Afmæliskveðja heilbrigðisráðherra

Guðlaugur Þór Þórðarson

Fyrir tuttugu og fimm árum tóku sig saman nokkrir einstaklingar og stofnuðu samtök  hjartasjúklinga. Flestir voru þetta menn sem stríddu við hjarta- og æðasjúkdóma. Samtökunum óx strax fiskur um hrygg og varð fljótt sverð og skjöldur hjartveikra og aðstandenda þeirra.

 

Guðlaugur Þór ÞórðarsonGríðarlegar framfarir hafa orðið í hjartalækningum þann tíma sem Hjartaheill, eins og samtökin heita nú, hafa verið starfandi og færa má fyrir því gild rök að umsvif og mikilvægi samtakanna hafi breyst í takt við þær framfarir.

 

Hjartaheill hafa fylgst vel með þeim nýjungum sem bryddað hefur verið upp á í þjónustu við hjartasjúklinga og komið þeim skilaboðum fljótt og vel til þeirra tæplega 3500 mann sem nú eru virkir í samtökunum. Hjartaheill hafa beitt sér fyrir öflugu forvarna- og upplýsingastarfi gagnvart félagsmönnum sínum og almenningi og hafa óþreytandi hvatt heilbrigðisyfirvöld áfram og barist einarðlega fyrir hagsmunum hjartasjúkra.

 

Samstarf mitt og ráðuneytisins við Hjartaheill hefur verið einstaklega ánægjulegt. Auðvitað erum við ekki alltaf sammála um leiðir en báðir aðilar hafa kappkostað að ná skynsamlegum niðurstöðum. Afnám tilvísunarskyldu vegna komu til hjartalækna er gott dæmi um þetta. Hagsmunamál hjartasjúklinga sem fært var til betra horfs þar sem skynsemi var látin ráða.

 

Á 25 ára afmælinu hafa Hjartaheill skuldbundið sig til að leggja fram 25 milljónir króna  vegna kaupa á fullkomnu hjartaþræðingatæki á hjartadeild Landspítala, en gjafa- og styrktarsjóður Jónínu S. Gísladóttur leggur fram 75 milljónir í þessu sambandi. Þetta eru höfðinglegar gjafir. Hvoru tveggja lýsandi dæmi um það besta sem samtök og einstaklingur

geta látið af sér leiða.

 

Afmælisframlag Hjartaheilla er bara eitt áþreifanlegt dæmi um metnaðinn og kraftinn sem býr í þessum sjúklingasamtökum. Óáþreifanlegu dæmin, sjálf tilvist samtakanna, allt sem þau hægt og hljótt hafa gert fyrir félagsmennina, almennt og hvern fyrir sig, er ómetanlegt fyrir þá sem í hlut eiga. Starf Hjartaheilla er ómetanlegt í íslensku heilbrigðisþjónustunni og  nauðsynleg fyrir íslensk heilbrigðisyfirvöld.

 

Samtök þurfa trausta forystumenn til að geta sinnt hlutverki sínu og til að öðlast traust félagsmanna sinna og alls almennings. Samtökin Hjartaheill hafa notið þess að eiga öfluga forystusveit í 25 ár.

 

Þið hafið unnið þrekvirki og fyrir það ber að þakka, með afmæliskveðju

Guðlaugur Þór Þórðarson

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *