Kveðja frá Hjartavernd

Bylgja Valtýsdóttir, upplýsingafulltrúi.

Þátíð, nútíð og framtíð

Það er við hæfi á tímamótum sem þessum að horfa um öxl og fara yfir það sem unnist hefur í baráttunni við hjarta- og æðasjúkdóma sem segja má að sé samvinnuverkefni Hjartaheilla og

Hjartaverndar. Við tímamót er líka mikilvægt að skyggnast fram á veginn og huga að því sem gæta þarf að í framtíðinni og velta fyrir sér hvernig við getum eflt hlutverk okkar enn frekar.

 

Bylgja Valtýsdóttir, upplýsingafulltrúi. Saga Hjartaverndar og Hjartheilla er samtvinnuð á margan hátt og samstarfið með miklum ágætum. Þó Hjartavernd sé fyrst og fremst rannsóknarstofnun eiga Hjartavernd og Hjartaheill sameiginlegt markmið: að vinna gegn hjarta- og æðasjúkdómum, efla lýðheilsu og standa vörð um heilsu Íslendinga.

 

Saman höfum við unnið að Hjartadeginum sem Alþjóðahjartasamtökin (World Heart Federation) standa fyrir og Hjartavernd er aðili að. Hjartadagurinn er alltaf haldinn síðasta sunnudag í september og verður í ár 28. september. Eins höfum við unnið saman með norrænum systurfélögum okkar og einnig innan Evrópusamtaka Hjartaverndarfélaga (European Heart Network) en bæði Hjartavernd og Hjartaheill eru aðilar að þeim samtökum.

 

Megum ekki sofna á verðinum

Fjórðungur úr öld er kannski ekki ýkja hár aldur en á þeim 25 árum sem Hjartaheill hefur starfað hefur margt gott og jákvætt gerst í baráttunni við hjarta og æðasjúkdóma og eiga samtökin Hjartaheill sinn þátt í þeirri þróun. Sem dæmi um þessa jákvæðu þróun hefur hlutfall dauðsfalla meðal íslenskra karla vegna hjarta- og æðasjúkdóma lækkað úr 55% á árinu 1981 í 29% á árinu 2006. Þessi lækkun er lægri hjá konum en hefur þó verið umtalsverð.

 

Útfrá þessum tölum er auðvelt að álykta að við sem þjóð séum í góðum málum og þurfum ekki að hafa neinar áhyggjur af heilsu þjóðarinnar og að þetta samvinnuverkefni okkar sé kannski að renna sitt skeið á enda. Því miður eru blikur á lofti og ekki ólíklegt að tíðni hjarta- og æðasjúkdóma muni jafnvel aukast aftur á næstu árum. Hjartaheill og Hjartavernd mega því ekki sofna á verðinum og samvinnan verður að halda áfram og jafnvel á nýjum  sviðum. En hvað veldur þessari öfugþróun?

 

Frá nýju sjónarhorni

Við eins og margar þjóðir hins vestræna heims erum að þyngjast jafnt og þétt. Á síðustu   fjörtíu árum hefur meðalþyngd íslenskra karlmanna hækkað um 8 kg og 7 kg hjá konum (tekið hefur verið tillit til aukningar á hæð þjóðarinnar) og erum við að verða ein þyngsta þjóð í heimi. Með aukinni þyngd aukast um leið líkur á að fólk þrói með sér aðra sjúkdóma eins og sykursýki 2 (fullorðinssykursýki) en á síðustu árum hefur orðið sprenging í tíðni hennar og hún tvöfaldast hjá karlmönnum en aukist um 50% hjá konum. Aukin tíðni sykursýki veldur síðan mjög líklega aukinni tíðni kransæðasjúkdóma á næstu árum með tilheyrandi kostnaði fyrir þjóðarbúið. Því er brýnt að samtök á borð við Hjartheill haldi áfram sínu góða starfi og samvinna okkar er langt í frá á enda. Hins vegar þarf að huga að þessari samvinnu og við að stilla saman strengi okkar og beina kröftum að því sem miklu skiptir í þessari baráttu.

 

Til að árangur náist er mikilvægt að við horfum á þessi vandamál frá nýju sjónarhorni, þyngdaraukning þjóðarinnar er fyrst og fremst samfélagslegt vandamál þó einstaklingurinn einn geti lækkað þyngd sína. Í Bretlandi eru menn hættir að líta á þyngdaraukningu  þjóðarinnar sem vandamál einstaklingsins og skilgreina vandann sem samfélagslegan sem þarf að taka á. Þeir ganga svo langt að segja að offita þjóðarinnar sé sambærilegt vandamál og hlýnun jarðar.

 

Ábyrgð stjórnvalda og sveitarstjórna

Þannig þarf að byggja upp samfélag á Íslandi sem gerir einstaklingnum kleift að auka hreyfingu og heilbrigða lífshætti með því að þrýsta á stjórnvöld og sveitarfélög að auka möguleika fólks á að samtvinna hreyfingu daglegu lífi sínu. Við þurfum að hanna og skipuleggja mannvirki á þann hátt að fólk geti gengið ef það kýs en ekki leggja stein í götu þeirra sem vilja ganga eins og oft er raunin. Í dag ræður bíllinn ríkjum. Fyrirtæki og vinnustaðir eru staðsett í úthverfum svo fólk hefur tæpast möguleika á að ganga til vinnu. Verslanir og verslunarmiðstöðvar eru reistar í jaðri byggðar og oftar en ekki við stofnbrautir og varla nokkur leið að komast að þeim á annan hátt en sem fuglinn fljúgandi eða í bifreið. Gangandi fólk er einhvern veginn afgangsstærð í þessu samhengi. Svo maður tali nú ekki um hjólreiðamenn. Það segir mikið að hið opinbera hefur hvorki lagt fé í göngu- né hjólreiðastíga meðfram þjóðvegum landsins ef frá er talinn stígur sem ætlunin er að leggja yfir Hellisheiði. Þeir göngu- og hjólastígar sem lagðir hafa verið hafa verið á kostnað sveitarfélaganna og eru þeir yfirleitt í jaðri byggðar og á útivistarsvæðum og sá sem vill hjóla þarf oftar en ekki að hjóla kræklótta og mun lengri leið en ella. Auðvitað er það jákvætt og gott að slíkir stígar séu lagðir en það verður að horfa á aðrar leiðir en bílleiðir sem samgöngutæki og að öll útivist sé afþreying fyrst og fremst.

 

Mörg fyrirtæki og velflest stéttarfélög styðja starfsmenn sína til heilsueflingar með því að greiða niður líkamsrækt með einum eða öðrum hætti eða greiða niður skoðanir hjá Krabbameinsfélaginu og í Áhættumat hjá Hjartarannsókn svo dæmi séu tekin. Af þessum styrkjum þarf hver og einn að greiða skatt til ríkisins. Hvaða skilaboð eru það frá ríkinu til þegna sinna sem fara í Krabbameinsskoðun, Áhættumat eða kaupa sér líkamsræktarkort sér til heilsubótar? Skipta forvarnir bara máli á tyllidögum við ræðuhöld stjórnmálamanna?

 

Hvatning til dáða

En við þurfum að gera meira. Við þurfum að fá börnin okkar frá tölvunum og sjónvarpinu og fá þau til að auka sína daglegu hreyfingu. Það gerum við líka með því að hætta að líta á tölvunotkun barna og ungmenna sem einkamál foreldra og viðurkenna að þetta er samfélagslegt vandamál. Þó það sé á endanum hlutverk foreldra að stýra hegðun barna sinna þá má ekki stimpla þá foreldra sem gengur illa að draga úr sjónvarpsáhorfi barna sinna sem slæma foreldra. Vandinn er miklu stærri en slíkur.

 

Margt gott er unnið í dag víða í samfélaginu, Hjartavernd, Hjartaheill, Lýðheilsustöð, Krabbameinsfélagið og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, UMFÍ og margir fleiri hafa staðið fyrir mörgum verkefnum og oft í samstarfi, með það að leiðarljósi að auka hreyfingu og bæta mataræði en ég tel brýnast að við hugsum á annan hátt og hættum að fjalla um þessi mál eins og þau séu á borði eða færi einstaklingsins að leysa. Við munum litlu breyta meðan við hugsum á þann hátt.

 

Á sama tíma og við beitum okkur á þessu sviði er líka brýnt að halda áfram rannsóknum og því mun Hjartavernd nú sem endranær stunda rannsóknir á áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma með það að leiðarljósi að finna nýja áhættuþætti. Enn í dag er það of stór hluti fólks sem stundar heilbrigða lífshætti og er með hefðbundna áhættuþætti (t.d. blóðþrýsting og kólesteról) í lagi, sem þróar með sér hjartasjúkdóm sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir. Þar er mikið verk óunnið.

 

Hjartavernd sendir afmælisbarninu sínar innilegustu afmæliskveðjur og hlakkar til áframhaldandi samvinnu um ókomna tíð.

 

Heimildir:

Handbók Hjartaverndar 2008 – www.hjarta.is

Healthy weigth, Healthy Lives: a Cross-

Governmental Stategy for England, 2008.

Cross-Government Obesity Unit, Department

of Health and Deparment of

Children, Schools and Families.

 

Rannsóknarstöð Hjartaverndar.

Velferð september 2008.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *