Bjarni Torfason, læknir

Bjarni Torfason

Hjartaskurðlækningar hafa verið stundaðar á Íslandi í rúm 22 ár.

Áður fóru menn til útlanda til að leita sér lækninga við alvarlegum hjartasjúkdómum eins og kunnugt er. Það var gæfa þegar ákveðið var að flytja þessar lækningar heim til Íslands í stað þess að kaupa þjónustuna erlendis.

 

Bjarni TorfasonHjarta- og lungnaskurðdeild Landspítalans annast þá hjartasjúklinga sem veikastir eru á spítalanum, hverju sinni og þarfnast þeir oft stórra skurðaðgerða, sem í mörgum tilfellum eru forsenda áframhaldandi lífs og betri heilsu.

 

Frá upphafi hafa nú verið gerðar alls á fimmta þúsund opnar hjartaskurðaðgerðir á Landspítalanum. Í fyrstu voru gerðar kransæðaskurðaðgerðir eingöngu en síðar enn flóknari aðgerðir og þá bæði á ungabörnum, börnum og fullorðnum. Meðal nýjunga sem teknar hafa verið upp hérlendis síðustu árin eru ígræðslur á hjartalokum án stoðnets, kransæðaskurðaðgerðir á sláandi hjarta, viðgerðir frekar en lokuskipti á miturloku hjartans, lokusparandi aðgerðir við ósæðargúl, viðgerðir á þriggjablöðkuloku hjartans, hjálparhjartaígræðslur til skamms tíma og til lengri tíma við hjartabilun, brennslur með útvarpsbylgjum og örbylgjum við hjartatifi og lagfæring á holubrjósti með brjóstholsspeglun svo eitthvað sé nefnt. Sárafáa sjúklinga þarf nú að senda úr landi til meðferðar og þá aðeins þá sem hafa mjög sjaldgæfa sjúkdóma, sem aðeins eru meðhöndlaðir á fáum stöðum í heiminum.

 

Hágæða hjartarannsókn og nákvæm sjúkdómsgreining er ein af forsendum góðs árangurs í hjartaskurðlækningum. Hjartaskurðlækningar eru teymisvinna, en teymið hjá okkur er skipað úrvals starfsfólki á öllum sviðum og tækjabúnaður er ávallt traustur. Ný og fullkomin hjartaþræðingastofa á Landspítalanum er fagnaðarefni. Höfðinglegar gjafir Landssamtaka hjartasjúklinga, “Hjartaheilla”, Minningarsjóðs Þorbjörns Árnasonar, “Í hjarta stað”, Gjafa- og styrktarsjóðs Jónínu S. Gísladóttur og nokkurra fleiri kærra einstaklinga hafa gert okkur kleift þrátt fyrir bágan fjárhag spítalans að endurnýja tækjakostinn jafnóðum úreldingu. Úrelding er þó mjög hröð á þeim hátæknibúnaði sem nauðsynlegur er fyrir þessar flóknu aðgerðir. Þróun hjartaskurðlækninga er mjög hröð og úreldast flóknustu tækin á um það bil þremur árum.

Með betri  árangri og hættuminni aðgerðum er nú svo komið að hægt er að lina þjáningar eldri og veikari sjúklinga en áður. Með betri tækni, nýjum aðgerðum og betri varahlutum er nú oft hægt að bjóða ungu fólki fullnaðaraðgerð snemma á ævinni og jafnvel snemma á barnsaldri við alvarlegum hjartasjúkdómum. Aðgerðirnar spara þjóðinni gríðarlega fjármuni, með því að koma í veg fyrir ótímabæran dauða og skapa forsendur fyrir endurhæfingu til starfsgetu og þreks til að standa  á eigin fótum. Enginn vill vera öðrum háður um allt.

 

Árangur hjartaskurðlækninga á Íslandi er góður.

Dánartíðni í og eftir hjartaskurðaðgerðir hér á landi er minni en helmingur þess sem áætlað er miðað við evrópskt viðmið (http://www.euroscore.org/). Þessi staðreynd er ánægjuleg og hvatning til dáða en ekki tilefni til að slaka á kröfunum. Við ætlum okkur að halda þessum gæðum fyrir sjúklinga okkar og með góðri hjálp allra sem vilja leggja okkur lið mun það takast.Góðum árangri er fyrst og fremst að þakka góðu starfsfólki, þeim fjölmörgu sem koma að flókinni meðferð hjartasjúklinga allt frá innskrift til útskriftar og einnig eftir útskrift við endurhæfingu.

 

Hjartaskurðaðgerðir miða allar að því að bæta líðan sjúklinganna, auka lífsgæðin, en auk þess er yfirgnæfandi meirihluti aðgerðanna gerður beinlínis til að bjarga lífi.

Um helmingur skurðaðgerðanna hjá okkur eru bráðar eða hálfbráðar, en líf sjúklinganna hangir þá oft á bláþræði fram að aðgerð. Meðferðin er því miður ekki hættulaus, en það er til mikils að vinna þegar von um áframhaldandi líf og heilsu er algerlega háð nauðsynlegri viðgerð á hjartanu.

 

Umsvif hjarta- og lungnaskurðdeildar Landspítalans eru vaxandi bæði hvað varðar fjölda aðgerða og stærð og umfang einstakra aðgerða.

Í nýjum starfsemisupplýsingum LSH má sjá að áberandi mikil gróska er í hjarta- og lungnaskurðlækningum á Íslandi. Þar kemur fram að hjarta- og lungnaskurðaðgerðum fjölgaði milli áranna 2006 og 2007 úr 608 í 748 eða um 23%. Opnum hjartaskurðaðgerðum fjölgaði á sama tíma úr 200 í 246 eða um 23%. Til samanburðar var heildarfjölgun skurðaðgerða fyrir spítalann allan 1,3% á sama tíma. Umsvifin aukast enn eins og samanburður áranna  2007 og 2008 ber með sér en árið 2008 voru gerðar alls 807 hjarta- og lungnaskurðaðgerðir og þar af sem næst  300 opnar hjartaskurðaðgerðir en það samsvarar  22% áframhaldandi aukningu á opnum hjartaskurðaðgerðum.

 

Við hjartaskurðaðgerðir eru notuð mörg flókin, háþróuð og dýr tæki svo sem svæfingavél, hjartaómsjá, hjartalungnavél, blóðþvottavél, flæðismælir, hita- og kælivél, ljósgjafar, brennslutæki af mörgum gerðum auk einnota hluta og handverkfæra svo hundruðum skiptir í hverri aðgerð. Oft þarf enn fleiri tæki eins og ósæðardælu, brjóstholsspeglunartæki, röntgentæki og jafnvel skammtíma hjálparhjarta með tilheyrandi stoðtækjum. Við hverja hjartaskurðaðgerð vinna að jafnaði 9 til10 starfsmenn samtímis inni á skurðstofu og þurfa þeir allir sitt athafnarými. Stærsta skurðstofan af 8 á Landspítalanum við Hringbraut er notuð fyrir hjarta- og brjóstholsskurðaðgerðir en hún er aðeins 50 m2. Lágmarksstaðall fyrir hjartaskurðstofu í dag er 70 m2 en æskileg stærð fyrir nýtísku hjartaskurðstofu er 80 – 100 m2. Til skamms tíma var aðeins ein skurðstofa hæf fyrir hjartaskurðaðgerðir og  það olli óhóflegri yfirvinnu starfsfólks svo árum skipti. Góðu heilli hefur einni skurðstofu til viðbótar verið breytt fyrir hjartaskurðaðgerðir en sú skurðstofa er þó aðeins 36 m2. Mikilvægt er að útbúa hið fyrsta, til viðbótar, svokallaða “Hybrid” skurðstofu á Landspítalanum þar sem hægt væri að sameina í einni skurðstofu bæði fullkomna hjarta- og æðaþræðingu og fullkomna hjartaskurðstofu, en með slíkri aðstöðu væri hægt að gera aðgerðir sem sameina ágæti beggja aðferða. Slíka aðstöðu þarf fyrir margar nýjar aðgerðir, sem eru að ryðja sér rúms í heiminum, svo sem innanæðafóðringar á ósæð í brjóstholi með eða án bringubeinsskurðar og ósæðarhjartaloku ígræðslu um nára eða hjartabrodd, án rofs á bringubeini.

 

Gjörgæsla hjartaskurðsjúklinga á Landspítalanum býr við mjög þröngt húsnæði, en gæslan er þrátt fyrir það umfangsmikil og af háum gæðum. Uppbygging þeirrar deildar við Hringbraut hefur að miklu leyti miðast við þarfir hjartaskurðsjúklinga, en gífurleg reynsla og þekking við meðferð mikið veikra hjartasjúklinga, nýtist einnig öðrum sjúklingum deildarinnar og tryggir þeim hágæða gjörgæslu með nútímalegum tækjabúnaði og aðferðum. Viðbygging er í gangi til að reyna að leysa bráðasta húsnæðisskort gjörgæslunnar.

Þrengslin valda því m.a. að erfitt er að virða friðhelgi sjúklinga og stundum þarf að takmarka umgang aðstandenda, sem skiljanlega vilja vera sem mest hjá bráðveikum ættingja sínum. Þrengslin valda því einnig að sýkingarhætta eykst, bæði vegna þess að starfsfólk á erfiðara með að varna smiti og einnig vegna óeðlilegrar nálægðar sjúklinga sem oft eru sýktir eða viðkvæmir fyrir sýkingum frá öðrum sjúklingum.

 

Við erum rík þjóð þrátt fyrir tímabundna erfiðleika, þjóð sem vill og hefur efni og getu til að reka bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á.

Við vonum að ráðamenn beri gæfu til að flýta eins og kostur er því brýna verkefni að reisa rúmgóðan og sameinaðan Landspítala því aðstaðan er ófullnægjandi núna og mun fara versnandi á þeim árum sem tekur að reisa nýjan spítala. Allir sem geta ættu að styðja þá góðu ráðamenn okkar sem vilja byggja sameinaðan spítala allra landsmanna, nýjan Landspítala. Sjúklingasamtök hafa mikilvægu hlutverki að gegna í þeirri umræðu. Þau geta lagt málinu lið með pólitískum styrk sínum.

 

Útrás heilbrigðisþjónustu

Markaður fyrir lækningaútrás Íslendinga er ókannaður, og trúlega eru ekki sóknarfæri í þeim löndum sem standa okkur næst landfræðilega. Austur Evrópa og Asía eru líklegri til arðbærrar og uppbyggjandi útrásar fyrir Landspítalann og sjúkrahúsið sem stofnun.Verðmæti eru vissulega fólgin á Landspítalanum í þekkingu og getu starfsfólks. Sennilega er hægt nýta þessi verðmæti til útrásar og fá þannig enn meiri arð af þeim en nú er.

Ekki er líklegt að þjónusta á Landspítalanum myndi skerðast þó þessi verðmæti yrðu notuð til útrásar í lækningum. Þvert á móti Landspítalinn yrði hluti af stærri heild og nyti góðs af því. Í dag eru jú ýmsar sérgreinar helst til litlar og akkur væri í  því að fá einingarnar stærri.

Útrás fólgin í þjónustu við útlenda sjúklinga í núverandi aðstöðu á Landspítalanum er ólíkleg til árangurs. Aðstaðan dugir illa fyrir núverandi starfsemi og marktækar úrbætur eru ekki í sjónmáli. Þeir sem hingað sækja heilbrigðisþjónustu erlendis frá, auk stöku ferðamanna, eru fáir og þá helst Færeyingar og Grænlendingar.

 

Ef Landspítalinn hæfi markvissa og metnaðarfulla útrás væri sennilega best að byrja með sérgreinar sem hafa stórar framleiðslueiningar, þ.e. stórar og flóknar lækningaaðgerðir en síðar mætti einnig auka útrásina með minni aðgerðir og þá um leið fleiri sjúklinga. Best yrði trúlega að kaupa sjúkrahús eða byggja erlendis og þjóna sjúklingunum þar nærri heimabyggð þeirra.

 

Það eitt að fram færi mat á ofangreindum hugmyndum og verðmætum væri af hinu góða og myndi styrkja liðsheildina á Landspítalanum.

Höfundur er yfirlæknir hjarta- og lungnaskurðdeildar Landspítalans og dósent við Háskóla Íslands

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *