Verður gáttatif megin hjartavandamál 21. aldarinnar?

Davíð O. Arnar

Davíð O. Arnar, hjartalæknir, Landspítalanum Hringbraut.

Gáttatif er hjartsláttartruflun sem kemur vegna truflunar á rafboðum í efri hólfum hjartans. Gáttatif getur valdið ýmsum einkennum svo sem hjartsláttaróþægindum, mæði, úthaldsskerðingu og jafnvel hjartabilun, þó að í einstaka tilfellum geti einkenni verið óveruleg. Alvarlegasti fylgikvilli gáttatifs er myndun blóðsega í vinstri gátt sem getur komið vegna blóðflæðistruflana í kjölfar óreglulegra rafboða. Þessir blóðsegar geta losnað og orsakað heilablóðfall. Hérlendar rannsóknir hafa sýnt að gáttatif kann að liggja að baki um það bil fimmtungi allra heiláfalla og kann að vera að það sé heldur vanmetið. Gáttatif getur þannig valdið verulegri færniskerðingu og jafnframt er talið að takttruflunin orsaki einnig vitræna skerðingu.

 

Davíð O. ArnarGáttatifstilfellum hérlendis hefur fjölgað verulega á síðustu árum og hefur fjöldi þeirra sem greinast með gáttatif liðlega tvöfaldast. Áætlað er að milli þrjú og fjögur þúsund Íslendingar hafi fengið gáttatif. Skýringin á þessari aukningu er margþætt en vaxandi meðalaldur þjóðarinnar ásamt aukinni lifun þeirra sem hafa kransæðasjúkdóm og hjartabilun spila þar stórt hlutverk.

 

Meðferð gáttatifs er erfið og oft á tíðum flókin. Í upphafi er oft beitt rafstuðsgjöf á brjóstið í svæfingu til að leiðrétta taktinn. Í kjölfarið er beitt lyfjameðferð en einungis tæplega helmingur sjúklinga helst í réttum takti til lengri tíma en 6 mánaða. Stundum er önnur rafvending reynd og jafnvel fleira en eitt lyf. Árangurinn af lyfjameðferð er þó gjarnan takmarkaður. Blóðþynningarmeðferð er mikilvæg til að reyna að fyrirbyggja blóðsegamyndun og heilaáföll. Blóðþynningarmeðferð með Kóvar getur fylgt ákveðið umstang og rannsóknir benda til að þessi meðferð sé talsvert vannýtt.

 

Hér er því um að ræða algengan sjúkdóm sem getur haft alvarlegar afleiðingar og erfitt er að lækna. Því er verulega mikil þörf á að leita nýrra meðferðarúrræða.

 

Undanfarin ár hafa þróast aðgerðir sem miða að því að reyna lækna gáttatif. Þessar aðgerðir eru ýmist gerðar á hjartaþræðingastofu með þræðingu um bláæðar í nára eða þá samhliða opinni hjartaskurðaðgerð sem er þá gerð til að tengja framhjá kransæðum eða vegna hjartalokusjúkdóms. Þessi nálgun miðar að því að einangra lungnabláæðarnar þar sem þær tengjast vinstri gáttinni en talið er að gáttafsköst komi gjarnan í kjölfar aukaslaga sem eiga sér uppruna í þessum æðum. Þessar aðgerðir geta verið flóknar og þarf sérhæfðan tækjabúnað til að framkvæma þær. Árangur af þeim lofar góðu en þær kunna að henta best þeim sem hafa haft gáttatif í tiltölulega skamman tíma.

 

Rannsóknir á erfðafræði gáttatifs hérlendis hafa vakið mikla athygli. Þær hafa verið unnar sameiginlega af  Íslenskri erfðagreiningu og hjartadeild Landspítalans og benda til þessa að gáttatif hafi sterka tilhneigingu til ættlægni. Jafnframt hafa komið í ljós að ákveðnir erfðabreytileikar skipta miklu máli fyrir áhættu einstaklinga á að fá sjúkdóminn. Vonir standa til að þessar rannsóknir muni hjálpa okkur að skilja betur grunnorsakir gáttatifs. Það gæti svo leitt til nýrrar nálgunar við þróun frekari meðferðar. Ekki veitir af, en með hliðsjón af vaxandi tíðni og alvarlegum afleiðingum gáttatifs er ef til vill nærri lagi að tala um sjúkdóminn sem faraldur 21. aldarinnar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *