Heilbrigð sál í hraustum líkama

Guðlaugur Þór Þórðarson kynnir heilsustefnu á Hótel Nordica þann 18. nóvember 2008

Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, kynnti í dag heilsustefnu sína á fundi þar sem voru saman komnir flestir þeir sem taka þátt í að hrinda stefnunni í framkvæmd.

 

Guðlaugur Þór Þórðarson kynnir heilsustefnu á Hótel Nordica þann 18. nóvember 2008 Heilbrigðisráðherra sagði þegar hann kynnti heilsustefnuna, að hún væri liður í því að geta veitt heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða. Snar þáttur í því væri að leggja stóraukna áherslu á forvarnir á öllum sviðum og stuðla að heilbrigðari lífsháttum einstaklinganna. Sagði ráðherra það brýnt að skapa þjóðfélag þar sem fólk ætti þess auðveldlega kost að taka heilsusamlegar ákvarðanir, einkum með geðrækt, næringu og hreyfingu í huga.

Samfara kynningunni sem var á heilsustefnunni í dag skuldbundu fjölmargir aðilar sig, með undirritun sérstakrar yfirlýsingar, að taka virkan þátt í að hrinda stefnunni í framkvæmd..

Félagssamtök, sveitarfélög, áhugahópar og fleiri rituðu undir yfirlýsinguna á fundinum í dag. Það hefur enda verið lögð á það rík áhersla við undirbúning og útfærslu heilsustefnunnar, að stefna saman fjölmörgum aðilum til að ná breiðri samstöðu um markmið og leiðir.

Heilbrigðisráðherra lagði áherslu á mikilvægt framlag þriðja geirans til almannaheilla í þessu sambandi. Hann sagði þriðja geirann samanstanda af ýmsum frjálsum félagasamtökum og sjálfseignarstofnunum, sem tilheyrðu hvorki einkageiranum, þar sem fyrirtæki eru rekin með hagnað að leiðarljósi, né opinberum rekstri. Innan þriðja geirans störfuðu fjölmörg samtök og félög sem sinntu afar mikilvægum verkefnum á sviði lýðheilsu- og heilbrigðismála. Markmið margra þeirra er að efla forvarnir eða að draga úr vanda einstaklinga vegna tímabundins eða varanlegs sjúkleika eða fötlunar. Sagði heilbrigðisráðherra að afar mikilvægt væri að sameina alla þá sem sinna forvörnum til að hrind í framkvæmd virkri heilsustefnu. – „Góð heilsa er mikilvæg undirstaða lífsgæða. Með samstilltu átaki getum við ekki aðeins bætt heilsufar þjóðarinnar heldur einnig orðið öðrum þjóðum fyrirmynd", sagði heilbrigðisráðherra þegar hann kynnti stefnuna.

 

Frétt afa vef Heilbrigðisráðuneytisins.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *