*Mikill afsláttur á dýrum lyfjum *Sjúklingar halda áfram að taka lyfin eftir að þeir útskrifast en afsláttur gildir ekki utan spítalans *Leið til markaðssetningar.
LYFJAFYRIRTÆKI hafa undanfarið boðið Landspítalanum gríðarlegan afslátt á dýrum lyfjum og við fyrstu sýn er líklegt að menn álykti að með því spari ríkið sér háar fjárhæðir. En ekki er allt sem sýnist.
Afslátturinn veldur því m.a. að sjúklingum eru frekar gefin hin dýrari lyf (sem eru ódýr á spítalanum vegna afsláttarins) en vaninn er sá að sjúklingar halda áfram að taka sömu lyf eftir að þeir hafa verið útskrifaðir af spítalanum. Afslátturinn gildir hins vegar ekki í apótekum og lyfin eru því margfalt dýrari þar en á spítalanum. Í ljósi þess að um 85% af lyfjum er ávísað á apótek má leiða að því líkur að afslátturinn til Landspítalans leiði í raun til hærri lyfjakostnaðar fyrir ríkið.
Stutt á spítalanum en lengi á lyfjum
Sigurður Guðmundsson, fráfarandi landlæknir, fjallar um þetta í dreifibréfi sem hann skrifaði fyrir helgi. Í dreifibréfinu mælist landlæknir til að sjúklingar séu útskrifaðir á ódýrasta lyfi úr hverjum lyfjaflokki, án tillits til þess hvaða lyf þeir fengu á sjúkrahúsinu, ef engar sérstakar ástæður mæla gegn því.
Í dæminu hér til hliðar er fjallað um lyf sem lækka blóðfitu en fólk með veikindi sem henni tengjast eru alla jafnan fremur stutt inni á spítölum en lengi á blóðfitulækkandi lyfjum. „Maður spyr sig, hver er hinn raunverulegi ávinningur fyrir heildarkostnað þjóðarinnar, hvort sem það er hið opinbera eða einstaklinga, þegar svona er í pottinn búið? Þeirrar spurningar þarf að spyrja," sagði Sigurður í samtali við Morgunblaðið.
En telur embættið að tilgangurinn með að bjóða svo mikinn afslátt sé sá að lyfjunum sé þá frekar ávísað eftir að spítalavist lýkur?
„Við vitum það ekki. En það verður samt sem áður að segja að auðvitað býður manni það í grun, að þetta sé leið til markaðssetningar á lyfjum sem eru að mestu notuð utan spítala en stundum er lyfjameðferðin hafin inni á sjúkrahúsum. Og já, þetta er sem sagt leið til markaðssetningar," sagði Sigurður.
Í hnotskurn
» Landspítalanum ber skylda til að bjóða lyfjakaup út og taka lægsta tilboði.