Formannafundur Hjartaheilla

Stjórn Hjartaheilla ásamt formönnum landshlutasamtaka og starfsnefnda hélt sinn árlega fund í Vestmannaeyjum 6. september s.l.  Stjórn samtakanna er skipuð 7 mönnum auk 3ja varamanna, landshlutasamtökin eru 11 að meðtöldum Neistanum, félagi foreldra barna með hjartasjúkdóma.  Starfsnefndir eru tvær svo og ritstjórn Velferðar.

 

Nær helmingur allra dauðsfalla á Íslandi stafar af hjartasjúkdómum sem segir okkur að um 700 einstaklingar deyja úr sjúkdómum af þessu tagi á ári hverju eða 2 á hverjum einasta degi.  Tvö til þrjú hundruð manns eru á biðlistum eftir hjartaþræðingum og því miður gerist það of oft að fólk deyr meðan beðið er læknisaðgerða.  Þó vissulega beri að þakka það sem áunnist hefur á undanförnum árum telur fundurinn að við þessu ástandi verði að bregðast af auknum krafti.

 

Auk reglu bundina fundarstarfa var aðal fundarefnið umfjöllun um 25 ára afmæli samtakanna en þau voru stofnuð 8. október 1983.  Áhersla afmælisársins er þríþætt: Í fyrsta lagi að kynna starfsemi og hlutverk samtakkanna sem felst í forvarnarstarfi og velferðarmálum ásamt fræðslu um hjartasjúkdóma.  Í öðru lagi að gera grein fyrir mikilvægi endurhæfingar og að hjartasjúklingar geta aftur náð góðri heilsu og farið út á vinnumarkað á ný.  Í þriðja lagi að beita kröftum samtakanna til að stórbæta heilbrigðisþjónustuna í þágu hjartasjúklinga.

 

Þessum áherslum hyggjast samtökin ná með útgáfu myndarlegs afmælisrits Velferðar, tímarits Hjartaheilla, þar sem starfsemin verður rækilega kynnt og með ráðstefnu eða málþingi fyrir almenning þar sem sérfræðingar fjalla um sjúkdóminn, forvarnir og endurhæfingu.  Þá hefur Hjartaheill heitið Landspítala-háskólasjúkrahúsi (LSH) styrk að upphæð 25 millj. kr. til kaupa á nýju hjartaþræðingartæki.  Samtökin hyggjast beita sér fyrir landssöfnun á haustmánuðum í tengslum við 25 ára afmælið og stefna að því að safna 50 millj. kr. því heildar kostnaður við að koma upp þriðju hjartaþræðingarstofunni er um 200 millj. kr. og því þörf á að sameina krafta til þessa stórátaks.  Heitir fundurinn á landsmenn alla að leggja þessu góða máli lið. 

 

Mörg önnur mál voru rædd á fundinum.  Má þar nefna erfiðleika sjúklingasamtaka eins og Hjartaheilla við að afla tekna til að reka starfsemi sína.  Flest samtök reyna að afla fjár með svipuðum hætti s.s. sölu happdrættismiða, jólakorta, merkja eða muna og stöðugt er erfiðara að ná til almennings á þann hátt.  Þá var rætt um mikilvægi forvarna sem Hjartaheill hafa tekið virkan þátt í, t.d. með mælingum á blóðfitu og blóðþrýstingi, bæði á vinnustöðum og með ferðalögum um landið í þessu skyni.

 

Loks má nefna að á fundinum komu fram áhyggjur einstakra formanna landshlutasamtakanna ef innanlandsflugvöllur verður fluttur til þannig að  hann fjarlægist Landspítalann.  Það er sérstakt áhyggjuefni fyrir landsbyggðafólk sem verður að treysta á sjúkraflug.  Hver einasta mínúta skiptir máli, það getur ráðið úrslitum um líf eða dauða hversu fljótt er hægt að koma hjartasjúklingi undir læknishendur.

 

Fundur stjórnar og formanna deilda Hjartaheilla óskar landsmönnum öllum farsældar og hvetur þá til að leggja góðum málum lið til stórbættrar heilbrigðisþjónustu og betra lífs.

 

Frekari upplýsingar um málefni fundarins og störf Hjartaheilla gefa Guðmundur Bjarnason formaður og Ásgeir Þór Árnason framkvæmdastjóri Hjartaheilla.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *