Afrek lækna og heilbrigðisstarfsfólks

Þórir S. Guðbergsson

Hjarta- og æðasjúkdómar eru meðal skæðustu sjúkdóma Evrópu. Íslendingar hafa ekki  sloppið við vágestinn mikla eins og öllum er kunnugt. Fjöldi heimila á Íslandi hafa annað hvort glímt við hann eða kynnst honum hjá frændfólki eða vinum.

 

Þórir S. GuðbergssonSorglegt er að heyra þegar læknar eða heilbrigðisstarfsfólk segir eitthvað á þessa leið: Sárt var að horfa á eftir þessum unga og efnilega manni. Ef hann hefði greinst fyrr hefði mátt bjarga lífi hans. Getum við minnkað tíðni dauðsfalla úr hjarta- og æðasjúkdómum og aukið lífsgæði þeirra sem lenda í hremmingu?

 

Lyf- og hjartalæknar og hjúkrunarteymi hafa bjargað lífi þúsunda Íslendinga. Árangur starfsmanna er á heimsmælikvarða. Áhættugreiningar Hjartaverndar hljóta heimsathygli. Við þurfum að rýna vel bæði aftur í tímann, í nútímann og framtíðina og kanna hvað við getum gert best fyrir einstaklinga, fjölskyldur, börn og unglinga. Ríkis- og sveitarstjórnir þurfa í raun að sjá hve mikilvægt og þjóðhagslega hagkvæmt það er að eiga sterka þjóð og framsækinn landslýð með góða heilsu og líðan.

 

Hjartaheill fagnar 25 ára afmæli 8. okt. 2008. Starfsmenn og stjórnir og félagar allir þakka samstarfsfólki á liðnum árum fyrir góða og gefandi samvinnu og samstarf svo og þeim sem hafa lagt okkur sérstakt lið með fjárframlögum sínum og gert okkur kleift að sinna fjölbreyttu

starfi. Baráttan heldur áfram. Þróunin er hröð og við þurfum að halda vöku okkar.

 

Framsækið Ísland

Fyrir rúmlega 20 árum hófust hjartaskurðlækningar á Íslandi svo dæmi sé tekið af einhverju sviði hjarta- og æðasjúkdóma. Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þessum árum. En betur má ef duga skal.

 

Því fyrr sem sjúklingur með þröngar æðar eða annan sjúkdóm er greindur þeim mun meiri líkur eru fyrir því að lífi hans verði bjargað og hvorttveggja gerist, að hann snúi aftur til betra lífs og þar með að lífsgæðin aukist.

 

Ísland í fremstu röð! Sækjum fram!

Á Íslandi er gott heilbrigðiskerfi með frábærum fagmönnum.Við sækjum fram á mörgum sviðum. Hefur almenningi gleymst hvað hjarta- og æðasjúkdómar eru skæðir og  lífshættulegir? Hvað er að? Þurfa stjórnvöld að breyta viðhorfi sínu og horfa í eigin barm? Höfum við kannski gert of lítið í fræðslu- og forvarnamálum? Hvernig á að vinna það verk? Ég set hér fram eina tillögu sem mætti líta á og heilbrigðisyfirvöld taka alvarlega með því að  láta af hendi ríflegan styrk til næstu ára. Hvernig væri að stofna teymi (með hjartað á réttum stað!) sem væri kjarni fagmanna og héldu fræðslufundi víða um land í samvinnu við lækna/heilsugæslu, fagfólk og stjórnvöld í héraði með ríkisstjórn á bak við sig?

 

Meginmarkmið með herferðinni væri fólgið í fræðslu og forvörn með hvatningu um gott og ánægjulegt líf. Tengiliður á staðnum gæti fylgt málinu eftir með margvíslegum hætti og sveitarstjórnir hugsað með nýjum hætti hvernig unnt er að styðja fólk með markvissum hætti til hollari lífshátta, með bættu umhverfi, herferð gegn vafasömu mataræði, o.s.frv.

 

Hér gæti Hjartaheill verið í fremstu víglínu í samvinnu við aðra aðila eins og t.d. Hjartavernd, en þá þyrfti að fá talsvert fjármagn til fræðslu og forvarnarstarfa eins og áður var nefnt. Hjartaheill og SÍBS hafa reynslu af góðu forvarnarstarfi víða um land. Með þessum hætti gæti Ísland tekið forystu í Evrópu með markvissu og vel skipulögðu starfi.

Bætum líf okkar og líðan. Hreyfum okkur meira með glöðu og skemmtilegu fólki.Verum meðvituð um fæðuval. Aukum lífsgæðin.

 

Vertu með. Gættu sérlega vel að eigin heilsu. Lifðu lífinu í takt við eigin getu, þrek og þor

og njóttu lífsins.

Frá ritstjóra

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *