Ríkið kaupir og selur

gkeitgj6.jpg

LÖG um sjúkratryggingar sem afgreidd voru á Alþingi í gær fela m.a. í sér stofnun nýrrar Sjúkratryggingastofnunar, sem heyrir undir heilbrigðisráðuneytið. Stofnunin tekur við verkefnum innan heilbrigðiskerfinsins sem Tryggingastofnun sá áður um, en Sjúkratryggingastofnun verður falið að sjá um samninga um kaup á heilbrigðisþjónustu. Nýju lögin byggjast á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem fram kemur að kostnaðargreina eigi einstaka þætti heilbrigðisþjónustunnar og taka upp blandaða fjármögnun á heilbrigðisstofnunum. Slíkt felur í sér að ákveðin grunnfjárhæð renni til tiltekinnar heilbrigðisþjónustu, en hluti fjárins verði afkastatengdur.

 

gkeitgj6.jpgLagasetningin hefur átt sér nokkurn aðdraganda. Frumvarp til laga um sjúkratryggingar var lagt fram á Alþingi síðasta vor og væntu stjórnarliðar þess að það yrði afgreitt fyrir þinglok, en af því varð ekki. Stjórn Sjúkratryggingastofnunar var skipuð í byrjun ársins. Til stóð að hún tæki til starfa 1. september, en tafir urðu á því sökum þess að málið var ekki afgreitt fyrir þinglok í vor. Auglýst hefur verið eftir forstjóra stofnunarinnar og rennur umsóknarfrestur út um miðjan mánuðinn.

 

Gott kerfi, en dýrt

En hver er hugsunin að baki nýju lögunum? Í greinargerð sem fylgir frumvarpinu er bent á að á síðustu árum hafi eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu vaxið jafnt og þétt. Ástæður séu m.a. þær að væntingar almennings aukist stöðugt, tæknilegar framfarir eru hraðar og framþróun læknavísindanna mikil. Þá séu breytingar á aldurssamsetningu þjóðarinnar mikill áhrifaþáttur ásamt aukningu ýmissa lífsstílssjúkdóma. Íslenska heilbrigðiskerfið sé mjög gott, en dýrt, og ekki ljóst hvernig heilbrigðiskerfið ráði við aukningu útgjalda þegar þjóðin verður eldri. Spyrja þurfi hvernig viðhalda eigi þessum gæðum. Hér á landi sé rekstur heilbrigðisstofnana umfram fjárveitingar, jafnvel árum saman, og ekki hafi gengið vel að leysa úr þessu.

 

Ef marka má nýju lögin virðist lausnin einna helst eiga að felast í því að koma á nýju heildarskipulagi og stýringu innan heilbrigðiskerfisins. Í greinargerðinni segir að þetta byggist „í meginatriðum á mismunandi hlutverkum tveggja aðskildra verkþátta kerfisins, þ.e. hlutverki þess sem fyrir hönd notenda og skattgreiðenda aflar, semur um og greiðir fyrir tiltekna þjónustu, og þess sem veitir eða framkvæmir þjónustuna. Í þessu fyrirkomulagi er vísað til þess sem aflar, semur um og greiðir fyrir þjónustuna sem kaupanda og þess sem veitir þjónustuna sem seljanda."

 

Í sjálfum lagatextanum koma þessi hugtök ekki fyrir og er það skýrt þannig að þau skírskoti í íslenskri tungu fyrst og fremst til sambands milli kaupanda og seljanda sem viðskiptasambands.

 

Í greinargerð segir að ríkið verði áfram helsti kaupandinn í heilbrigðisþjónustu en seljendur hennar ýmist ríkisstofnanir, sjálfseignarstofnanir, félagasamtök, einkaaðilar eða sveitarfélög. Þessi skilgreinng geri kerfið gegnsærra og auki kostnaðar- og gæðavitund.

 

Flest nágrannaríki Íslands hafi farið þessa leið. Hér á landi hafi helst verið litið til Svíþjóðar og Bretlands, sem þegar hafi innleitt þetta fyrirkomulag.

Morgunblaðið fimmtudaginn 11. september 2008

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *