Yfirvinnubann samþykkt

Morgunblaðið/ÞÖK Bann Náist samningar ekki skellur á yfirvinnubann 10. júlí nk.

Niðurstöður kosninga ljósar og styðja tæp 95% hjúkrunarfræðinga yfirvinnubann frá og með 10. júlí *Náist kjarasamningar ekki fyrir 25. júní verður boðað til bannsins en næsti fundur er á morgun.

 

Morgunblaðið/ÞÖK Bann Náist samningar ekki skellur á yfirvinnubann 10. júlí nk.  „ÞETTA eru skýr skilaboð um að hjúkrunarfræðingar sætta sig ekki við það tilboð sem lagt hefur verið fram til þessa," segir Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh).

 

Að sögn Guðlaugar Rakelar Guðjónsdóttur, starfandi hjúkrunarforstjóra Landspítalans, er verið að kanna hversu margar yfirvinnuvaktir eru unnar dag hvern og á hvaða deildum þær eru algengastar. „Það er ljóst að þetta mun hafa töluverð áhrif á spítalann. Það sem við komum til með að kortleggja helst er að vernda bráðaþjónustuna þannig að það verður okkar markmið í þessu." Guðlaug segir júlí vera afar erfiðan mánuð sökum sumarfría. Hún vill ekki ganga svo langt að kalla ástandið sem myndi skapast neyðarástand en vissulega verði þetta erfitt. „Það eru ekki fordæmi fyrir yfirvinnubanni. Fíh hefur ekki boðað til slíkra aðgerða áður. Verkfall er eitthvað sem við þekkjum og vitum eftir hvaða neyðarlausnum er farið en þetta er eitthvað sem við höfum í raun og veru ekki gert áður."

 

Flestar deildirnar undirmannaðar

Birna Flygenring, framkvæmdastjóri hjúkrunar á St. Jósepsspítala, segir bannið ekki munu hafa mikil áhrif á sjálfan spítalann sökum sumarlokana á mörgum deildum en hinsvegar muni það hafa skelfileg áhrif á hjúkrunarheimilið Sólvang. „Við höfum ekki haft neinar afleysingar þar svo afleysingin byggist á aukavinnu hjúkrunarfræðinga."

 

Þeir hjúkrunarfræðingar sem rætt var við eru uggandi vegna ástandsins og sammála um að það yrði afar slæmt fyrir deildirnar sem flestar séu undirmannaðar. Sagði einn hjúkrunarfræðingurinn deildina sína hreinlega rekna á yfirvinnu. Nokkrir veltu fyrir sér áhrifum bannsins á næturvaktir sumra deilda sem eru frá kl. 23 til 8.30 en síðustu 90 mínúturnar reiknuðust sem yfirvinna. Ættu hjúkrunarfræðingar að ganga út kl. 7, klukkutíma áður en morgunvaktin mætti til starfa?

Morgunblaðið þriðjudaginn 24. júní 2008

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *