvað væri æskilegt og bæri að stefna að. Annars vegar er um að ræða framtak frjálsra félagasamtaka og hins vegar hvað væri æskilegt samfélagslegt forvarnarstarf.

 

Það er ljóst að miðað við kostnað heilbrigðisþjónustunnar og samfélagsins í heild, þá fara aðeins smáaurar í forvarnarstarf. Með aukinni áherslu á forvarnir myndi samfélagið spara verulegar fjárhæðir.

 

Skimun á áhættuþáttum þyrfti að ná í neðri aldurshópa, þar sem forstig kransæðasjúkdóma er hægt að sjá hjá ungu fólki (sjá m.a. Schneider 2006 bls 186)

 

Í almennri umræðu hafa litlar áherslur verið á sálfræðilegar orsakir hjartasjúkdóma. Hvort sem það er vísun til hugtakana „Týpu A" eða "Týpu D", þá tel ég mjög brýnt að samtök eins og Hjartaheill bendi á þennan áhættuþátt og leggi áherslu á eflingu á sálrænni velferð fólks. Bæði þessi hugtök vísa til sálfræðilegra þátta sem skipta miklu máli að vinna með. Hugtakið " týpa D" er nátengt þunglyndi og er ástæða til að vinna gegn þunglyndi sem áhættuþætti hjartasjúkdóma. Félagsleg tengsl og félagslegur stuðningur er einnig nauðsynlegur og eitt af einkennum „týpu D", er einmitt félagslegar hömlur. Gefandi félagsleg samskipti er atriði sem leggja þarf áherslu á, ennfremur skipta miklu máli einfaldir þætti eins og að draga úr stressi og leita að gleðinni í lífinu, þetta hafa verið áhersluþættir Hjartaheilla á Vesturlandi.

 

Fræðsla skiptir alltaf máli og hafa samtökin alla tíð lagt áherslu á hana. En fræðsla ein og sér hefur takmarkað forvarnargildi. Það er mikilvægt að vita um hlutina, en mikilvægara er að skilgreina að þekkingin skipti máli fyrir einstaklinginn og að hann upplifi að hann geti unnið með hana og breytt út frá henni.  Stór hluti fólks veit um óhollustu lifnaðarhátta sinna, án þess að ná að breyta þeim til langframa, t.d. mataræði sínu.

 

Niðurstaða mín er að mælingarnar hafi ótvírætt forvarnargildi. Hjartaheill eru sjúklingasamtök sem hafa í raun tekið verkefni heilsugæslustöðva um landið upp á sína arma og það þeim að kostnaðarlausu. Það er ástæða til að þróa mælingarnar áfram og koma upp almennu samstarfi við heilsugæsluna um allt land. Til þess að það sé hægt verða heilbrigðisyfirvöld að koma af krafti að þessu verkefni og það er spurning hvort þau séu reiðubúin til að efla þessar forvarnir, að öðrum kosti verða þær að byggjast á takmarkaðri getu frjálsra félagasamtaka.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *