Góður hugur – Glæsileg gjöf

Góðtemplarar á Akureyri gefa 50 milljónir til sjúkrahúss FSA. Greining með góðum tækjum og meðferð hjartasjúkdóma skiptir máli.

 

Frétt úr Morgunblaðinu 5. febrúar 2008.

Góðtemplarareglan á Akureyri afhenti sjúkrahúsinu (FSA) í gær 50 milljónir króna að gjöf til stofnunar á sérstökum sjóði sem varið verður til kaupa á tækjum og búnaði til greiningar og meðferðar hjartasjúkdóma á stofnuninni. Að sögn forsvarsmanna FSA er hér um að ræða einhverja alstærstu gjöf sem FSA hefur fengið frá upphafi. Fulltrúar reglunnar afhentu gjöfina: Árni Valur Viggósson, formaður, Gunnar Lórenzson, gjaldkeri og Guðmundur Magnússon, ritari.

Góðtemplarareglan á Íslandi var stofnuð hinn 10. janúar árið 1884 á heimili Friðbjarnar Steinssonar bóksala, Aðalstræti 46 á Akureyri.

 

Stúkustarf á Akureyri  var með miklum blóma á annað hundrað ár og var það undirstaða forvarna- og mannúðarstarfs sem og menningar- og listastarfsemi í bæjarfélaginu um langt árabil.

 

Til að standa straum af umfangsmiklu starfi sínu stofnuðu stúkurnar til ýmiss konar fyrirtækjareksturs og byggðu stórhýsi undir starfsemina. Þau setja enn þann dag í dag sterkan svip á bæjarmyndina og má þar nefna Samkomuhúsið, Skjaldborg og Borgarbíó. Þá áttu og ráku stúkurnar einnig Hótel Varðborg um langt skeið.

 

En allt hefur sinn tíma og nýjar leiðir og áherslur ráða nú ferðinni á því sviði sem Góðtemplarareglan starfaði. Fyrirtæki hennar og hús hafa nú verið seld og hluti andvirðis þeirra  verið notaður til að gera upp Friðbjarnarhús við Aðalstræti 46. Þar hafa stúkurnar komið upp safni yfir hið merkilega starf sitt og er nú verið að leggja lokahönd á enduruppbyggingu þess. Þeir fjármunir, sem eftir eru af tæplega 125 ára starfi Góðtemplarareglunnar á Akureyri, hafa nú verið afhentir Sjúkrahúsinu á Akureyri.

 

„Starfið mun lifa áfram" „Gjöf okkar til Sjúkrahússins á Akureyri fylgir sú einlæga ósk og von að hún komi að sem bestum notum fyrir fólkið sem þangað leitar, en margt af því hefur efalaust tekið þátt í stúkustarfi á sínum yngri árum," segir Árni Valur Viggósson, stjórnarformaður Góðtemplarareglunnar á Akureyri.

 

Hann segir að með gjöfinni megi heita að „hinu heilladrjúga starfi, sem stúkurnar lögðu fram til farsællar lífsgöngu Akureyringa, sé lokið. Saga hins merka félags-, menningar- og mannúðarstarfs, sem góðtemplarar á Akureyri inntu af hendi, mun hins vegar lifa áfram í þessari gjöf sem og í safninu Friðbjarnarhúsi," segir Árni Valur.

 

Hjartaheill, Landssamtök hjartasjúklinga á Íslandi, óska velunnurum allra heilla.

                                                Þ.S.G

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *