Milljón fyrir hvert starfsár Hjartaheill fagna 25 ára afmæli í ár

Guðmundur Bjarnaon

Fyrir 25 árum, 8. október 1983, voru Landssamtök hjartasjúklinga stofnuð en stofnfélagar voru 230. Árið 2004 var nafninu breytt í Hjartaheill, landssamtök hjartasjúklinga. Nú eru félagsmenn Hjartaheilla um 3600.

 

Á afmælisári verða áherslur m.a. þessar:

•·         Fræðslu- og forvarnarstarf

•·         Greinarskrif um hjartasjúkdóma

•·         Fyrstu viðbrögð við hjartastoppi

•·         Gott líf eftir hjartaáfall

•·         Tryggja fjármögnun fyrir þriðju hjartaþræðingarstofuna

 

Guðmundur BjarnaonAllt frá stofnun hafa samtökin beitt sér fyrir fræðslu og forvörnum varðandi hjartasjúkdóma, veitt aðstoð, ráðgjöf og staðið fyrir margvíslegum umbótum í þágu hjartasjúklinga. Fyrir 25 árum mátti reikna með að 20 til 30 % þeirra sem fengju kransæðastíflu myndu ekki lifa það af. Dánartíðni vegna kransæðastíflu hefur lækkað verulega og er í dag um 5%. Þrátt fyrir það eru hjarta- og æðasjúkdómar enn langalgengasta dánarorsökin á Íslandi.

 

Á síðustu áratugum hafa komið fram margar áhrifaríkar aðferðir til að greina og meðhöndla hjartasjúkdóma svo sem hjartaþræðing og kransæðavíkkun en það er nú ein algengasta aðgerð á vestrænum sjúkrahúsum. Einnig hafa orðið miklar framfarir í raflækningum og áhrifarík lyf komið til sögunnar t.d. gegn hjartabilun, háþrýstingi, blóðfitu og til þess að leysa upp blóðsega. Endurhæfing eftir áföll og aðgerðir hefur reynst ómetanleg til að ná aftur þeim andlega og líkamlega styrk sem þarf til að taka fullan þátt í þjóðfélaginu að nýju.

 

Öll þessi nýju lyf, aðgerðir og lækningatæki kosta mikla peninga en fyrir þann kostnað fæst ávinningur sem alls ekki má vanmeta. Fyrir einstaklinginn er ómetanlegt að ná heilsu og geta farið aftur út á vinnumarkaðinn. Af því er einnig beinn þjóðhagslegur ávinningur. Sá hluti bókhaldsins gleymist býsna oft.

 

Ásgeir Þór ÁrnasonÞó mikið hafi áunnist í baráttunni við hjarta- og æðasjúkdóma má ekki sofna á verðinum. Því er spáð að fjöldi þeirra sem munu lifa með afleiðingum hjartasjúkdóma og hjartaáfalla muni vaxa verulega á næstu áratugum. Þessum hópi verður að sinna, hann mun þurfa áframhaldandi lyfjameðferð og eftirlit vegna sjúkdómsins. M.a. vegna þessa mun þörfin fyrir þjónustu við hjartasjúklinga aukast á komandi árum.

 

Á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi eru nú tvö hjartaþræðingartæki með öllum búnaði í notkun. Bæði eru tækin komin til ára sinna og það eldra er meira en 10 ára gamalt. Slíkur búnaður úreldist fljótt og er því brýn þörf á að endurnýja búnaðinn auk þess sem það er mikið öryggisatriði að hafa góðan búnað. Á biðlistum eftir hjartaþræðingum og hjartaskurðaðgerðum eru nú nær 300 manns og því augljóst hversu alvarlegt ástand mundi skapast ef annað þessara tækja yrði ónothæft. Nú er stefnt að því að koma upp þriðja hjartaþræðingartækinu á sjúkrahúsinu við Hringbraut. Ljóst er að hér er um stórátak að ræða sem kosta mun hátt á annað hundrað milljónir króna með aðstöðu og öllum aukabúnaði. Til að koma því í höfn þarf mikið og samstillt átak allra þeirra sem leggja vilja góðu málefni lið.

 

Af þessu tilefni og því að Hjartaheill, landssamtök hjartasjúklinga verða 25 ára í haust vilja samtökin leggja sitt af mörkum til að tryggja að þetta markmið náist nú á afmælisárinu. Samtökin hafa skuldbundið sig til að styrkja kaup á tækjabúnaði þessum svo og nauðsynlegum fylgibúnaði með fjárframlagi að upphæð 25 milljónir króna eða 1 milljón fyrir hvert ár sem samtökin hafa starfað.

 

Efnt verður til landssöfnunar undir merkjum Hjartaheilla og stefnt að því að safna sem mestu fé á þessu afmælisári og mun allt það fé sem safnast umfram 25 milljónir einnig renna til tækjakaupa fyrir hjartasjúklinga.

 

Þeir sem vilja leggja Hjartaheill lið með fjárframlögum er vinsamlega bent á að hafa samband við Svein Guðmundsson verkefnastjóra afmælisátaksins í síma 863 8090, starfsmenn Hjartaheilla í síma 552 5744 eða leggja beint inn á söfnunarreikning samtakanna hjá Landsbanka Íslands aðalbanka reikningsnúmer 101 – 26 – 68 kennitala 511083 – 0369.

 

Guðmundur Bjarnason, formaður

Ásgeir Þór Árnason, framkvæmdastjór

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *