Mikill munur á neyslu milli Norðurlandaþjóða

SAMKVÆMT upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands (SÍ) eru um 21 þús. einstaklingar hérlendis á blóðfitulækkandi lyfjum.

 

Að sögn Guðrúnar I. Gylfadóttur, deildarstjóra lyfjadeilda, hefur notkun blóðfitulækkandi lyfja aukist jafnt og þétt undanfarin ár. Tvö algengustu blóðfitulækkandi lyfin eru með innihaldsefninu simvastatin (Sivacor) og atorvastatin (Zarator). Samkvæmt upplýsingum frá (SÍ) er mikill munur á verði þessara tveggja lyfja. Sem dæmi er verð á algengasta styrkleikanum á simvastatin (40 mg) 33 kr. taflan og verð á algengasta styrkleikanum af atorvastatin (20 mg) 99 kr. taflan. Að sögn Guðrúnar hefur notkun lyfja með innihaldsefninu rosuvastatin (Crestor) aukist mjög síðustu mánuði en verðið á algengasta styrkleikanum (10 mg) er 187 kr. taflan.

 

Að sögn Guðrúnar er mikill munur á notkun þessara lyfja á Norðurlöndunum. Telur hún að hægt væri að lækka lyfjakostnað sjúkratrygginga um 100 millj. kr. á ársgrundvelli ef notkunin væri með svipuðum hætti hérlendis og er annars staðar á Norðurlöndunum.

 

Morgunblaðið þriðjudaginn 4. nóvember 2008

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *