„Ánægjuleg þróun“

Skurðdeild Landlæknisembættið tekur saman og birtir þrisvar á ári stöðu biðlista eftir völdum aðgerðum.

„ÞETTA er ánægjuleg þróun," segir Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra um nýja samantekt Landlæknisembættisins á biðlistum eftir völdum aðgerðum á sjúkrahúsum landsins sem sýnir að biðlistar hafa almennt styst milli mælinga.

 

„Þegar maður skoðar þessar tölur og þróunina er augljóst að starfsmenn og nýir stjórnendur Landspítalans sem og Vilhjálms-nefndin hafa staðið sig mjög vel," segir Guðlaugur Þór. Rifjar hann upp að heilbrigðisyfirvöld hafi í samráði við landlækni ákveðið að biðlistatölur yrðu birtar reglulega, annars vegar til að upplýsa almenning en ekki síður til þess að veita heilbrigðisyfirvöldum nauðsynlegt aðhald.

 

Skurðdeild Landlæknisembættið tekur saman og birtir þrisvar á ári stöðu biðlista eftir völdum aðgerðum. Líkt og sjá má í meðfylgjandi töflu hefur biðlisti fyrir hjartaþræðingu styst verulega milli mælinga. Einhverjir listar standa nánast í stað en eini listinn sem lengst hefur svo nokkru nemi er vegna gerviliðaaðgerða á hnjám. Samkvæmt upplýsingum frá Matthíasi Halldórssyni aðstoðarlandlækni eykst fjöldi þessara aðgerða jafnt og þétt sem skýrist af tvennu, því að þjóðin þyngist og því að aðgerðirnar verða sífellt öruggari sem veldur því að aldursrammi sjúklinga víkkar. Verði boðað yfirvinnubann hjúkrunarfræðinga að veruleika má ljóst vera að öllum aðgerðum sem hugsanlega geta beðið verður frestað.

 

Aðspurður segist Guðlaugur Þór vissulega hafa áhyggjur af því að yfirvinnubannið verði að veruleika. „Ég vonast til þess að samningsaðilar nái saman og ekki komi til yfirvinnubannsins því það myndi hafa mjög slæm áhrif og væntanlega hafa neikvæð áhrif á þann góða árangur sem við höfum náð í því að stytta biðlista eftir aðgerðum."

Morgunblaðið föstudaginn 27. júní 2008

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *