
Frá 1. janúar 2007 hefur hjartadeild Landspítala skráð upplýsingar um kransæðaþræðingar og víkkanir í gæðaskrána Swedish Coronary Angiography and Angioplasty Registry eða SCAAR í samvinnu við Háskólasjúkrahúsið í Uppsölum í Svíþjóð. Í janúar árið 2009 var gæðaskráning hjartadeildar Landspítala aukin með þátttöku í sk. RIKS-HIA gæðaskrá og nær því einnig til upplýsinga um legur og útskrift allra sjúklinga með kransæðasjúkdóm. Þetta gerir hjartalæknum kleift að fylgjast með gæðum starfseminnar í rauntíma og bera saman við Svíþjóð. Þar á meðal má nefna legutíma, meðferð við bráðu hjartadrepi og lyfjagjöf í legu og við útskrift.
Svíar hafa verið í fararbroddi í heiminum í staðlaðri gæðaskráningu í heilbrigðiskerfinu og því er ávinningur fyrir Landspítalann og að vera nú þátttakandi í þessum viðurkenndu sænsku gæðaskrám. Ísland varð fyrst erlendra ríkja til að taka þátt í SCAAR gæðaskránni og annað ríkið til að taka þátt í RIKS-HIA skráningunni.
Það er sérstaklega mikilvægt að bera árangur okkar saman við stofnanir erlendis, í þeim þáttum hjartalækninga sem Landspítalinn sem framkvæmir einn hérlendis t.d. ýmsar aðgerðir innan hjartalækninga. Þátttakan í gæðaskránum veitir þannig möguleika á nútímalegri, stöðugri og vandaðri gæðastjórnun en hún opnar einnig möguleika til vísindarannsókna. Sem dæmi eru gögn úr SCAAR nú notuð til að meta áhrif reykingabanns á opinberum stöðum á tíðni bráðs kransæðasjúkdóms á Íslandi. Frumniðurstöður benda til að færri karlar sem ekki reykja fái bráðan kransæðasjúkdóm á Íslandi eftir bannið en fyrir það.
Niðurstöður samanburðarins við Svíþjóð varðandi hjartaþræðingar hafa verið kynntar innan Landspítala og á vísindaþingum hérlendis. Niðurstöðurnar hafa einnig verið kynntar á ráðstefnum erlendis þar sem mest athygli hefur beinst að því að við höfum sýnt fram á að slíkt samstarf, yfir landamæri tveggja Evrópuríkja, er bæði möguleg og vænlegt til árangurs við að auka gæði þjónustu við sjúklinga. Árangur og fylgikvillar hafa reynst svipaðir og í Svíþjóð. Á Íslandi er þrætt nokkru meira en í Svíþjóð eða álíka mikið og að meðaltali í Evrópu. Samt reynast íslensku sjúklingarnir hafa alvarlegri kransæðasjúkdóm en sænskir sjúklingar. Tíðni kransæðavíkkana er hin sama í löndunum tveim. Fyrstu tölur úr RIKS-HIA á Íslandi benda til að lyfjameðferð við útskrift sjúklinga sé skv leiðbeiningum og mjög svipuð í báðum löndum. Það var þó ánægjulegt að í einhverjum tilvikum virtist meðferðin eftir kransæðastíflu jafnvel betri á Íslandi en í Svíþjóð.
Þórarinn Guðnason hjartalæknir