Á elleftu stundu

Flestir þekkja Hermann Gunnarsson, þann góða og eftirminnilega knattspyrnumann.

Næstum hvert mannsbarn þekkir Hemma úr sjónvarpinu og/eða útvarpinu fyrir skemmtilega og glaða þætti og jákvæða framkomu.

 

Fyrir fimm árum fékk öðlingurinn alvarlegt hjartaáfall og má tvímælalaust segja að honum hafi verið bjargað á elleftu stundu. Síðastliðna þrjá mánuði hefur ritstjóri verið í sambandi við

athafnamanninn og loks gátu Valsararnir og gömlu Skógar-drengirnir gengið frá stuttu viðtali á ljúfum nótum, enda leggur Hemmi megináherslu á jákvæðni og góðan hug í lífinu. Hvar er hamingju að finna? Hvernig verður gleðin til? Hún kemur að innan, segir Hemmi og þegar þessi orð eru skrifuð er hann staddur í Haukadal í Dýrafirði til til þess að „hlaða batteríin" eftir hringferð um landið með Bylgjunni.

 

Aðdragandi

Öll mín bernsku og unglingsár einkenndust af sérlega góðri heilsu. Sumir segja, að ég hafi byrjað að hlaupa áður en ég lærði að ganga og voru íþróttir líf mitt og yndi öll mín ungdómsár og jafnvel löngu eftir það.

 

Það er engum blöðum um það að fletta, að íþróttaiðkun mín stuðlaði að góðri líkamlegri heilsu, en ekki síður að jákvæðum lífsviðhorfum og jók minn félagslega þroska svo um munaði og bý ég enn að því.

 

Dæmi er um hjarta- og æðasjúkdóma í móðurætt minni, en móðir mín lést einmitt úr kransæðastíflu, langt um aldur fram.

 

Það hvarflaði aldrei að mér að ég væri með hjartakvilla, hvað þá að ég fengi slíkan lífshættulegan sjúkdóm, en gerði mér þó glögga grein fyrir því, að ég væri ekki ódauðlegur frekar en aðrir menn! En meðan maður er frískur og sæmilega heill andlega og líkamlega hugsar maður sjaldan um veikindi og dauða. Hann virðist manni ætíð svo fjarlægur.

 

Eftirminnilegur atburður

Ég var staddur á heimili systur minnar þegar ég fékk áfallið að kvöldi 30. september árið 2003. Ég var þá búsettur í Asíu um tíma, en var staddur heima í stuttu fríi. Fjórum mánuðum áður greindist ég með alltof háan blóðþrýsting, eitthvað sem ég hafði aldrei áður kynnst í einni eða annarri mynd. Þetta kom fram við læknisskoðun erlendis og fékk ég blóðþrýstingstöflur við því, en tók þær aðeins í tvo mánuði og taldi mig þá vera orðinn fullfrískan, enda hélt ég bara að ástandið væri æfingaleysi um að kenna!!

 

Ég lá í makindum í sófanum þegar áfallið reið yfir og horfði á sjónvarpið. Mér fannst eitthvert smá slen vera að herja á mig, en ekkert alvarlegt, eins og oftast þegar fólk sjúkdómsgreinir sjálft sig! Ég hafði enga verki, andnauð eða nokkuð annað. Allt í einu slokknaði á mér fyrirvaralaust!

 

Það sem varð mér örugglega til lífs var að fyrrverandi mágur minn var staddur hjá systur minni og kunni hann verulega mikið til verka. Hann hóf strax hnoð og hélt því stöðugt áfram

þar til sjúkraflutningamenn komu á staðinn. Þeim tókst að endurræsa mig, en eftir talsverðan hamagang. Heilum átta mínútum eftir að slokknaði á mér fór ég aðeins að ranka við mér. Til allrar hamingju hafði mágur minn haldið áfram hnoði, þannig að eitthvert súrefni barst til heilans.

 

Oft hefur mig langað að ræða þennan atburð og afleiðingar hans við systur mína, en því miður höfum við ekki rætt mikið um þessa alvarlegu lífsreynslu enn sem komið er, en við ætlum svo

sannarlega að ráða bót á því. Mér finnst að stór hluti lífsins sé einmitt fólginn í því að deila reynslu sinni með öðrum. Á því þroskumst við. Með slíkum leiðum lærir maður að koma orðum að því hvernig manni líður. Og báðir aðilar hafa gagn af.

 

Sjúkrahús

Sjúkrabíll kom sem sagt á vettvang örfáum mínútum eftir að hringt var, en án hjartalæknis. Sjúkraflutningamennirnir voru starfi sínu svo sannarlega vaxnir og endurlífguðu mig, reyndar

tvisvar sinnum, þar sem aftur slokknaði á mér á leiðinni á sjúkrahús.

 

Þeir þurftu að beita stuðtæki og svo líklega bara hefðbundnum aðferðum. Ég fór auðvitað í alls kyns rannsóknir, var kældur niður og haldið sofandi í talsverðan tíma, enda líklega  einhver ótti um heilaskaða. Var svo fluttur á gjörgæslu, en ekki var talin ástæða til frekari aðgerða, þar sem meðal annars alltof hár blóðþrýstingur var í aðalhlutverki.

 

Móttakan á gjörgæslu var yndisleg, þegar ég vaknaði til lífsins, hlý, notaleg og kærleiksrík og sannarlega farið með mig sem persónu með vilja og tilfinningar.

 

Einhver þrengsli höfðu verið í kransæðum, en ekki virtist ástæða til að gera nokkuð í þeim málum.

 

Trú og lífsgæði

Ég var þeirrar skoðun frá barnsaldri að við ættum í vændum framhaldslíf í einni eða annarri mynd og þessi mikla lífsreynsla mín staðfestir þá trú mína og nánast sannfærir!

 

Við Íslendingar, jafnt og aðrir höfum verið full ákafir í lífsgæðakapphlaupinu og gerum okkur sjaldan grein fyrir því hvar hamingju sé að finna. Það er erfitt að kaupa hamingju því hún kemur sannarlega að innan.

 

Já, lífshamingja snýst að mínum dómi um innri frið og verulega sátt við sjálfan sig, og okkar jákvæðu tilfinningar getum við ræktað alveg endalaust, en ekki annarra!

 

Það gefur mér mikið að láta gott af mér leiða og það án þess að láta alla heimsbyggðina vita, skila þannig einhverju til baka af öllu því sem minn æðri máttur hefur fært mér um dagana hér

áður fyrr án mikils þakklætis.

 

Ég þarf að byggja mig upp daglega á andlega sviðinu þannig að ég hafi eitthvað að gefa, því enginn gefur sopa úr tómu glasi, en því miður skilja það ekki allir!

 

Atvinna og endurhæfing

Það var með ólíkindum hversu hratt endurhæfing gekk og líklega skilja það fæstir. En það hvarflaði aldrei að mér, að ég yrði að hætta störfum, draga mig í hlé eða ég fengi ekki kraft og

djörfung til góðra verka.

 

Á spítalanum áskotnaðist mér einhver innri ró og friður, sem minn æðri máttur færði mér á silfurfati, eitthvað sem ég hafði leitað allt mitt líf, alls staðar annars staðar en í sjálfum mér!

Þessi yfirvegun og friður hefur einkennt allt mitt líf frá spítaladögum mínum og kann ég hreinlega fáar skýringar á því, en er verulega þakklátur. Þannig vefjast engin verkefni fyrir mér lengur. Ég þekki mín takmörk og getu til góðra verka og tekst á við þau af mikilli yfirvegun og jákvæðni.

 

Þá hef ég varla átt einn dapran dag í tæp fimm ár, en tala ekki mikið um það, því ég veit að margir trúa því ekki, en það geri ég! Líklega er heilmikið til í spakmælinu, að hver sé sinnar gæfu smiður!!

 

Eftirleikur og æfingar

Sennilega hef ég ekki verið nógu duglegur að þjálfa líkamlegt þrek, en syndi þó talsvert og geng úti í náttúrunni. Þeir sem lenda í svipaðri reynslu og ég þurfa auðvitað að hugsa betur um heilsu sína en áður, en gæta þess þó vandlega að falla aldrei í einhverja sjálfsvorkunn eða kvíða, heldur auka jákvætt lífsviðhorf og njóta lífsins til hlítar, en það getum við öll gert svo

sannarlega eða reynt eftir bestu getu, miðað við heilsu okkar og möguleika hverju sinni.

 

Er eitthvað til ráða?

Umræða um heilbrigðari lífshætti hefur aukist verulega mataræði og annað þess háttar en það vantar örugglega meiri fræðslu um viðbrögð við hjartaáföllum, hvernig fólk á að bregðast

við, því fæstir eru jafn heppnir og ég, að lenda í höndum á manni sem kunni til verka.

 

Það þarf að kenna fólki slíka skyndihjálp frá grunni, en ég líki þessu stundum við þegar flugfreyjur sem fara yfir öryggisatriði í flugvélum: Það hlustar enginn en allir telja sig þekkja þetta allt saman!

 

En sannarlega gæti annað komið á daginn eins og dæmin sanna! Slík fræðsla í alvöru gæti örugglega bjargað mörgum mannslífum, flóknara er það ekki.

 

Svo þurfa allir að láta fylgjast með heilsu sinni, fara reglulega í skoðun, því enginn veit fyrr en allt í einu! Það er dapurt að sjá fólk hirða betur um bílana sína en sjálft sig!! Ber það vott um sjálfsvirðingu, innri vellíðan eða sýndarmennsku?

 

Með ljúfum kveðjum og óskum um góða líðan ykkar

Hermann Gunnarsson

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *