Hjartasjúkdómar og lífshættir

Dauðsföllum af völdum kransæðasjúkdóms hefur fækkað verulega síðustu áratugina. Þessa breytingu til hins betra má að miklu leiti rekja til æskilegra breytinga á áhættuþáttum kransæðasjúkdóma og að hluta til vegna betri lyfjameðferða og aukins fjölda kransæðavíkkana.

 

Hjarta- og æðasjúkdómar eru þó enn algengasta orsök ótímabærs heilsubrests og dauðsfalla á Íslandi. Það er því mikilvægt að meðferð og forvarnir gegn þessum sjúkdómum séu markvissar. Sýnt hefur verið fram á að heilbrigðir lifnaðarhættir geta dregið verulega úr áhættu á að fá kransæðasjúkdóma hjá fólki á öllum aldri og að þeir sem greinst hafa með kransæðasjúkdóm virðast einnig geta dregið úr framgangi sjúkdómsins með því að fækka áhættuþáttum sínum.

 

Á Landspítalanum hefur verið starfandi göngudeild kransæðasjúklinga síðan árið 2004 og er starfrækt af hjúkrunarfræðingum hjartadeildar 14 E. Göngudeild kransæðasjúklinga fylgir eftir einstaklingum sem farið hafa í kransæðavíkkun. Markmið deildarinnar eru að veita kransæðasjúklingum stuðning við að takast á við veikindi sín og veita þeim fræðslu og stuðning við að breyta lifnaðarháttum sínum til að draga úr áhættuþáttum og hægja á framgagni sjúkdómsins.

 

Helstu áhættuættir kransæðasjúkdóma sem þekktir eru í dag eru: kyn, erfðir, há blóðfita, hár blóðþrýstingur, sykursýki, reykingar, hreyfingarleysi, offita og streita.

 

Æskilegar lífsvenjur til þess að draga úr líkum á hjarta- og æðasjúkdómum eru: Reykleysi, heilbrigðar matarvenjur (5 skammta af grænmeti og ávöxtum á dag, eða 500 gr. Gróft brauð og kornmeti daglega. Fituminni mjólkurvörur, fisk 2-3 svar í viku, minna kjöt, og minna af unnum matvælum) stunda reglubundna hreyfingu (a.m.k. 30 mínútur á dag eða 3 klukkustundir á viku) forðast offitu (kviðarummál minna en 80 cm hjá konum og  minna en 94 cm hjá körlum). Reglulegt eftirlit á blóðþrýstingi, kólesteróli og blóðsykri forðast streitu og álag eins og hægt er og njóta lífsins.

 

Áhættan er samtvinnuð af umhverfis og erfðaþáttum og geta áhættuþættirnir unnið saman og margfaldað skaðsemi hvors annars. Þeir sem bæði reykja og eru með hátt kólesteról búa við  mikla áhættu. Áhrif kólesteróls er miklu meiri meðal reykingamanna en þeirra sem aldrei hafa reykt. Smá breytingar á lífsvenjum geta minnkað áhættuna umtalsvert, t.d. að auka hreyfingu um 30 mínútur á dag. Gott er að ætla sér ekki um of í byrjun heldur breyta smátt og smátt og gera breytingarnar að góðum lífstíl til frambúðar.

 

Hallveig Broddadóttir og Inga Valborg Ólafsdóttir, höfundar eru hjúkrunarfræðingar á hjartadeild 14E og á göngudeild kransæðasjúklinga, LSH.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *