Heilbrigði hjartans – Evrópska stefnuskráin

Maður, líttu þér nær. Fjöldi fólks deyr, margir þjást, lífsgæði skerðast.

Hvað er næst á dagskrá?

 

1.hluti

Í næstu tveimur blöðum af Velferð munum við birta „Evrópsku stefnuskrána" undir yfirskriftinni: Heilbrigði hjartans. Fjöldi þeirra sem þjást af hjarta- og æðasjúkdómum í Evrópu er geigvænlegur, tala þeirra sem látast er ógnvænleg, hjarta- og æðasjúkdómar draga ár hvert rúmlega 4.35 milljónir manna til dauða í hinum 52 aðildarríkjum Evrópusvæðis WHO (Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar) og þeir eru einnig mikilvæg orsök örorku og skertra lífsgæða. Þar sem vitnað er í heimildir verður birt í síðustu greininni.

 

Inngangsorð 

Dánar- og sjúkdómstíðni

Hjarta- og æðasjúkdómar eru algengasta dánarorsök karla og kvenna í Evrópu.

Þeir valda nærri helmingi allra dauðsfalla í Evrópu og draga rúmlega 4,35 milljónir til dauða ár hvert í hinum 52 aðildarríkjum Evrópusvæðis Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) og rúmlega 1,9 milljónir til dauða í Evrópusambandinu.

 

Hjarta- og æðasjúkdómar eru einnig mikilvæg orsök örorku og skertra lífsgæða. Þrátt fyrir þetta er vel hægt að fyrirbyggja hjarta- og æðasjúkdóma. Að mati WHO gæti lítilsháttar og samhliða lækkun blóðþrýstings, minnkun offitu, kólesteróls og reykinga dregið úr tíðni hjarta- og æðasjúkdóma um meira en helming.

 

Tíðni dauðsfalla og fjöldi tilfella hjarta- og æðasjúkdóma hefur minnkað í flestum ríkjum í Norður-, Suður- og Vestur-Evrópu en hefur ekki að sama skapi minnkað jafn mikið eða er að aukast í Mið- og Austur-Evrópuríkjum.

 

Þótt þess sjáist merki að dregið hafi úr tíðni dauðsfalla af völdum hjarta- og æðasjúkdóma í ríkjum Evrópusambandsins, hefur fjöldi karla og kvenna sem ganga með hjarta- og æðasjúkdóma aukist.

Þessi mótsögn er til komin vegna lengri ævi og að lífslíkur eru meiri en áður hjá fólki með hjarta- og æðasjúkdóma. Hjarta- og æðasjúkdómar draga fleiri til dauða en allar tegundir krabbameina

samanlagt (hlutfallið er hærra hjá konum (55% allra dauðsfalla) en hjá körlum (43% allra dauðsfalla))

og dánartíðnin er hærri hjá konum og körlum í lægri efnahags- og félagsstéttum.

 

Áhættuþættir 

Helstu áhættuþættir hjarta- og æðasjúkdóma eru vel þekktir, eins og notkun tóbaks, hækkaður blóðþrýstingur og hækkað kólesteról í blóði.

 

Einnig eru það þættir sem tengjast með beinum hætti lífsstíl einstaklinga og mataræði svo og hreyfingu. Aðrir þættir sem tengjast hjarta- og æðasjúkdómum eru yfirþyngd og offita, sykursýki, ofneysla áfengis og sálrænt og félagslegt álag. 

 

Kostnaður 

Talið er að hjarta- og æðasjúkdómar kosti efnahag Evrópusambandsins 196 milljarða/ári (tæplega 17 þúsund milljarða íslenskra króna á ári). Það svarar til árlegs kostnaðar sem nemur €372 á hvert mannsbarn. Meiri en tífaldur munur er á kostnaði á hvert mannsbarn á milli aðildarríkjanna – allt frá minna en €50 á Möltu í rúmlega €600 á mann/ári í Þýskalandi og Bretland. Þar að auki er efnahagsþróun ríkja þar sem tíðni hjarta- og æðasjúkdóma er há, skert.

 

Framleiðslutap vegna hjarta- og æðasjúkdóma kostar Evrópusambandið rúmlega 35 milljarða evrur sem er um 21% heildarkostnaðar vegna þessara sjúkdóma. Tveir þriðju hlutar kostnaðarins er vegna dauðsfalla  (24,4 milljarðar) og þriðjungur vegna veikinda (10,8 milljarðar evra) manna á vinnufærum aldri.

 

(Unnið í samstarfi Hjartaverndar og Hjartasjúkdómafélags íslenskra lækna.

Stytt og afmarkað: Velferð ÞSG)

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *