Læknar merkja áhrif reykingabannsins

Morgunblaðið/Ásdís Áhrif Þótt ekki sé liðið nema rúmt ár frá innleiðingu reykingabannsins á Íslandi virðast læknar strax farnir að taka eftir jákvæðum áhrifum þess.

Rúmt ár er nú liðið frá því reykingabann var innleitt á veitinga- og skemmtistöðum á Íslandi. Markmið bannsins var samkvæmt lögum að tryggja starfsfólki veitinga- og skemmtistaða reyklausan vinnustað, en að sama skapi þurfa almennir gestir ekki að anda að sér reyk samgesta sinna. Hjartalæknar virðast strax merkja ávexti bannsins.

 

Morgunblaðið/Ásdís Áhrif Þótt ekki sé liðið nema rúmt ár frá innleiðingu reykingabannsins á Íslandi virðast læknar strax farnir að taka eftir jákvæðum áhrifum þess. Færri tilvik til hjartalækna.

Færri reyklausir karlar þurfa nú á hjartaþræðingu að halda vegna óstöðugs kransæðasjúkdóms. Þessi fækkun gæti verið reykingabanninu að þakka, ef marka má niðurstöðu hjartalækna á Landspítala, sem kynnt var fyrir skömmu.

 

Á fimm mánaða tímabili bæði fyrir og eftir reykingabannið skoðuðu þeir fjölda þeirra sem reyktu ekki sjálfir en komu inn á bráðamóttöku með óstöðugan kransæðasjúkdóm (hjartaáfall eða mjög alvarlega hjartaverki) svo að þeir þurftu á kransæðaþræðingu að halda. Fimm mánuðum fyrir bannið þurftu 157 karlar með sjúkdóminn á hjartaþræðingu að halda en 21% færri eða 124 eftir bannið. Mest voru áhrifin hjá yngri körlum, en enginn munur var á tíðninni meðal kvenna.

 

„Þessi hópur með óstöðugan kransæðasjúkdóm hefur ekki verið skoðaður áður með tilliti til áhrifa reykingabanns en niðurstöðurnar eru í samræmi við það sem hefur sést varðandi sjúklinga með kransæðastíflu víða erlendis," segir Þórarinn Guðnason, hjartalæknir og ábyrgðarmaður rannsóknarinnar. Hann telur líklegt að reykingabannið og minnkun óbeinna reykinga sem því fylgdi sé skýringin á þessari breytingu. „Við þurfum þó frekari rannsóknir til að staðfesta þetta og erum að vinna að þeim."

 

Efni í reyknum valda æðaherpingu og slá út þætti sem vernda æðarnar gegn myndun blóðtappa. Hvað varðar skýringu á því að tíðnin lækkar ekki hjá konum bendir hann á að líkleg skýring sé að karlar fái sjúkdóminn yngri. Æðakölkun byrjar jafnvel fyrir þrítugt og kransæðasjúkdómur kemur upp úr fertugu meðal karla, en konur fá kransæðasjúkdóm 10-20 árum síðar á ævinni. „Yngri karlar eru líklegri til að hafa sótt reykfyllta skemmtistaði eða starfa þar en konur yfir sextugt."

 

Svipað virðist vera uppi á teningnum varðandi hjörtu nágranna okkar í Skotlandi. Í apríl 2006 tók þar í gildi reykingabann á opinberum stöðum. Læknar þar fylgdust með tíðni hjartaáfalla tíu mánuðum fyrir bannið og tíu mánuðum eftir innleiðinguna, og fækkaði þeim um 20,5% á tímabilinu

 

Meiri hjálp mikilvæg

Viðar Jensson, verkefnastjóri tóbaksvarna hjá Lýðheilsustöð, er sáttur við árangur bannsins. Hann bendir á könnun Vinnueftirlitsins þar sem fram kemur að meirihluta starfsfólks staðanna líði betur eða miklu betur í vinnunni eftir innleiðingu bannsins og telji að bannið hafi ekki leitt til fækkunar gesta. Hann slær þó þann varnagla við könnuninni að svarhlutfallið hafi verið lágt. Að sögn Viðars verður næst lögð áhersla á að hjálpa þeim sem vilja hætta að reykja auk forvarnastarfs. Hann vísar í evrópska skýrslu sem tekur út stöðu tóbaksvarna í álfunni. Árið 2007 hreppti Bretland fyrsta sætið en Ísland lenti ásamt Írlandi í 2. til 3. Munurinn á Bretlandi og okkur liggur aðallega í því að Bretland fær 10 stig af 10 mögulegum þegar kemur að því að hjálpa fólki að hætta, en Ísland tvö.  Morgunblaðið fimmtudaginn 31. júlí 2008

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *