Kæfisvefn tíðkast meðal barna

Kæfisvefn tíðkast meðal barna

Áætlað er að þrjú til tólf prósent barna á grunnskólaaldri hrjóti. Flest þeirra eiga ekki við nein önnur vandkvæði að stríða en um tvö prósent barna þjást af kæfisvefni sem í auknum mæli er talinn valda hegðunarvandamálum hjá börnum.

 

Kæfisvefn tíðkast meðal barnaÞekkt einkenni
Samkvæmt ráðleggingum frá félagi bandarískra sérfræðinga um svefnvandamál er ýmislegt sem getur bent til þess að barnið þjáist af kæfisvefni. Þau börn eru gjarnan þreytt á daginn og sofa óreglulega og illa þar sem þau vakna oft, grípa andann á lofti í svefni og geta átt erfitt með að halda athygli þegar í skólann er komið. Kæfisvefn hjá börnum getur verið fylgifiskur of
stórra hálskirtla, of hás blóðþrýstings eða þess að barnið er of þungt.

Hægt er að rannsaka barnið með ýmsum ráðum, t.d. þar sem hegðun þess í svefni er tekin upp eða rannsökuð með þar til gerðri tækni.

Kæfisvefn
Á Vísindavefnum segir að kæfisvefn (e. sleep apnea) geti verið hættulegur og full ástæða sé fyrir þá sem þjást af honum að leita til læknis. Þar segir einnig að kæfisvefn sé til hjá börnum en sé þó langalgengastur hjá fullorðnum karlmönnum. Á vefsíðunni doktor. is ritar Þórarinn Gíslason læknir að öndunartruflanir fyrirfinnist einnig hjá börnum og hafi rannsókn meðal sex mánaða til sex ára barna í Garðabæ sýnt að að minnsta kosti 2,4% þeirra voru með öndunartruflanir í svefni.

Rannsóknir hafa verið gerðar á kæfisvefni barna hér á landi en slíkar rannsóknir eru taldar mikilvægur þáttur í greiningu barna með svefnraskanir þar sem þær geta varpað ljósi á algengi, orsakir og alvarleika þessa sjúkdómsástands.

Einnig geta svefnrannsóknir auðveldað valið fyrir þau börn sem þurfa á sértækri meðferð að halda á borð við skurðaðgerð eða öndunarvélarmeðferð við kæfisvefni eða lyfjameðferð við vélindabakflæði.

Til er íslenskt félag einstaklinga með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflarnir sem kallast Vífill og má lesa ýmsan fróðleik á vefsíðu félagsins www.vifill.blog.is.

24 stundir miðvikudaginn 11. júní 2008

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *