Vilja ná milljarðs lækkun

Lækkun Heilbrigðisráðuneytið kynnti í gær nýja reglugerð sem ætlað er að lækka lyfjakostnað um milljarð.

Notkun ódýrari lyfja í fyrirrúmi Lyfjanotkun barna og fólks á fullum atvinnuleysisbótum niðurgreidd Breyting verður á skiptingu lyfjaverðs.

Lækkun Heilbrigðisráðuneytið kynnti í gær nýja reglugerð sem ætlað er að lækka lyfjakostnað um milljarð.NÝ reglugerð gerir verulegar breytingar á niðurgreiðslum vegna lyfjakostnaðar sjúklinga. Með breytingunum munu lyfjaútgjöld sjúkratrygginga lækka um einn milljarð á ársgrundvelli. Ætlunin er að færa lyfjanotkun Íslendinga nær því sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum. Niðurgreiðslum lyfja verður beint að ódýrari lyfjum en notuð hafa verið.

 

Lyfjaútgjöld fjölskyldna lækka

Breyttri neyslu maga- og blóðfitulækkandi lyfja er ætlað að spara 450 til 550 milljónir króna en báðir lyfjaflokkarnir eru mikið notaðir. Lyfin auka lífsgæði sjúklinga verulega en heilsuhagfræðilega þykir ekki verjandi að nota dýrustu lyfin nema í undantekningartilvikum. Ef sjúklingur þyrfti á dýrari lyfjunum að halda fengi hann þau en þá þyrfti að leggja fram rökstudda undanþágubeiðni.

 

Blóðfitulækkandi lyf 2007Lyfjakostnaður vegna barna mun breytast og verða lyf þeirra niðurgreidd á sama hátt og lyf elli- og örorkulífeyrisþega. Hið sama mun gilda um einstaklinga á fullum atvinnuleysisbótum. Segir í rökstuðningi að fylgifiskur atvinnuleysis geti verið heilsubrestur sem, ásamt minnkandi tekjum og félagslegum örðugleikum, bitni harkalega á þeim sem misst hafa vinnuna.

 

Breytingin vegna barnanna mun kosta ríkið um 80 milljónir á ári en ekki er hægt að áætla kostnað vegna þeirra sem eru á atvinnuleysisbótum þar sem tölur um atvinnuleysi lágu ekki fyrir í lok ársins. Ætlar heilbrigðisráðuneytið að fylgjast grannt með þróun mála hvað þessa flokka varðar og breyta eða endurskoða þennan þátt reglugerðarinnar ef í ljós kemur að breytingin hefur ekki tilætluð áhrif.

 

Breytingar á þökum og gólfum

Breyting verður á skiptingu lyfjaverðs milli sjúklings og almannatrygginga en greiðsluþökin hafa ekki breyst frá 1. janúar 2001. Vísitalan hefur síðan hækkað um 60% og lyfjareikningur Tryggingastofnunar um 32%. Ætlar ráðuneytið að breytingin á þökum og gólfum dragi úr lyfjakostnaðaraukningu sjúkratrygginga um 400 milljónir króna.

 

Heildsöluverð lækkað

Þá hefur lyfjagreiðslunefnd lækkað heildsöluverð og smásöluálagningu. Þessari aðgerð er ætlað að skila um 610 milljónum króna á ársgrundvelli. Líklegt er að viðræður hefjist síðar á árinu um frekari lækkun álagningar. Reglugerðin tekur ennfremur fyrir þunglyndis-, veiru- og mígrenilyf en hámarksafgreiðsluregla verður aflögð. Þetta þýðir að sjúklingar geta nú fengið ávísuð lyf til lengri tíma með tilheyrandi minni kostnaði. Viðbótarútgjöldin sem af þessu hljótast eru 110 til 140 milljónir króna.

Morgunblaðið mánudaginn 16. febrúar 2009

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *