Hjartaþræðingar úti í bæ?

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir

Markmið okkar jafnaðarmanna er að tryggja landsmönnum bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á án tillits til efnahags. Í frétt í 24 stundum í gær kemur fram að Hjartamiðstöð Íslands hafi lýst áhuga á að gera hjartaþræðingar á Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg.

 

Ásta Ragnheiður JóhannesdóttirNú fara hjartaþræðingar eingöngu fram á Landspítalanum. Bið hefur verið eftir hjartaþræðingum, en hún hefur styst, – færri bíða nú en áður og á næstunni verður opnuð þriðja hjartaþræðingarstofan fyrir gjafafé Jónínusjóðsins og Hjartaheilla.

 

Löng bið eftir aðgerðum sem ógnað getur lífi sjúklings er óviðunandi. Ef Landspítalinn getur ekki annað þörfinni fyrir ákveðin læknisverk á viðunandi tíma er eðlilegt að gerðar verði ráðstafanir til að stytta bið.

 

Læknisverk, s.s. augnaðgerðir hafa verið boðin út til að stytta biðlista og það gefist ágætlega. Þegar það er gert er að ýmsu að hyggja. Það verður að tryggja að gæðin séu ekki síðri en hjá opinberum aðilum, öryggi sjúklingsins tryggt og kostnaður hins opinbera sé ekki meiri en ella og að sjúklingar geti ekki borgað sig fram fyrir aðra í röðinni. Það er heldur ekki viðunandi að t.d. LSH sitji uppi eingöngu með erfiðu og flóknu læknisaðgerðirnar.

 

Tryggja verður að dýrar fjárfestingar í skurðstofum og tækjabúnaði spítalans nýtist sem best og einnig þarf að meta hvort það sé þjóðhagslega hagkvæmt að vera með dýran tækjabúnað á tveimur stöðum, því á endanum greiðir ríkið kostnaðinn. Mikilvægt er að á spítalanum séu gerðar það margar aðgerðir að starfsfólk haldi bestu færni í því verki og viðhaldi faglegri þekkingu á stofnuninni.

 

Án efa er hægt að gera einfaldar hjartaþræðingar úti í bæ. En ég hef efasemdir um hagkvæmni þess við núverandi aðstæður. Með nýrri sjúkratryggingastofnun sem tekur til starfa í vetur, að norrænni fyrirmynd, verður hægt að meta þessa hluti betur, kalla eftir útboðum og síðan meta hvar, hvort og hvenær ástæða er til að fela einkaaðilum læknisverk að teknu tilliti til ofangreindra atriða. Það yrði þá gert með þjónustusamningi og virku eftirliti með honum. Frétt af vef Ástu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *