Hugur og hjarta

Hróbjartur Darri Karlsson

Í úthlutun úr Rannsóknasjóði Rannís í janúar 2008, hlaut Hróbjartur Darri Karlsson, hjarta- og lyflæknir hjá Hjartavernd tæplega fimm milljónir króna í verkefnastyrk fyrir rannsókn sína „Má nýta sambandið milli persónuleika D og kransæða- og hjartasjúkdóma til aðgreiningar í forspármódelum fyrir kransæða- og hjartasjúkdóma".

 

Líkami og sál

Hróbjartur Darri KarlssonTengsl líkama og sálar hafa verið mönnum umhugsunarefni í margar aldir. Grikkir litu svo á að líkami og sál væru tveir aðskildir hlutir og væri sálin líkamanum, og í raun öllum efnislega heiminum æðri. Þeir sáu fyrir sér að maðurinn, sem er andlegur og líkamlegur væri í stöðugri innri baráttu. Sigurinn væri fyrst unninn þegar andinn hefði fullt yfirráð á efninu, þ.e. líkamanum.  Mörg trúarbrögð hafa þessa sýn á heiminn og hefur það örugglega haft mikil áhrif á upplifun mannsins af sjálfum sér og þróun vísinda.

 

Sýn Gyðingatrúar og síðar kristni á manninn er önnur, þó mörg okkar séu e.t.v. ekki meðvituð um það. Arfur okkar er að líta á líkama og sál sem eina heild þar sem sál og andi eru ekki æðri hinum efnislega líkama. Gyðingar og kristnir litu svo á að sálin og líkaminn væru svo náin að tengslin væru órjúfanleg. Litu sem sagt á líkamann sem góðan og ætti ekki í stöðugri baráttu við andann.

 

Höfðu Grikkir rétt fyrir sér  eða voru það Hebrear sem skildu heiminn betur árið 500 f.kr.?   Mér þykir rétt að láta það liggja á milli hluta hér.  Hitt finnst mér aftur sennilegt að hugsandi menn á öllum öldum hafi séð að tengingin milli líkamans og andans sé mjög mikil, hvort sem þeir töldu líkama og sál aðskiljanleg eður ei.

 

Hugurinn sem áhættuþáttur hjartasjúkdóma.

Hvað vita nútíma læknavísindi um tengslin milli  hugans og líkama?  Hefur hugurinn áhrif á líkamann? Getur hugurinn orðið til þess að minnka lífslíkur okkar eða jafnvel lengt lífið?  Við vitum að  sígarettureykingar og ofát eru hættuleg hjartanu, en geta tilfinningar okkar líka haft skaðleg áhrif. Þetta samhengi hefur verið rannsakað og nokkuð er vitað um það, þó að læknavísindin hafi fyrst og fremst verið upptekin af öðrum hlutum í rannsóknum sínum á síðustu áratugum. Leiddar hafa verið sterkar líkur að því að ungur maður sem er bjartsýnn og tekur lífinu með eftirvæntingu og opnum örmum á framundan mörgum árum lengra líf en hinir.  Eins eru þekkt tengsl  á milli þunglyndis og kvíða og þess að þróa með sér hjartasjúkdóma. Á síðustu árum hafa áhrif persónuleikans á þróun og  framgang hjartasjúkdóma, verið rannsökuð í auknum mæli.

 

Persónuleikinn er hluti af okkar innri manni, stýrir að einhverju leyti því, hvernig við bregðumst við og tökum á ýmsum ólíkum aðstæðum í lífinu. Persónuleikinn er  það sem greinir okkur mennina hverja frá öðrum og sérkennir okkur. Persónuleikinn hefur þar af leiðandi veruleg áhrif á  líðan okkar dagsdaglega.   Þ.e.a.s. ef þú ert  þeirrar gerðar að búast fyrst og fremst við því að samferðamenn þínir ætli þér illt, hlýtur þú að vera stöðugt með varann á þér og jafnvel í vörn. Eins má taka dæmi af manni sem jafnan er bjartsýnn á að hlutirnir fari vel. Hann hlýtur að taka deginum öðruvísi en sá sem á oftast von á að illa fari. Persónuleikinn er talinn nokkuð stöðugur í gegnum stóran hluta ævinnar og hefur því mjög "langvarandi áhrif" á líðan okkar ef svo má að orði komast.

 

Persónuleiki-D

Á síðustu 10 – 15 árum hefur próf. J. Denollet í Tilburg í Hollandi rannsakað áhrif ákveðinnar persónuleikagerðar á batahorfur hjartasjúklinga. Þessa persónuleikagerð kallar hann Persónuleika-D.  Í stuttu máli eru þeir sem hafa þessa persónuleikagerð svartsýnni og meira inni í sér en hinir.

 

Persónuleiki D er hvorki sjúkdómur né annarlegt ástand, heldur hluti af margbreytileika mannanna.  Próf. Denollet þróaði spurningalista til að meta hvort einstaklingar séu þessarar persónuleikagerðar og hefur spurningalistinn nýlega verið þýddur og staðfærður hér á landi.

 

Rannsóknir hafa sýnt að þeim hjartasjúklingum sem hafa persónuleika- D, farnast ver en öðrum,  eru t.d. í meiri áhættu að fá endurtekið hjartaáfall en hinir. Auk þess eiga þeir oft erfiðara með að aðlaga sig og sætta sig við breyttar aðstæður vegna sjúkdómsins.

 

Íslenskar rannsóknir

Fyrir rúmu ári síðan hófum við rannsóknir hér á Íslandi og í Hollandi á áhrifum persónuleika- D á horfur og viðgang hjartasjúkdóma. Á LSH við Hringbraut erum við í samstarfi við Unni Sigtryggsdóttur hjúkrunarfræðing og marga af hjúkrunarfræðingum hennar á hjartadeildinni ásamt og  dr. Þórarni Guðnasyni hjartalækni. Í  Hjartavernd vinnum við með dr.Vilmundi Guðnasyni og starfsmönnum hans og í Eindhoven í Niðurlöndum  með próf. Eric Sijbrands. RANNÍS hefur veitt styrk til verkefnisins og mun Erla Svansdóttir, sálfræðingur og doktors nemi, vinna að þessum rannsóknum á næstu árum.

 

Rannsóknirnar miðast að því að finna út hvaða og hve mikil áhrif Persónuleiki-D hefur á myndun og framgang hjartasjúkdóma. Við vonumst til að niðurstöður úr þessum rannsóknum gefi okkur betri möguleika á að meta áhættu hjartasjúklinga á elnun á sínum sjúkdómi og jafnvel að þær styðji okkur í að meta áhættu helbrigðra á að fá slíka sjúkdóma. Verði þetta raunin mun það hjálpa okkur að gera fyrirbyggjandi aðgerðir markvissari, ódýrari og skilvirkari. Fyrstu niðurstöður eru væntanlegar sumar og haust 2008.

 

Ekki er fyrirsjáanlegt að hægt sé, né fýsilegt, að breyta persónuleika fólks til að minnka áhættu þeirra á hjartasjúkdómum.  Undirbúningur er aftur á móti  hafinn að rannsóknum þar sem hjartasjúklingum með persónuleika D er sinnt sérstaklega, með bættri lyfjameðferð, sálfræði- og stuðningsmeðferð.

 

Meta á  hvort það hafi áhrif á þróun hjartasjúkdóma. Hvað sem öllum vísindum líður, verðum við flest áfram sammála um að andleg vellíðan sé ein af undirstöðum þess að njóta lífsins. Líkamleg veikindi

krefjast mikilla andlegra átaka. Sá sem hefur reynt það efast sjálfsagt ekki lengur um tengsl hugar og hjarta.

 

Hróbjartur Darri Karlsson, 11. mars 2008

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *