Hjartadagurinn – „Hver er þín áhætta“

sveinn_gumundssonff.jpg

Hjartadagurinn var fyrst haldinn árið 2000 og hefur hver dagur ákveðið þema.  Árið 2008 er þema dagsins  „Hver er þín áhætta"  Þetta er annað árið röð sem Hjartavernd og Hjartaheill, landssamtök hjartasjúklinga sameinast um þennan dag hérlendis.

 

sveinn_gumundssonff.jpgHjartadagurinn er haldinn á heimsvísu síðasta sunnudag í september ár hver en það er Alþjóðahjartasambandið (World Heart Federation) með stuðningi frá Alþjóðaheilbrigðis-stofnuninni (WHO) og UNESCO sem hvetur aðildarfélög sín um allan heim til að halda uppá Hjartadaginn.  Hjartavernd er aðildarfélagi Alþjóðahjartasambandsins og Hjartaheill eru heildarsamtök hjartasjúklinga hérlendis.

Markmið Hjartadagsins, sem yfir 100 þjóðir taka þátt í um allan heim, er að auka vitund og þekkingu almennings á ógnum hjarta-og æðasjúkdóma og leggja áherslu á heilbrigða lífshætti svo að börn, unglingar og fullorðnir um allan heim öðlist betra og lengra líf.

 

 

Þrátt fyrir lækkun dánartíðni vegna hjarta- og æðasjúkdóma með forvörnum, breyttum lífsstíl landsmanna og framförum í læknismeðferð, eru þeir enn langalgengasta dánarorsökin á Íslandi. Allt að 700 manns deyja ár hvert af völdum hjarta- og æðasjúkdóma eða tæp 40% þeirra sem látast ár hvert, um það bil 360 karlar og 330 konur. Það þýðir að daglega látast nærri 2 Íslendingar, 1 karl og 1 kona, úr hjarta og æðasjúkdómum.

 

Hjartasjúkdómar geta einnig lagst þungt á ungt fólk og börn. Möguleikar til greiningar á meðfæddum hjartasjúkdómum hafa batnað til mikilla muna og miklar framfarir hafa orðið í hjartaskurðlækningum við meðfæddum hjartagöllum.

 

Endurhæfing eftir áföll og aðgerðir hefur reynst mörgum ómetanleg til að ná aftur þeim  andlega og líkamlega styrk, sem þarf til að taka fullan þátt í þjóðfélaginu að nýju.

 

Á Landspítala-háskólasjúkrahúsi eru nú tvö hjartaþræðingartæki með öllum búnaði.  Bæði eru tækin komin til ára sinna og það eldra meira en 10 ára gamalt.  Slíkur háþróaður tækjabúnaður úreldist fljótt og því brýn þörf orðin á endurnýjun auk þess sem það er mikið öryggisatriði.  Á biðlistum eftir hjartaþræðingum og hjartaskurðaðgerðum eru nú nær 300 manns og því augljóst hversu alvarlegt ástand mundi skapast ef annað þessara tækja yrði ónothæft.  Er nú stefnt að því að koma upp þriðja hjartaþræðingartækinu á sjúkrahúsinu.

 

Ljóst er að hér er um stórvirki að ræða sem kosta mun yfir á annað hundrað milljónir króna með aðstöðu og öllum aukabúnaði.  Til að koma slíku stórvirki í höfn þarf mikið og samstillt átak allra þeirra sem leggja vilja góðu málefni lið.  Í tilefni 25 ára afmælis Hjartaheill vilja samtökin leggja sitt af mörkum til að tryggja að þetta markmið náist nú á afmælisárinu.  Efnt verður til landssöfnunar undir merkjum Hjartaheilla.

 

Sunnudaginn 28. september nk. er Alþjóðlegi hjartadagurinn og er hann haldinn árlega síðasta sunnudag í september.  Við ætlum að halda daginn hátíðlegan á Hálsatorgi í Kópavogi, gegnt Bókasafni Kópavogs og Salnum.

 

Kl. 10.30 verður kynning á stafagöngu og svo farið í göngu einnig verða 3, 5 og 10 km hlaup og hefst 3 km. kl. 10:50, en 5 og 10 km. hlaup hefst kl. 11:00

 

Verðlaun og viðurkenningar
Allir sem ljúka hlaupi fá þátttökuverðlaunapening. Veitt verða vegleg verðlaun fyrir fyrsta karl og konu í 5 og 10 km hlaupi. Einnig verða veitt vegleg úrdráttarverðlaun.

Verðlaunaafhending fer fram strax að hlaupi loknu.

 

Hlaupaleiðin
Startað á Hálsatorgi og komið aftur í mark á Hálsatorgi. Nánari upplýsingar um hlaupaleiðina er á hlaup.is og einnig forskráning í þar.

 

Drykkjarstöð verður á Hálsatorgi við rásmark og jafnframt endamark. Þátttakendum verður einnig boðið frítt í Sundlaug Kópavogs eftir hlaup.

 

Stjórn Hjartaheilla höfuðborgarsvæðinu hvetur félagsmenna sína til að mæta og taka með sér gesti.

 

Sveinn Guðmundsson

formaður Hjartaheilla höfuðborgarsvæðisins

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *