Sjúkratryggingafrumvarp samþykkt á þingi

MYND/Anton

Frumvarp heilbrigðisráðherra um sjúkratryggingar, sem gerir ráð fyrir sérstakri Sjúkratryggingastofnun sem kaupanda heilbrigðisþjónustu, var samþykkt á Alþingi fyrir stundu með 36 atkvæðum gegn sex. Sex þingmenn sátu hjá.

 

MYND/Anton Þingmenn Vinstri – grænna og Framsóknarflokksins hafa lýst sig andsnúna frumvarpinu og sagði Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður Vinstri – grænna, við umræður í dag að verið væri að knýja í gegn stefnu Sjálfstæðisflokks og hluta Samfylkingar um að einkavæða heilbrigðiskerfið.

 

Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra sagði hins vegar að markmið frumvarpsins væri að allir Íslendingar ættu völ á heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða. Þetta frumvarp myndi auðvelda það krefjandi eilífðarverkefni. Þá mótmælti Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, því að í frumvarpinu fælust skert réttindi sjúklinga eða einkavæðing.

 

Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins. sagði við atkvæðagreiðsluna að árangur lagasetningarinnar byggðist á framkvæmd laganna. Framsóknarflokkurinn væri ekki tilbúinn að taka ábyrgð á því hvernig framkvæmdavaldið færi með lögin og því hygðust þingmenn flokksins sitja hjá. Þá sagði Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, að verið væri að setja múlinn upp í Samfylkingarfólk á þingi og það væri heilbrigðisráðherra sem teymdi það í málinu. Samfylkingin væri gengin inn í Sjálfstæðisflokkinn í sumum málum.

 

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri – grænna, benti á að aðeins einn af ráðherrum Samfylkingarinnar væri viðstaddur atkvæðagreiðsluna og hugsanlega væri einhverjum þeirra ekki eins rótt um frumvarpið og varaformanni flokksins. Sagði hann Vinstri – græn eru algjörlega andvíg markaðsvæðingu og einkarekstri í heilbrigðiskerfinu sem hér væri pakkað í silkiumbúðir. „Gróðahyggjan á hér eftir að vera lögmætt viðmið í heilbrigðisþjónustu á Íslandi," sagði Steingrímur.

 

Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra átti síðasta orðið og þakkaði hann þingmönnum fyrir starfið í kringum frumvarpið. Sagðist hann efast um að unnið hefði verið jafnvel að einu máli á þingi. Umræðan á þingi hefði verið upplýsandi með áberandi undantekningum og vísaði hann þar til orða Vinstri – grænna. Sagði ráðherra varhugavert þegar menn reyndu að gera ákveðna aðila innan heilbrigðiskerfisins og stjórnmálamenn tortryggilega. Í þessu frumvarpi hefði verið farið að ráðum færustu aðila. „Ég óska ykkur öllum til hamingju með þessa löggjöf," sagði heilbrigðisráðherra.

 

Visir.is miðvikudaginn 10. september 2008

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *