SÍBS senn 70 ára

Í október n.k. verða liðin 70 ár frá stofnun SÍBS á Vífilsstöðum árið 1938. Frumkvæðið kom frá sjúklingum á Kristneshæli en að stofnun samtakanna stóðu fulltrúar allra berklahælanna, þ.e. Kristneshæli, Reykjahæli í Ölfusi, Kópavogshæli og Vífilsstaðahæli.

 

Tveir undirbúningsfundir voru haldnir og aðdragandi stofnunarinnar bar því gott vitni hver áhuginn og krafturinn var í þessum frumherjum, þótt sjúklingar væru. Í september 1938 var samið „Ávarp frá undirbúningsnefnd til stofnunar Landssambands berklasjúklinga." Ávarpið birtist í flestum blöðum landsins og var brýning til landsmanna um að leggja málefninu lið: „Ætti öllum að vera það ljóst hvert alvörumál hér er á ferðum, en það nægir ekki að fámennur hópur lækna geri sitt ýtrasta, heldur verður hver einstaklingur að gera skyldu sína sjálfs sín vegna og vegna þess umhverfis sem hann lifir í …".

 

Tuttugu og átta fulltrúar mættu á stofnfundinn og auk þess fjórir læknar og yfirhjúkrunarkona á Vífilsstöðum. Á fundinum voru sambandinu sett lög og stefnuskrá til bráðabirgða. Fyrsti forseti SÍBS var Andrés Straumland. Hér verður ekki rakin saga SÍBS sem er merk og skýrt dæmi um hverju samtök fólks geta áorkað, þó félagsmenn þeirra eigi við vanheilsu að stríða. Afmælisins verður minnst með margvíslegum hætti. Sambandsþing SÍBS verður haldið föstudag 24. og laugardag 25. október og er gert ráð fyrir að málþing verði haldið í tengslum við það. Þá hefur verið rætt um að gefa út sérstakt afmælisblað í ágúst.

 

Hugmyndir hafa verið reifaðar í stjórn SÍBS um að í vor verði á vegum SÍBS fjölskyldudagur með útiveru og skipulagðri dagskrá. Einnig að rækta upp trjálund þar sem félagsmenn SÍBS og fjölskyldur þeirra gætu notið útiveru. Fyrir mörgum árum var lundur í Heiðmörk tileinkaður Berklavörn og hefur hann verið notaður af félagsmönnum deildarinnar.

 

Norrænu hjarta- og lungnasamtökin, NHL voru stofnuð á Reykjalundi í tengslum við 10 ára afmæli SÍBS 1948 og eru þau samtök því 60 ára í sumar. Aðalfundur NHL verður haldinn hér á landi 22.-24. ágúst n.k. og stjórn þeirra hafa óskað eftir að í tengslum við þann fund verði afmælis beggja samtakanna minnst. SÍBS hefur verið falið að sjá um framkvæmdina. Nánar verður fjallað um afmælisárið á heimasíðu SÍBS www.sibs.is og með auglýsingum og tilkynningum til félaganna þegar kemur fram á árið.

 

                            (Heimild: SÍBS bókin. Rvík 1988.) P.B.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *