Frá ritstjóra Velferðar

Þórir S. Guðbergsson

Manninum er gefið í vöggugjöf að geta horft til framtíðar, að eiga sér drauma og hugsjónir, eiga eitthvað til að lifa fyrir og stefna að. Hann styrkist oft og eflist við áskorun, ögranir og erfið verkefni. Þennan eiginleika getum við ræktað til hinstu stundar." (Lífsorka. Þórir S. Guðbergsson, 2004).

 

Þórir S. GuðbergssonVertu með

Þekkt kvæði hefst á þessari setningu: Vertu til því vorið kallar á þig. Í frétt frá Vesturlandi í blaðinu eru lesendur hvattir til að vera samstíga og samtaka. Samtakamátturinn er afl. Framkvæmdastjóri Hjartaheilla og formaður minna okkur á afmælisár Hjartaheilla sem verða 25 ára á haustdögum. Með sérstökum hætti munum við stofna til átaks sem beinist ekki eingöngu að félögum, vinum og velunnurum Hjartaheilla, heldur allri þjóðinni. Þess vegna hljóma þessi hvatningaorð einnig hér þessum pistli.

 

Vertu með.

Auðvitað skipta peningar og gjafir miklu. Hjartaheill þakkar öllum þeim sem lagt hafa samtökunum lið með ótrúlegum peningagjöfum og með öðrum hætti. Auðvitað kostar sitt að reka heilbrigðiskerfi okkar. Eðlilega kostar nútíma tækniútbúnaður til myndgreiningar kransæða tugi milljóna og hleypur á hundruðum með öllum útbúnaði, aðgerðarstofu o.fl. Við vitum líka að það hafa ekki allir tök á að gefa jafn mikið. Sumir eru ótrúlega illa settir fjárhagslega eins og öryrkjar, atvinnulausir og aðrir sem hafa lent í ýmsum hremmingum. Við óskum ykkur alls góðs og farsældar á nýju ári og hugsum hlýtt til ykkar. En þið getið einnig tekið þátt í átakinu með ýmsum hætti. Við þurfum vini sem kynna málstaðinn með okkur, segja vinum sínum frá, hvetja fólk til dáða og láta ekki deigan síga. Þú getur gefið svolítið af sjálfum þér. Vertu með.

 

Svo einkennilegt sem það kann að virðast draga hjarta- og æðasjúkdómar fleiri til dauða en allar tegundir krabbameina samanlagt. Fjöldi þeirra sem þjást af hjarta- og æðasjúkdómum í Evrópu er geigvænlegur, tala þeirra sem látast er ógnvænleg. Hjarta- og æðasjúkdómar draga ár hvert rúmlega 4.35 milljónir manna til dauða í hinum 52 aðildarríkjum Evrópusvæðis WHO  (Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar).

 

Hér á Íslandi er margt í heilbrigðiskerfinu frábært og öruggt, en víða er pottur brotinn. Í fréttagrein í blaðinu er sagt frá erfiðleikum á hjartadeild Landspítalans, sjúklingum sem liggja á göngum og þeim sem bíða í kvíða eftir hjartaþræðingum/myndgreiningum. Því fyrr sem fólk kemst í greiningu því meiri möguleikar eru á því að meðferð geti hafist og aukið lífsgæði sjúklings til muna. Því fyrr sem unnt er með dýrri tækni og rannsóknum að skoða hjarta, kransæðar og aðrar æðar þeim mun meiri líkur eru á að finna fljótar „meinsemdina", og tryggja að markviss meðhöndlun með lyfjum, mataræði og endurhæfingu og hvers konar hreyfingu geti hafist sem fyrst svo að sjúklingur geti notið lífsins sem best það sem hann á eftir ólifað. Á Íslandi er árangur mikill í  hjarta- og æðasjúkdómum og ótrúlega margir hjartasjúklingar hafa náð miklum bata, hafa aftur farið út í atvinnulífið og njóta lífsins í ríkum mæli.

 

Það er hægt að fyrirbyggja hjarta- og æðasjúkdóma. Það er hægt að fyrirbyggja að hjartasjúklingar verði fyrir meira áfalli og endurteknu. Það þarf að fylgjast með blóðþrýstingi, blóðfitu og fólk þarf að hætta að reykja og hreyfa sig meira. Sérfræðingar telja að draga megi úr tíðni hjarta- og æðasjúkdóma um allt að helming með þessu móti. Vertu með.

Úr Velferð blaði Hjartaheilla, landssamtaka hjartasjúklinga mars 2008.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *