Hnoða – Hringja –

Hringja - Hnoða

Aðventan og heimsendir. Nær dauða en lífi?

Af sérstökum ástæðum nefni ég ekki nafn mitt að þessu sinni. Ég geri ráð fyrir að einhverjir hafi lent í álíka reynslu og ég og hvet þá til að senda Velferð stutta lýsingu á reynslu sinni. Við höfum öll gott af því að deila reynslu með öðrum.

Hringja - HnoðaYs og þys á jólum

Ja, hvenær er ekki ys og þys í Reykjavík og víða um land? Fyrir tveimur árum lagði ég land undir fót og skrapp fyrir jólin á stórmarkað í henni Reykjavík. Ótrúlegt en satt – það var mikið að gera og langar biðraðir við kassa. Ég tók lífinu með ró þegar aðalstarfi mínu var lokið, að kaupa í matinn. Karfan var full. Kjöt, fiskur, grænmeti, mikið af ávöxtum (er ekki grænmeti og ávextir aðall hjartasjúklinga?) . . .

 

Undanfarna daga hafði ég ekki verið alls kostar heilsuhraustur. Dálítið slappur, þreyttur og illa fyrirkallaður. Kannski var það sykursýkin eða hjartað. Kanni var það déskotans háþrýstingurinn um tæplega 40 ára skeið. Eða kannski var þetta bara pest. Hvernig átti ég að vita það, aulabárðurinn

eins og álfur út úr hól?

 

Ég komst klakklaust út á hlað með fulla jólakörfu en þótti óvenju erfitt að ýta henni. Ég mátti náttúrulega ekki láta nokkurn mann sjá að fílefldur karlmaður á sjötugsaldri gæti ekki ýtt jólakörfunni hjálparlaust. Við Íslendingar erum nefnilega karlar í krapinu og köllum ekki allt ömmu okkar. Þess vegna staulaðist ég áfram. Ys og þys – út af engu – fólk að fara – fólk að koma. Þetta var samt ekki neitt loftvarnarbyrgi, hamingjunni sé lof.

 

Dregur til tíðinda

Á miðju bílaplaninu missti ég fótanna. Ég sá allt svart – þó að jólin væru í nánd – á miðri aðventu. Ég ríghélt mér í handfangið á körfunni. Ég ætlaði sko ekki að detta um koll eins og einhver máttvana vesalingur. Fjölmiðlarnir höfðu meira að segja talað um það daginn áður að „vesalings öryrkjum" væri alltaf að fjölga á Íslandi og þeir þyrftu þá að fá það sem margir kölluðu „aumingjabætur". Ég hafði alltaf sagt að enginn geri það að gamni sínu að kalla yfir sig veikindi, sjúkdóma eða „vesaldóm" – Og þjóðfélagi ber að hjálpa þeim – því að staðreyndin er sú að þeir hjálpa líka svo mörgum með

margvíslegum hætti.

 

Mér til allrar lukku sá ég stjörnur hér og þar í kringum mig og ég hugsaði með mér: Er ég á leið til himna um hábjartan dag? En Adam var ekki lengi í Paradís og ekki ég heldur á bílaplani  stórmarkaðarins. Pomm! Ég féll kylliflatur á malbikið og karfan bjargaði mér. Ég ríghélt í hana og tók hana með mér í fallinu. Annars hefði ég kannski rotast og kannski hefði andi minn svifið til Guðs á miðri aðventunni, hver veit?

 

Um stund vissi ég ekkert af mér. Ég rankaði aðeins við mér og heyrði í fjarska að bílar voru að flauta og fólk var að ryðjast áfram meðan appelsínurnar, eplin, grænmetið, kartöflurnar (Gullauga!) þeyttust um planið. Mér fannst eins og ég væri að líða inn í annan heim – sem ekki var af þessum heimi, heim unaðssemdar og friðar sem gagntók mitt veika hjarta og vitund. Ég hafði áður lent við svipaðar aðstæður – og fannst eins og ég sæi inn í himin Guðs – en var kallaður aftur til lífsins. Og ég hugsaði andartak: Nei, þetta er eitthvað sem gerist í heilanum á mér. Hann fær ekki nægilegt súrefni og næringu frá hjartanu . .

 

Einhver beygði sig niður að mér og hrópaði: "Hann er eitthvað veikur, gamli maðurinn," og ég sá útundan mér að hann veifaði höndunum til bílanna sem stóðu þarna í röðum hver fyrir aftan annan og píptu eins og heimsendir væri í nánd. (Fólk" fattaði" bara ekki að þetta væri aðventan, en ekki heimsendir.) Var fólk ekki með öllu mjalla eða hvað? Eða var ég ekki með öllum mjalla? Enginn kom úr úr bílunum. Allir virtust vera að flýta sér að bíða eftir jólunum. Enginn kom mér til hjálpar fyrr en þessi ókunni maður beygði sig niður að mér (og hver veit nema hann hafi haft meiri áhuga á

Gullauga-kartöflunum en mér. Nú er ég dálítið sár . . . ég veit það.)

 

Fólk hópaðist í kring um mig. Enginn tók upp síma. Enginn fór að hlusta á andardrátt eða hnoða. Ég opnaði augun betur, var að ranka við mér smátt og smátt og fyrstu viðbrögð mín voru að þreifa í vasann, finna sprengitöflur, setja undir tungu og bíða andartak. Ég hafði gert þetta nokkrum sinnum áður í lífinu og stundum haldið að nú væri síðasta stundin runninn upp í þessu jarðlífi. Þannig endar þetta líf alltaf! Eftir örstuttan tíma leið mér betur, áttaði mig á aðstæðum, staulaðist á fætur og hikstaði eitthvað um að fólkið hjálpaði mér að tína upp í körfuna.

 

Bílstjórarnir róuðust smám saman. Fólkið á planinu flýtti sér inn að versla fyrir elsku jólin og  . . .  og jólasveininn . . . eða hver veit hvað? Allir höfðu gleymt að fullorðinn maður hefði fengið aðsvif á bílastæðinu og helmingurinn af kartöflunum (Gullauga) oltið undir bílana og kramdist þar.

Oj, bara.

 

Og ég hugsaði: Hnoða, hringja, hnoða, hringja . . .  Ekki gleyma lífinu!

                                Kær kveðja

                                Aðdáandi Gullauga

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *