Þegar neyðin er stærst er hjálpin næst – Kransæðavíkkanir á Íslandi

Lífið er hverfult, það vita allir sem misst hafa ástvini án fyrirboða. Stundum er fólk á besta aldri hrifið á brott frá sínum nánustu fyrirvaralaust.

 

Algengast dánarorsök á vesturlöndum er bráð kransæðastífla. 
Til að viðhalda lífi fáum við súrefni úr andrúmsloftinu. Hlutverk hjartans er að dæla súrefnisríku blóðinu til vefjanna. En hjartað sjálft er orkufrekur, vinnusamur vöðvi sem fær blóð í gegn um kransæðarnar. Það er kaldhæðni örlaganna að þessar æðar eru af öllum slagæðum líkamans í hvað mestri hættu á að stíflast. Þegar það gerist fær viðkomandi hjartaáfall og skapast þá umsvifalaust lífshættulegt ástand því hjartað þolir aðeins stuttan tíma án súrefnis áður en óafturkræfar skemmdir verða á vöðvanum.   Eitt aðalhlutverk kransæðaþræðinga er bráðaþjónusta fyrir fórnarlömb hjartaáfalla þar sem hægt er á mjög stuttum tíma að finna stífluna og opna aftur æðina með aðgerð sem ýmist er kölluð blásning eða víkkun. Flestir sem fara í hjartaþræðingu eru með fullri meðvitund og finna mjög lítið fyrir aðgerðinni. Eftir deyfingu er grönnum legg stungið inn í slagæð í nára eða úlnlið. Með hjálp röntgen skyggningar er auðvelt að þræða um ósæðina til hjartans og finna kransæðarnar. Ef augljós blóðtappi er til staðar er hægt að soga hann út, svo er æðin víkkuð með grönnum belg og stoðneti komið fyrir.   Stoðnet er þunn, sveigjanleg málmgrind sem heldur æðinni opinni. Þannig fær hjartavöðvinn aftur súrefni. Eins og gefur að skilja er gríðarlega mikilvægt að forðast tafir eftir að einkenni byrja því hver mínúta skiptir máli eftir að æð stíflast. Því fyrr sem sjúklingur kemst í þræðingu því betri eru lífslíkur hans og lífsgæði eftir útskrift.
 
Æskilegast er að finna kransæðasjúkdóm áður en lífshættulegt ástand skapast. Þessvegna eru einnig gerðar þræðingar hjá fólki með grun um alvarleg þrengsli, t.d. þegar dæmigerð hjartaeinkenni eru til staðar eða aðrar rannsóknir sem benda til þrengsla í æðum. Kransæðavíkkun er einnig fyrsta flokks meðferð til að meðhöndla brjóstverki hjá fólki með langvinnan kransæðasjúkdóm.
 
Á Íslandi hefur náðst óvenju góður árangur í meðferð bráðra kransæðaáfalla og dánartíðni er með því allra lægsta í heiminum. Þetta er líklega   fyrst og fremst vegna mikillar sérhæfingar starfsfólks og skipulagðra viðbragða um allt land þar sem allt kapp er lagt á að koma sjúklingum með bráða kransæðastíflu án tafar í þræðingu. Nýtt hjartaþræðinga-tæki var tekið í notkun nú í vetur og hefur það strax sannað gildi sitt með tækni sem auðveldar læknum að veita skjóta og góða þjónustu þar sem öryggi sjúklinga er haft í fyrrirúmi. Eldra tæki er einnig í fullri notkun og hefur sannarlega skilað sínu hlutverki vel en er farið að láta á sjá og þarfnast viðhalds í auknum mæli.
 
Þegar lækni tekst að halda lífsneistanum logandi með hjálp nýjustu tækni í meðferð kransæðasjúkdóms hjá fórnarlambi hjartaáfalls þá er hlutverki hans sem læknis fullkomnað.
 
Þorbjörn Guðjónsson, hjartalæknir

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *