Nýtt þræðingartæki mun nýtast mörgum

Gestur Þorgeirsson

Á hjartarannsóknastofu Landspítalans eru tvö þræðingartæki, annað átta ára gamalt og hitt 12 ára. Yngra tækið hefur verið nær fullnýtt til meðferðar á hjartsláttartruflunum. Margs konar brennsluaðgerðir á leiðslukerfi hjartans eru gerðar með því, gangráðsísetningar o.fl.

 

Gestur ÞorgeirssonEldra tækið hefur einkum verið notað til myndatöku á kransæðum, til kransæðavíkkana og í bráðakransæðastíflu til að opna lokaðar kransæðar. Einnig er þetta tæki notað til þræðinga á börnum með meðfædda hjartagalla. Í nokkur ár hefur verið ljóst að þessi tvö tæki duga ekki til að veita Íslendingum bestu þjónustu og meðferð við bráðum hjartasjúkdómum og ekki eru önnur þræðingartæki til á landinu. Þessi tvö tæki á Landspítalanum hafa dugað ótrúlega vel hingað til en tafir vegna bilana eru vaxandi vandamál og að sjálfsögðu búa þau ekki yfir nýjustu tækni.

 

Okkur, sem berum ábyrgð á þessari þjónustu, hefur verið ljóst að fjármunir til kaupa á nýju þræðingartæki myndu ekki koma úr ríkissjóði. Raunar var tækið, sem nú er átta ára gamalt, keypt fyrir framlag úr sjóði Jónínu S. Gísladóttur, mikils velgjörðarmanns hjartadeildar Landspítalans, en hún lést á síðasta ári. Til kaupa á nýju þræðingartæki var sjóður Jónínu nú enn reiðubúinn til að leggja fram 65 milljónir króna og Landssamtökin Hjartaheill lýstu því yfir, að þau myndu standa fyrir landssöfnun til að tryggja það sem upp á vantaði. Þegar þetta lá fyrir gaf spítalinn grænt ljós á að leitað skyldi útboða í nýtt þræðingartæki og hafinn var undirbúningur að smíði nýrrar þræðingarstofu á spítalanum. Niðurstaða úr útboðunum þótti hagstæð.

 

Kristján EyjólfssonEftir bankahrunið og með falli íslensku krónunnar hækkaði tækið í verði um nánast helming. Útborgun í tækið, sem nam um 70% af heildarverði, var greidd og tækið er komið í hús. Til þess að greiða tækið að fullu þarf enn um 35 milljónir króna og um 10 milljónir til að greiða fyrir allar tölvur og aukabúnað, sem þarf til að nýta nýjustu tækni til innanæðaaðgerða. . Hjartaheill mun standa fyrir landssöfnun næstkomandi laugardag á Stöð 2. Þótt nú sé víða hart í ári verður að leita til allra sem eru aflögufærir um stuðning, einstaklinga, samtaka þeirra og fyrirtækja. Nýtt þræðingartæki á Landspítalanum mun nýtast þúsundum Íslendinga, karla, kvenna og barna á komandi árum.

 

Gestur Þorgeirsson, yfirlæknir
Hjartadeild Landspítalans

Kristján Eyjólfsson, yfirlæknir
Hjartaþræðinga Landspítalans

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *