Doppótt Dorrit fékk skartgrip

Dorrit og Anney. Dorrit ásamt hinni sex ára Anneyju Birtu Jóhannesdóttur sem hefur gengist undir sex hjarta-aðgerðir á stuttri ævi sinni. Fréttablaðið/Vilhelm

Forsetafrúin Dorrit Moussaief klæddist doppóttri blússu og jakka er hún veitti viðtöku skartgrip til styrktar Neistanum, styrktarfélagi hjartveikra barna, í Kringlunni í gær.

 

Dorrit og Anney. Dorrit ásamt hinni sex ára Anneyju Birtu Jóhannesdóttur sem hefur gengist undir sex hjarta-aðgerðir á stuttri ævi sinni. Fréttablaðið/Vilhelm Um var að ræða fyrsta eintakið af silfurskartgrip sem seldur verður til styrktar Neistanum og afhentu Eggert Pétursson listmálari og Sif Jakobs skartgripahönnuður forsetafrúnni gripinn. Verður hann seldur á 9.500 krónur í takmörkuðu upplagi.

 

„Við fengum í sumar hugmynd um að láta hanna skartgrip fyrir jólin og höfðum strax Eggert í huga. Hann var meira en til í þetta og hafði lengi langað að hanna skartgrip," segir Tómas Jónasson, framkvæmdastjóri Leonard, þar sem athöfnin fór fram. „Hann rissaði upp hugmyndir og valdi sjálfur hvaða blóm hann vildi teikna."

 

Blómið hjartarfi varð fyrir valinu og í framhaldinu var Sif Jakobs fengin til að útbúa skartgripinn. „Hugmyndin var alltaf að selja þetta um jólin og styrkja gott málefni. Fyrst hann valdi hjartarfa datt okkur strax í hug að velja eitthvað sem tengdist hjartasjúkdómum og þá kom Neistinn upp í hugann," segir Tómas.

 

Hann segir að gaman hafi verið að fá Dorrit í heimsókn. „Við báðum hana um að koma með stuttum fyrirvara og hún tók þessu mjög vel. Hún var hérna í klukkutíma og henni leist voða vel á þetta."

Vart þarf að taka fram að forsetafrúin vakti mikla athygli vegfarenda í Kringlunni í gær.

Visir.is 6. desember 2008

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *