Hvað hefur unnist með nýrri tækni?

Nú fer í hönd landssöfnun Hjartaheilla, landssamtaka hjartasjúklinga, til eflingar hjartadeildar Landspítalans. Slík safnaðarátök hollvina spítalans hafa bæði fyrr og síðar ráðið úrslitum um tækjavæðingu hans. Þær fjárhæðir til tækjakaupa, sem Landspítalanum hafa hlotnast af fjárlögum á undanförnum árum hafa oftast verið alls ófullnægjandi til endurnýjunar tækja og enn síður til nýkaupa. Þegar best hefur látið, hafa slík framlög numið 5 – 15% af tækjaþörfinni. Stuðningur landssamtaka hjartasjúklinga hefur því oft verið ómetanlegur á undanförnum árum.
Af þessu tilefni er fróðlegt að rifja upp í stuttu máli, hvernig ný tækni hefur bætt sjúkdómsgreiningu, meðferð og horfur hjartasjúklinga á undanförnum árum.

 

Fáar sérgreinar hafa tekið slíkum breytingum sem hjartasjúkdómafræðin. Kransæðaaðgerðir komu til sögunnar á 7. áratugnum í Bandaríkjunum. Fyrsta opna hjartaaðgerðin á Landspítalanum var gerð árið 1986, en ári síðar gerðu Kristján Eyjólfsson og Einar Jónmundsson fyrstu kranaæðavíkkunina hérlendis. Tuttugu árum síðar er kransæðavíkkun ein algengasta aðgerð, sem gerð er á Íslandi. Hún hefur undanfarin ár verið gerð á 600 – 700 sjúklingum á ári og stundum komið í stað opinnar skurðaðgerðar. Hinum síðarnefndu hefur því fækkað nokkuð síðustu árin.

 

Síðustu 5 – 6 árin hefur meðferð bráðrar kransæðastíflu einkum falist í tafarlausri enduropnun og víkkun á hinni stífluðu æð.  Árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Dánartíðni sjúklinga með bráða kransæðastíflu var 22 – 30% fyrir 40 – 45 árum, en telst nú vera um 5%.
Skurðaðgerðir á hjarta og kransæðavíkkanir vekja að vonum mikla athygli almennings og fjölmiðla og enginn vafi leikur á því að þær bæta líðan flestra kransæðasjúklinga og sjúkdómshorfur þeirra oft og tíðum. Ný og bætt lyfjameðferð hefur einnig verið þung á metunum.

 

En kransæðavíkkanir og lyf eru ekki einu úrræði hjartalækna. Stuðtæki til að stöðva takttruflanir eða hjartastopp voru þróuð í Sovétríkjunum um 1950, en flytjanleg tæki komu til sögunnar 10 árum síðar. Hjartastuðtæki var keypt til Landspítalans um 1965. Um svipað leyti var farið að kenna læknum og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum endurlífgun. Sérhæfðir sjúkrabílar mannaðir læknum komu til sögunnar 17 árum síðar, eftir mikla baráttu hjartalækna.

 

Gangráðar voru fyrst græddir í fólk á Íslandi árið 1968. Þeir hafa tekið hraðri þróun á síðustu árum. Fullkomnustu gangráðarnir geta örvað bæði gáttir og slegla, lagst í dvala, ef ekki er þörf á þjónustu þeirra, gripið inn í takttruflanir, hraðað sér eða hægt ferðina eftir aðstæðum og líkt þannig eftir heilbrigðum hjartslætti.

 

Nýjustu tækniundrin á þessu sviði eru nefndir bjargráðar. Þeir eru græddir í fólk til að bregðast með rafstuði við hjartastoppi eða lífshættulegum takttruflunum. Bjargráður var fyrst græddur í Íslending árið 1992. Nú fá um 20 nýir sjúklingar slík tæki árlega og þau hafa bjargað mörgum mannslífum.

 

Myndgreining af ýmsu tagi hefur gjörbreytt starfsumhverfi hjartalækna. Fyrstu kransæðamyndatökuna gerðu þeir Ásmundur Brekkan og Snorri Páll Snorrason um 1967 við frumstæðar aðstæður. Þeirri rannsókn var ekki fylgt eftir, fyrr en Árni Kristinsson hóf hjartaþræðingar árið 1967. Fyrstu árin komu flestir til þræðingar vegna lokugalla eða meðfæddra hjartasjúkdóma, en smám saman urðu kransæðasjúkdómar aðaltilefni hjartaþræðinga.

 

Ómskoðanir á hjarta hófust á Íslandi um 1980. Smám saman hefur tækjabúnaður til ómrannsókna orðið fullkomnari og gefur nú býsna nákvæma yfirsýn yfir afstöðu, stærð og starfsemi hjartahólfa og -loka. Nýjar myndgerðaraðferðir, svo sem röntgensneiðmyndatækni, segulómun og ísótópatækni hafa einnig lagt mikið af mörkum við greiningu og mat á hjartasjúkdómum. Þrívíddarskoðun líffæra gerist æ fullkomnari og líklegt er, að hefðbundnar kransæðamyndatökur með röntgengeislum og skuggaefni leggist af á næstu árum.

 

Um 1993 hófst enn nýr kafli í framfarasögu hjartalækninga á Íslandi. Gizur Gottskálksson varð þá fyrstur Íslendinga til að leggja sérstaka stund á raflífeðlisfræðilegar rannsóknir á hjarta og læknismeðferð tengda þeim. Oftast er um að ræða s.k. brennsluaðgerðir, sem gerðar eru til að vinna bug á hjartsláttartruflunum. Þessar aðgerðir hafa tekist vel við ýmsum tegundum takttruflana, en stærsta viðfangsefnið er enn óleyst, en það er svonefnt gáttatif (atrial fibrillation). Þessi algenga taktröskun hrjáir um 3000 Íslendinga og hún getur haft í för með sér ýmsa fylgikvilla, svo sem þrekleysi, hjartabilun og blóðtappa. Þótt nokkuð hafi miðað í brennslumeðferð gáttatifs verður enn að styðjast við lyf til að fyrirbyggja hjartsláttarköstin og meðhöndla fylgikvillana.

 

Á næstu árum munu koma fram á sjónarsviðið lyf, sem beinast að tjáningu ýmissa meingena og koma þannig að gagni vel afmörkuðum hópi manna. Myndgreiningu mun án efa fleygja hratt fram. Rannsókn á hinum smæstu líffærum og starfsemi þeirra verður nákvæm og hættulaus. Notkun röntgengeisla til sjúkdómsgreiningar mun fara minnkandi, en hvers kyns ómtækni mun vaxa fiskur um hrygg. Menn munu skilja betur eðli kransæðasjúkdóms og leiðir munu finnast til að fyrirbyggja hann. Þar með verður úr sögunni helsta orsök hjartabilunar og skyndidauða. Gáttatif verður meðhöndlað með fullkomnum brennsluaðgerðum og lyfjum. Gervihjörtu munu taka framförum og reynast bjargvættur margra, sem þjást af sjúkdómum í hjartavöðva. Rannsóknir og meðferð hjartasjúkdóma mun í vaxandi mæli snúast um skynsamlega og markvissa beitingu sífellt fullkomnari tækjabúnaðar og lyfja.

 

Jafnvel í venjulegu árferði hefur reynst torvelt að fjármagna nauðsynlegan tækjabúnað Landspítalans með framlögum ríkisins. Við núverandi aðstæður er það óhugsandi. Þess vegna er framtak Hjartaheilla og annarra velunnara Landspítalans ómissandi þáttur í velferð hjartasjúklinga til framtíðar
 
Þórður Harðarson prófessor og fv. yfirlæknir
Háskóla Íslands og Landspítalanum

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *