
„Við erum harðgerð þjóð, en við verðum að forgangsraða verðmætum og setja mannslífið í forgang," segir Sveinn Guðmundsson, formaður Hjartaheilla, landssamtaka hjartasjúklinga.
Efnt er til landssöfnunar þar sem stefnt verður að því að safna allt að 150 milljónum króna til styrktar hjartalækningadeild Landspítalans. Þörf er á að endurnýja þann tækjabúnað sem fyrir er og einnig er ætlunin að koma upp nýju hjartaþræðingartæki á sjúkrahúsinu og er athygli vakin á því að nær 300 manns séu á biðlistum eftir hjartaþræðingum og hjartaskurðaðgerðum.
Við opnun átaksins í gær á Barnaspítala Hringsins voru fulltrúar þeirra fyrirtækja og stofnana verðlaunaðir fyrir vegleg framlög. Í tilefni af 25 ára afmæli Hjartaheilla vilja samtökin leggja sitt af mörkum.
Samtökin standa fyrir landssöfnun í janúar næstkomandi en hægt er að leggja þessu lið með framlagi á reikning númer 101-26-68 kt. 511083-0369.
24 stundir fimmtudaginn 9. október 2008