Fór strax út að leika sér

Hólmvíkingar fagna sumrinu meira í ár en venjulega. Einn af yngstu bæjarbúunum, Daníel Freyr Newton, er nefnilega farinn að leika sér úti í blíðunni, aðeins nokkrum dögum eftir mikla hjartaaðgerð í Boston í Bandaríkjunum.

 

„Hann var ekki sérstaklega mikið fyrir útileiki áður þar sem hann þreyttist fljótt vegna hjartagallans sem hann fæddist með. Við komum heim frá Boston 29. maí og daginn eftir var hann kominn út að leika sér. Ég hefði haldið að hann myndi taka það rólega en nú þarf í rauninni að hemja hann," segir Jóhanna Guðbrandsdóttir, móðir Daníels litla.

 

Til Boston af fæðingardeild

Hjartagallinn uppgötvaðist þegar Daníel, sem er 6 ára, var í lokaskoðun fyrir heimferð frá  fæðingardeild Landspítalans. Í stað þess að fara með snáðann heim fóru foreldrarnir, Jóhanna og Þorsteinn Newton, með hann nokkurra daga gamlan til Boston. „Ósæðarlokan var of þröng og hún var víkkuð út á sjúkrahúsinu í Boston. Við fórum svo aftur með Daníel til Boston í sama tilgangi þegar hann var 3 mánaða," greinir Jóhanna frá. Hún segir örvef hafa verið farinn að vaxa fyrir innan ósæðarlokuna sem aðgerð var gerð á þann 22. maí síðastliðinn. „Lokan var snyrt til. Það var orðið erfiðara fyrir hana að vinna."

 

Mikil breyting eftir aðgerðina

Að sögn Jóhönnu þurfti sá stutti iðulega að setjast niður til að hvíla sig. „Hann skoðaði þá bækur eða fór í tölvuleiki. Við sjáum hins vegar mikla breytingu á honum eftir aðgerðina. Hann er ekki jafnþreyttur á kvöldin og áður. Það er ekki að sjá að hann hafi verið í mikilli aðgerð. Ég bjóst ekki við að þurfa að stíga á bremsuna strax. Það verður maður hins vegar að gera vegna þess að brjóstbeinið er ekki enn gróið og hann má ekki verða fyrir hnjaski á meðan svo er. Þess vegna verðum við að vera með honum þegar hann er úti að leika sér."

 

Þakklát fyrir stuðninginn

Jóhanna segir bæjarbúa samfagna fjölskyldunni innilega. „Við höfum fengið bæði fjárhagslegan og andlegan stuðning frá þeim vegna ferða okkar til Boston. Það er mjög gott að finna fyrir þessari samkennd." Og bróðir Daníels, Róbert Máni, sem er 5 ára, er auðvitað feginn að fá stóra bróður með sér í útileiki. 24 stundir fimmtudaginn 5. júní 2008

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *