
Heimilislæknar hafa lengi búið við það, einir sérfræðilækna, sem starfa samkvæmt samningi við ríkið, að mega ekki opna sjálfstætt reknar læknastofur, heldur verið skyldaðir að starfa á heilsugæzlustöðvum.
Þetta hefur rýrt kjör heimilislækna og leitt til þess að ungir læknar fara í sérnám í öðrum greinum en heimilislækningum.
Afleiðingin af því er skortur á heimilislæknum. Sumir fá engan heimilislækni. Aðrir fá heimilislækni en eru annaðhvort búnir að leita annað eða þeim er batnað þegar þeir loks fá tíma hjá honum!
Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra hefur nú loksins staðið við gamalt fyrirheit sem framsóknarmenn í heilbrigðisráðuneytinu gáfu en efndu ekki um að heimilislæknar fái að starfa sjálfstætt.
Seinna á árinu verður boðin út einkarekin heilsugæzlustöð eða læknastofa nokkurra heimilislækna að því er Sjónvarpið greindi frá í gærkvöldi.
Sjúklingarnir munu áfram borga það sama og á heilsugæzlustöðvum hins opinbera. Sömu kröfur verða gerðar og til opinberra heilsugæzlustöðva.
Afleiðingin verður væntanlega meiri samkeppni, meiri afköst og betri þjónusta í heilsugæzlunni. Einkarekstur, sem heilbrigðisráðherra hefur beitt sér fyrir, hefur nú þegar stuðlað að meiri skilvirkni og styttingu biðlista í heilbrigðiskerfinu. Morgunblaðið miðvikudaginn 9. júlí 2008