
Heildarlyfjakostnaður nam um 16 milljörðum í fyrra
ÁÆTLA má að útsöluverð lyfja á Íslandi í heild, lyfseðilskyldra og annarra lyfja, hækki um milljarða frá síðasta ári. Í fyrra var talið að þessi kostnaður hefði í heild numið um 16 milljörðum króna en að hækkunin í ár verði ekki undir 25%. Heildarútsöluverð allra lyfja gæti því orðið um 20 milljarðar og hækkunin um fjórir milljarðar á milli ára.
Áætluð heildarútgjöld Sjúkratrygginga vegna lyfja í ár eru samkvæmt nýjustu upplýsingum um 9,1 milljarður króna. Þetta er um 30% heildaraukning en um 72% af auknum lyfjakostnaði er vegna gengisbreytinga. Í fjárlögum var reiknað með að kostnaður TR, þ.e.a.s. sjúkratrygginganna, yrði tæplega 7,3 milljarðar í ár en kostnaðurinn var rúmlega sjö milljarðar króna í fyrra.
Verðlækkun falin í falli krónu
Samkvæmt upplýsingum úr heilbrigðisráðuneytinu hefur lyfjaverð heldur lækkað en sú verðlækkun er falin vegna gengislækkunar krónunnar. Aukning í notkun er svipuð og hefur verið undanfarin ár.
Sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir eru stórir notendur lyfja og má áætla að sá kostnaður hafi verið um tveir milljarðar í fyrra en hefur aukist mjög í ár, einkum vegna gengisbreytinga. Í Morgunblaðinu í gær kom fram að gengisáhrif auka væntanlega kostnað Landspítala – háskólasjúkrahúss um 1.200 milljónir króna í ár, mest vegna lyfja- og tækjakaupa.
Kostnaður almennings vegna lyfja án greiðsluþátttöku var áætlaður 6-7 milljarðar í fyrra. Í ár gæti hann orðið hátt í níu milljarðar.
Reynslan hefur verið sú mörg undanfarin ár að innkaupsverð/álagning, almenn notkun og ný dýr lyf hafa valdið 10 til 13% aukningu lyfjaútgjalda ríkisins á ári. Í ár stefndi í að þetta hlutfall yrði lægra en það hefur verið árum saman eða um 6%.
Ein nálgun til að skoða aukningu í notkun er að skoða fjölda skilgreindra dagsskammta (DDD) og aukningu í fjölda einstaklinga sem nota lyf. Aukning í fjölda DDD er 5% milli ára og aukning í fjölda einstaklinga er 3% sem er svipuð aukning og hefur verið undanfarin ár.
Gripið hefur verið til margvíslegra aðgerða á síðustu tólf mánuðum til að lækka lyfjakostnað. Nefna má breytingu á lyfjalögum sem leiddi til um 300 milljóna króna lækkunar lyfjaverðs, með útboði lyfja, lyfjalistum á heilbrigðisstofnunum og fleiri aðgerðum, sem samtals eru metnar á um einn milljarð króna og er þá reiknað með hagstæðu gengi til að byrja með.
Miðað við þróunina sem verið hefur í nágrannalöndunum var það mat manna í heilbrigðisráðuneytinu að 6% hækkun sem stefndi í milli áranna 2007 og 2008 hefði verið frábær árangur. Óhagstæð gengisþróun kollvarpar þessu
Fjárlagafrumvarp endurskoðað
Fjárlagafrumvarp næsta árs er nú í endurskoðun hjá stjórnvöldum, enda hefur margt breyst á síðustu vikum. Þar var gert ráð fyrir að lyfjakostnaður Sjúkratrygginga yrði 9,1 milljarður króna árið 2009.
Í heilbrigðisráðuneytinu fengust þær upplýsingar, að til að mæta þeim kostnaðarhækkunum sem orðið hafa í ár og eru fyrirsjáanlegar á næstu vikum yrði framhald á þeim aðgerðum sem byrjað var á í fyrra. Þær aðgerðir skiluðu um einum milljarði, eins og áður sagði, en án þeirra hefði lyfjareikningur Sjúkratrygginga farið yfir 10 milljarða í ár.
Í HNOTSKURN
· Aukning í fjölda skilgreindra dagsskammta (DDD) er 5% milli ára.
· Einstaklingum hefur fjölgað um 3% á milli ára.
· Leitað verður leiða til að lækka lyfjaverð almennt og lyfjanotkun verði gerð markvissari.
· Ávísa þarf jafnan ódýrustu lyfjum inni á spítölum og þegar fólk er útskrifað af sjúkrahúsum.
Morgunblaðið föstudaginn 14. nóvember 2008