Hjarta- og æðasjúkdómar eru aðal dánarorsök Íslendinga

Þórarinn Guðnason hjartalæknir

Dánarorsakir Íslendinga.

Þegar komið er upp Lögbergsbrekkuna á leið austur fyrir fjall blasir við skilti þar sem tala einstaklinga sem látist hafa í umferðinni á árinu er birt. Þegar ég ók þarna framhjá nýlega datt mér í hug önnur tala, það er dánartala Íslendinga sem látast úr hjarta- og æðasjúkdómum. Ef svipuð talning færi fram á þeim yrðu hlutföllin þannig að þegar á umferðarskiltinu stæði: “6 látnir í umferðinni á árinu”, gæti staðið: “280 látnir úr hjarta og æðasjúkdómum á árinu” á því skilti. Hjarta- og æðasjúkdómar eru nefnilega langalgengasta dánarorsökin á Íslandi.

 

Þórarinn Guðnason hjartalæknir Lítum nánar á tölurnar. Árlega deyja 1800 íslendingar, þar af um 700 eða 40% úr hjarta- og æðasjúkdómum. Árið 2005 voru þetta 360 karlar og 330 konur. Þannig deyr að meðaltali 1 karl á dag og tæplega 1 kona á dag úr hjarta- og æðasjúkdómum. Til samanburðar dóu 19 manns í umferðarslysum allt árið 2005. Verulegur hluti þessara hjartadauðsfalla eru óvænt dauðsföll og öll þekkjum við einhvern sem látist hefur um aldur fram vegna skyndidauða, heilaáfalls eða kransæðastíflu.   

 

Aðaldánarorsök kvenna og karla er kransæðasjúkdómur

Þegar litið er til einstakra sjúkdóma eru kransæðasjúkdómar algengasta dánarorsökin, en þeir valda um 20% dauðsfalla bæði karla og kvenna. Um 200 íslenskir karlar dóu úr kransæðasjúkdómi árið 2005. Það ár dóu 55 karlar vegna blöðruhálskirtilskrabba. Því deyja nær fjórfalt fleiri karlar úr kransæðasjúkdómi en úr blöðruhálskirtilskrabba.

 

Því miður er sá misskilningur útbreiddur að kransæðasjúkdómur sé einungis sjúkdómur karla. Kransæðasjúkdómur er líka langalgengasta dánarorsök kvenna. Það er mikilvægt að hafa í huga þegar  rætt er um kvennaheilsu, því sjaldnast er þessi staðreynd í sviðsljósinu. Árið 2005 dóu 150 konur úr kransæðasjúkdómi en 31 úr brjóstakrabbameini. Meðal kvenna deyja því fimmfalt fleiri úr kransæðasjúkdómi en úr brjóstakrabbameini.

 

Meðferð sem fækkar hjartaáföllum og dauðsföllum er til

Bæði karlar og konur látast fyrir aldur fram úr hjarta- og æðasjúkdómum. Mörg þeirra dauðsfalla hefði mátt fyrirbyggja. Greining hjartasjúkdóms á byrjunarstigi er vel möguleg auk þess sem árangursrík meðferð er til bæði við hjartasjúkdómum og mörgum áhættuþáttum þeirra eins og háþrýstingi, háum blóðfitum, reykingum og sykrusýki. Uppgötvist hjarta- og æðasjúkdómur eða áhættuþættir tímanlega er því hægt að breyta gangi sjúkdómsins og bjarga mannslífum.

 

Hjartaheill, landssamtök hjartasjúklinga stendur nú fyrir átaki í baráttunni við hjarta- og æðasjúkdóma með landssöfnun fyrir nýjum tækjabúnaði á hjartadeild Landspítala. Allir landsmenn ættu að leggja þessari baráttu lið því hjarta og æðasjúkdómar eru aðal dánarorsökin hérlendis og fella 700 Íslendinga árlega!

 

Þórarinn Guðnason hjartalæknir

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *