KVENKYNS reykingamenn geta átt á hættu að fá hjartasjúkdóma um sama aldur og karlkyns reykingamenn, en allajafna fá konur hjartasjúkdóma mun seinna á lífsskeiðinu en karlar.
Þetta sýnir ný rannsókn sem gerð var af vísindamönnum við sjúkrahús í Lillehammer í Noregi. Rannsóknin leiddi í ljós að reyklausir karlar fengu að meðaltali fyrsta hjartaáfallið 72ja ára en 64 ára ef þeir reyktu. Reyklausar konur fengu hins vegar að meðaltali fyrsta hjartaáfallið 81 árs en 66 ára ef þær reyktu.
Þegar tekið hafði verið tillit til annarra þátta, sem geta orsakað hjartaáfall, kom í ljós að konur sem reykja eiga á hættu að fá hjartaáfall nærri 14 árum fyrr en konur sem ekki reykja. Hjá körlum er munurinn sex ár.
Talið er að kvenhormón verndi konur gegn hjartasjúkdómum og geri það að verkum að þær fá sjúkdómana seinna en karlar. Með reykingum telja vísindamennirnir líklegt að konur fari fyrr á breytingaskeiðið og verði því berskjaldaðri gegn hjartaáföllum.
Morgunblaðið miðvikudaginn 3. september 2008