Ráðherra vill að sjúklingum verði ávísað á ódýrasta lyfið

mbl04112008.jpg

„ÞETTA er í besta falli mjög óeðlilegt," segir Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra spurður um þá ráðstöfun lyfjafyrirtækja að bjóða Landspítalanum allt að 95% afslátt á dýrum lyfjum sem sjúklingar halda síðan áfram að taka eftir að þeir útskrifast, en afslátturinn gildir ekki utan spítalans. „Það er augljóst hvað þarna er í gangi. Þarna er verið að veita spítalanum afslátt til þess að ná þessu inn seinna og þá á hærra verði. Við sættum okkur ekki við þetta og munum grípa til aðgerða til þess að hlutirnir verði eðlilegri."

 

mbl04112008.jpgÍ nýlegu dreifibréfi landlæknis mælist hann til þess að sjúklingar séu útskrifaðir á ódýrasta lyfi í hverjum lyfjaflokki, án tillits til þess hvaða lyf þeir fengu á sjúkrahúsinu, ef engar sérstakar ástæður mæla gegn því. Þegar heilbrigðisráðherra er spurður hvort hann hyggist beita sér fyrir því að spítalinn taki upp þessa starfsvenju, svarar hann því játandi og tekur fram að sér finnist það bæði eðlilegt og rökrétt skref. Að sögn Guðlaugs Þórs eru forsvarsmenn spítalans þessa stundina að skoða hvernig koma megi til móts við ábendingu landlæknis. Spurður hvort til séu tölur sem sýni hinn raunverulega ávinning fyrir heildarkostnað þjóðarinnar svarar Guðlaugur Þór því til að tilfinnanlega hafi vantað slíka talnayfirsýn í heilbrigðismálum. Tekur hann jafnframt fram að kerfið eins og það sé byggt upp núna hafi ekki tekið mið af heildarhagsmunum. „Menn hafa, að mínu áliti, ekki haft nógu ítarleg og góð gögn þegar menn hafa verið að taka ákvarðarnir. Það hefur vantað heildarsýnina m.a. vegna þess að kaup á heilbrigðisþjónustu fyrir hönd hins opinbera var í höndum nokkurra aðila," segir ráðherra og tekur fram að hann vænti þess að með nýstofnuðum Sjúkratryggingum Íslands megi fá betri yfirsýn.

 

„Tölurnar sem birtust í Morgunblaðinu í dag [mánudag] eru tilboð sem við opnuðum í síðustu viku, þannig að þetta er ekki það verð sem við erum með í dag," segir Valgerður Bjarnadóttir, sviðsstjóri innkaupasviðs Landspítalans. „Við höfum verið með 90% afslátt á einu þessara lyfja, 30% afslátt af öðru og engan afslátt af því þriðja," segir Valgerður. Spurð hver sparnaður spítalans vegna þessara þriggja lyfja hafi verið segir Valgerður hann hafa verið innan við 5 milljónir kr. á ári miðað við verlag þessa árs. „Stóru sparnaðarliðirnir hjá okkur liggja í magalyfjunum. Með virðisaukaskatti sparar afslátturinn af magalyfjum okkur um 150 milljónir á ári."

 

Morgunblaðið þriðjudaginn 4. nóvember 2008

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *