,,ÉG myndi segja að ákveðið andvaraleysi meðan allt lék í lyndi hafi valdið því að við fórum ekki út í það fyrr að beina fólki að ódýrari lyfjum,« segir Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, en hin Norðurlöndin hófu þessar aðgerðir þegar árið 2005.
Þá segir Ögmundur að þessu megi líkja við umferðina. Áður hafi fólk keyrt milli staða í Rolls Royce en nú þurfi að nota fjölskyldubílinn.
Höfðað til lækna
,,Með þessum aðgerðum erum við líka að höfða til lækna og fá þá til að þroska kostnaðarvitundina,« segir Ögmundur. Hann segist vera bjartsýnn á samstarfið við læknana því allir átti sig á breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu og þörfinni á að spara. Hann segist því ekki óttast að undanþágubeiðnir vegna dýrari lyfja verði vandamál. Þá hafi hann trú á að sjúklingar verði meðvitaðir um breytt fyrirkomulag og láti lækna vita að betri kjör séu í boði, ef þeim finnst þeir borga meira en nauðsynlegt er.
Morgunblaðið mánudaginn 16. febrúar 2009