Upp á dekk að brjóta ísinn

Átak »Núna verður ekki vikist undan því að rifa seglin,« sagði Ögmundur Jónasson

»VIÐ erum búin að búa til aðgerðaáætlun og nú er verið að fínpússa hana,« sagði Hulda Gunnlaugsdóttir, forstjóri Landspítalans, um niðurskurðarkröfur ríkisvaldsins, að loknum fundi hennar og Ögmundar Jónassonar heilbrigðisráðherra með starfsfólki Landspítala á Hringbraut í gær. Skera þarf niður útgjöld upp á 2,7 milljarða króna á Landspítalanum. Hulda sagði að nú væru tillögurnar til kynningar í fjármála- og heilbrigðisráðuneyti. »Að hluta til er aukin hagræðing í öllum innkaupum og að hluta til er farið í gegnum allar vaktalínur, alla yfirvinnu. Það er skoðað hvernig er borgað, þ.e. hvort borgað er eftir kjarasamningum eða yfirborgað,« sagði Hulda.

 

Átak »Núna verður ekki vikist undan því að rifa seglin,« sagði Ögmundur Jónasson Einnig er verið að skoða hvort hægt er að gera 7 daga deildir að 5 daga deildum, göngudeildum eða dagdeildum með það að markmiði að lækka launakostnað. »Því minna af fólki sem við þurfum um helgar, á kvöldin og á nóttunni, því minni verður launakostnaðurinn,« sagði Hulda.

 

Reynt verður að fara í aðgerðir sem einnig munu ná til áranna 2010-2011. »Nú þegar eru búnir tveir mánuðir af þessu ári og þá eru bara tíu mánuðir eftir,« sagði Hulda. »2,6 milljarðar eru gífurleg upphæð og við þurfum að fara í stórar breytingar og þær verða að duga fyrir 2010-2011.«

 

Ekki verður farið í að lækka launin að öðru leyti en því að breyta vinnufyrirkomulagi.

 

»Það verður fækkað vaktalínum, þá þurfum við færri á vakt, og það þýðir færri vaktir. Þá getum við dekkað vaktina sjálf og þurfum ekki að kaupa yfirvinnu,« sagði hún. Í þessari viku verður lokið við áhættumat á fjárhagsáætluninni og að því loknu verður haft samband við stéttarfélögin.

 

»Ég vil gera þetta í samvinnu við þau og þá munum við tilkynna þetta betur,« sagði Hulda og var þá rokin á næsta fund með heilbrigðisráðherra, sem haldinn var með starfsfólki Landspítala í Fossvogi.

 

Fundurinn með ráðherra var haldinn í troðfullum matsal Landspítalans og áður en hann hófst var áþreifanleg spenna í lofti. Ögmundur flutti ræðu sína og í henni var mikil hvatning til starfsmanna um að standa saman að þeim breytingum sem framundan eru. Hann byrjaði á að rifja upp að oft hefði hann komið í þennan sama sal, sem formaður BSRB, og þá yfirleitt til að reisa kröfur. »Nú er ég í öðrum erindagjörðum, nýtekinn við í heilbrigðisráðuneytinu, og tilfinningin er svolítið sú, að ég sé að ganga inn á járnbrautarstöð og hafi óskað eftir því að vera ólaður niður á teinana,« sagði Ögmundur.

 

Hann benti á að niðurskurðarkrafan í heilbrigðiskerfinu væri upp á 6,7 milljarða og á Landspítalanum um 2,6 milljarða á þessu og næsta ári. »Verkefnið er erfitt, við erum beðin um að spara í stofnunum sem um árabil hafa verið í fjársvelti,« sagði Ögmundur.

 

»Nú þurfum við að fara að lögum, fjárlögum, sem sumpart eru samin af útlendingum sem þurfa ekki að standa hér sjálfir og útfæra hugmyndir sínar. Lögum sem síðan voru samþykkt af Íslendingum sem, því miður, sumir hverjir hafa um skeið horft til heilbrigðisþjónustunnar sem auðlindar fyrir tekjuþyrsta auðmenn,« sagði Ögmundur.

 

Hann klykkti út með því að grípa til sjómannamálsins og hvatti alla starfsmenn til að »koma upp á dekk og brjóta ísinn« og lofaði að gera allt sem í sínu valdi stæði til að standa vörð um það fjöregg sem heilbrigðisþjónustan væri.

 

Morgunblaðið þriðjudaginn 17. febrúar 2009

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *