1.500 milljónir fram úr áætlunum

Lyfjakostnaður LSH

Gengisbreytingar setja strik í reikninginn hjá LSH Mikil hækkun á S-merktum lyfjum fyrstu níu mánuði þessa árs »Gerist á sama tíma og við höfum náð tökum á rekstrinum að öðru leyti«

 

ÚTLIT er fyrir að Landspítali – háskólasjúkrahús verði rekinn með um 1.500 milljóna króna halla á þessu ári. Veik staða krónunnar hefur mikil áhrif á rekstur LSH og áætlar Björn Zoëga framkvæmdastjóri lækninga á LSH að gengisáhrifin auki kostnað sjúkrahússins um 1.200 milljónir króna milli ára, einkum vegna lyfja- og tækjakaupa.

 

Lyfjakostnaður LSH»Það sem okkur finnst sárast í þessum efnum er að þetta skuli gerast á sama tíma og við höfum náð tökum á rekstrinum að öðru leyti,« segir Björn.

 

»Við höfum til dæmis ekki farið yfir í launakostnaði í fyrsta skipti í langan tíma og ef gengið hefði verið á svipuðu róli og síðustu 3-4 ár hefði spítalinn verið rekinn með um 0,8% halla eða sem nemur um 300 milljónum króna. Miðað við þessi gengisáhrif verður hallinn hins vegar í kringum 5%,« segir Björn og tekur fram að ekki séu enn öll kurl komin til grafar hvað varðar síðustu mánuði ársins.

 

Aðspurður sagði hann að fjármálaráðuneytið hefði reglulega fengið upplýsingar um stöðuna síðan í maí og heilbrigðisráðuneytið á tveggja vikna fresti.

 

39,2% hækkun S-lyfja

Lyfjakostnaður á Landspítala – háskólasjúkrahúsi, án svokallaðra S-merktra lyfja, hækkaði um 7,7% á fyrstu níu mánuðum ársins. Segir Björn það mjög góðan árangur miðað við aðrar kostnaðarhækkanir í samfélaginu. S-merktu lyfin hafa hins vegar hækkað um 39,2% á sama tímabili og vega sérhæfð lyf til ónæmisbælingar þyngst, en í þessum flokki eru m.a. gigtarlyf og Tysabri gegn MS-sjúkdómnum.

 

78,4% hækkun

S-merktu lyfin hækkuðu um 78,4% fyrstu níu mánuði þessa árs, fóru úr 384 milljónum í fyrra í 686 milljónir fyrstu níu mánuðina í ár.

 

Kostnaður við S-merkt lyf var tæplega 2,2 milljarðar fyrstu níu mánuði ársins, en annar lyfjakostnaður sviða spítalans 887 milljónir króna. Af hækkun lyfjakostnaðar áætlar Björn að rúmlega helmingur sé vegna gengisbreytinga.

Morgunblaðið fimmtudaginn 13. nóvember 2008

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *