Hjartaheill 25 ára „Hjartans mál“

Á Landspítala-háskólasjúkrahúsi eru nú tvö hjartaþræðingartæki með öllum búnaði.  Bæði eru tækin komin til ára sinna og það eldra meira en 10 ára gamalt.  Slíkur háþróaður tækjabúnaður úreldist fljótt og því brýn þörf orðin á endurnýjun auk þess sem það er mikið öryggisatriði.  Á biðlistum eftir hjartaþræðingum og hjartaskurðaðgerðum eru nú nær 300 manns og því augljóst hversu alvarlegt ástand mundi skapast ef annað þessara tækja yrði ónothæft. 

Er nú stefnt að því að koma upp þriðja hjartaþræðingartækinu á sjúkrahúsinu.

 

Ljóst er að hér er um stórvikri að ræða sem kosta mun hátt á annað hundrað milljónir króna með aðstöðu og öllum aukabúnaði.  Til að koma slíku stórvikri í höfn þarf mikið og samstillt átak allra þeirra sem leggja vilja góðu málefni lið.  Í tilefni 25 ára afmælis Hjartaheill vilja samtökin leggja sitt af mörkum til að tryggja að þetta markmið náist nú á afmælisárinu.  Samtökin heita því hér með að styrkja kaup á tæki þessu svo og nauðsynlegum fylgibúnaði með fjárframlagi að upphæð kr. 25 millj.  Efnt verður til landssöfnunar undir merkjum Hjartaheilla og stefnt að því að safna kr. 50 millj. á þessu afmælisári og mun allt það fé sem safnast umfram áður nefndar kr. 25 millj. einnig renna til hjartalækningadeildar sjúkrahússins.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *