Hjartaheill – Landssamtök hjartasjúklinga 25 ára

Þegar Landssamtök hjartasjúklinga, sem nú heita Hjartaheill, voru stofnuð var tíðni kransæðasjúkdóms á Íslandi í hámarki.  Þá mátti reikna með því að 20- 30 % þeirra sem fengju kransæðastíflu myndu ekki lifa það af. Síðustu ár hefur dánartíðnin við kransæðastíflu lækkað og er í dag einungis um 5%.  Þetta var fyrir 25 árum, nánar til tekið 8. október 1983 og voru stofnfélagar 230, nú eru félagsmenn Hjartaheilla 3600.  Allt frá stofnun hafa samtökin beitt sér fyrir fræðslu og forvörnum varðandi hjartasjúkdóma, veitt aðstoð og ráðgjöf og staðið fyrir margvíslegum umbótum í þágu hjartasjúklinga.

 

Þrátt fyrir lækkun dánartíðni vegna hjarta og æðasjúkdóma með forvörnum, breyttum lífsstíl landsmanna og framförum í læknismeðferð, eru þeir enn langalgengasta dánarorsökin á Íslandi. Allt að 700 manns deyja ár hvert af völdum hjarta- og æðasjúkdóma eða tæp 40% þeirra sem látast ár hvert, um það bil 360 karlar og 330 konur. Það þýðir að daglega látast nærri 2 íslendingar, 1 karl og 1 kona, úr hjarta og æðasjúkdómum.

 

Þessi alvarlega staðreynd blasir við þó að undanfarna áratugi hafi unnist stórir sigrar við að fyrirbyggja og meðhöndla hjartasjúkdóma. Sem dæmi um framfarir má nefna að með öflugu forvarnarstarfi hefur tekist að draga úr áhrifum helstu áhættuþátta. Helmingi færri reykja en þegar mest var og betri stjórn hefur náðst á háum blóðþrýstingi og blóðfitu landsmanna. Lyfjameðferð hefur batnað svo og meðferð á hjartadeildum og í endurhæfingu.

 

Á síðustu áratugum hafa komið fram margar áhrifaríkar aðferðir til að greina og meðhöndla hjartasjúkdóma svo sem hjartaþræðingar og kransæðavíkkanir.  Kransæðaskurðaðgerðir hafa orðið ein algengasta skurðaðgerð á vestrænum sjúkrahúsum.  Þá hafa einnig orðið miklar framfarir í raflækningum.  Loks hafa áhrifarík lyf af ýmsu tagi komið til sögunnar t.d. gegn hjartabilun, háþrýstingi, blóðfitu og til þess að leysa upp blóðsega.

 

Hjartasjúkdómar geta einnig lagst þungt á ungt fólk og börn. Möguleikar til greiningar á meðfæddum hjartasjúkdómum hafa batnað til mikilla muna og miklar framfarir hafa orðið í hjartaskurðlækningum við meðfæddum hjartagöllum.

 

Endurhæfing eftir áföll og aðgerðir hefur reynst mörgum ómetanleg til að ná aftur þeim  andlega og líkamlega styrk, sem þarf til að taka fullan þátt í þjóðfélaginu að nýju.

 

Enda þótt mikið hafi áunnist í baráttunni við hjarta- og æðasjúkdóma má ekki sofna á verðinum. Því er spáð að fjöldi þeirra sem munu lifa með afleiðingum hjartasjúkdóma og hjartaáfalla muni vaxa verulega á næstu áratugum.  Þessum hópi verður að sinna, og hann mun þurfa áframhaldandi lyfjameðferð og eftirlit vegna síns sjúkdóms og m.a. vegna þessa mun þörfin fyrir þjónustu til handa hjartasjúklingum aukast á komandi árum.

 

Öll þessi nýju lyf, aðgerðir og lækningatæki kosta mikla peninga en fyrir þann kostnað fæst ávinningur sem alls ekki má vanmeta. Fyrir einstaklinginn er það ómetanlegt að ná aftur heilsu og geta farið aftur út á vinnumarkaðinn. Af því er einnig að sjálfsögðu beinn  þjóðhagslegur ávinningur. Sá hluti bókhaldsins gleymist býsna oft.

 

Á fjárlögum er yfirleitt of lítið fé ætlað til tækjakaupa í íslenska heilbrigðiskerfinu. Einstaklingar og samtök þeirra hafa oft brugðist við því með margvíslegum stuðningi ekki síst með fjárframlögum til tækjakaupa og eiga því ríkan þátt í því að íslenska heilbrigðiskerfið er jafn gott og raun ber vitni.

 

Á Landspítala-háskólasjúkrahúsi eru nú tvö hjartaþræðingartæki með öllum búnaði.  Bæði eru tækin komin til ára sinna og það eldra meira en 10 ára gamalt.  Slíkur háþróaður tækjabúnaður úreldist fljótt og því brýn þörf orðin á endurnýjun auk þess sem það er mikið öryggisatriði.  Á biðlistum eftir hjartaþræðingum og hjartaskurðaðgerðum eru nú nær 300 manns og því augljóst hversu alvarlegt ástand mundi skapast ef annað þessara tækja yrði ónothæft.  Er nú stefnt að því að koma upp þriðja hjartaþræðingartækinu á sjúkrahúsinu.

 

Ljóst er að hér er um stórvikri að ræða sem kosta mun hátt á þriðja hundrað milljónir króna með aðstöðu og öllum aukabúnaði.  Til að koma slíku stórvikri í höfn þarf mikið og samstillt átak allra þeirra sem leggja vilja góðu málefni lið.  Í tilefni 25 ára afmælis Hjartaheill vilja samtökin leggja sitt af mörkum til að tryggja að þetta markmið náist nú á afmælisárinu.  Samtökin heita því hér með að styrkja kaup á tæki þessu svo og nauðsynlegum fylgibúnaði með fjárframlagi að upphæð kr. 25 millj. 

 

Í mars mánuði 2009 munu samtökin efna til landssöfnunar undir merkinu Þjóðarátak Hjartaheilla "Hjartans mál".

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *