Getur lyfjafræðingur sagt satt?

Ólafur Ólafsson

HINN 28. apríl ritar Einar Magnússon, lyfjafræðingur og lyfjamálastjóri í heilbrigðisráðuneytinu, svargrein í Mbl. við litlum pistli undirritaðs frá 22. apríl vegna ummæla sem höfð voru eftir Ögmundi Jónassyni heilbrigðisráðherra varðandi nýja reglugerð um endurgreiðslu lyfjakostnaðar sjúklinga.

 

Ólafur ÓlafssonUmmælin voru eftirfarandi: „Þá erum við að ræða lyf sem eru sambærileg við önnur lyf sem dýrari eru, það er verðið eitt sem skilur þar á milli“ (mbl.is, 7. apríl 2009). Í grein sinni segir Einar: „Hin röngu ummæli ráðherra telur Ólafur sig hafa eftir Ögmundi Jónassyni …“. Síðar segir Einar einnig: „Þau röngu ummæli sem Ólafur vill gera alvarlegar athugasemdir við og telur sig hafa eftir Ögmundi …“. Nú fór undirritaður að efast um að hafa lesið rétt. En viti menn, ummælin voru þarna, í gæsalöppum, eins og gert er þegar orðrétt er haft eftir viðmælanda. Hafi ráðherra ekki sagt það sem eftir honum var haft, hefði það verið ráðherra, eða lyfjamálastjóra, í lófa lagið að fá ummælin leiðrétt. Mér vitanlega hefur engin leiðrétting birst. Reyndar er það forvitnilegt að Einar skuli í tvígang tala um „hin röngu ummæli ráðherra“, eins og að hann sé sammála því að svo hafi verið. Eftir nokkuð langan orðréttan kafla úr máli Ögmundar á fundi þar sem hann kynnti nýju reglugerðina, kemst Einar að þeim kjarna málsins sem undirritaður gerði alvarlegar athugasemdir við. Einar segir: „Lyfin eru mismunandi en með sambærilega verkun …“. Lyfin eru mismunandi og einungis sambærileg að því leyti að þeim er ætlað að hafa hliðstæð áhrif á líkamann, það er að minnka magasýrur annars vegar og hins vegar að lækka kólesteról. Lyfin hafa að þessu leyti sambærilega verkun, en verkunin er ekki sú sama. Lyfin eru mismunandi. Því fer fjarri að verkunin sé jafnöflug hjá öllum lyfjum í þessum flokkum.
Tökum hliðstæðu við brú yfir á. Tilgangur brúarinnar er að flytja fólk frá öðrum bakkanum yfir á hinn. Þannig hafa allar brýr þessa „sambærilegu verkun“. En rúta fer ekki yfir göngubrú. Undirritaður er ekki að gefa neitt annað í skyn en að afl lyfjanna og geta til að skila verkun sinni er misjafnt og að sumir sjúklingar þurfa öflugari lyf en aðrir, auk þess sem benda má á að mismunandi lyf þolast misjafnlega vel en sá vandi er einstaklingsbundinn. Ef miðað er við ávísanir lækna á kólesteról-lyf í janúar 2009, kemur í ljós að um tuttugu þúsund sjúklingar fengu ávísað kólesteróllækkandi lyfjum. Einungis um fjórðungur þeirra fékk ávísað lyfjum með greiðsluskyldu samkvæmt núgildandi reglugerð. Aðrir, eða tæplega fimmtán þúsund sjúklingar, stóðu frammi fyrir þeim valkosti að greiða lyfin að fullu, eða að skipta yfir í lyf með vægari eða kraftminni verkun. Þetta er „árásin á sjúklingana“ sem ég ræddi um í pistli mínum. Það er fleira sem greinir á milli lyfjanna en verðið. Það er kjarninn í málinu.

 

Vísað er til föðurhúsanna öllum dylgjum um skort á samfélagslegri ábyrgð og hagræðingu í ráðstöfun opinberra fjármuna. Það er ekki gott að segja hvað Einari gengur til með þessu, nema að vekja tortryggni. Undirritaður hefur fullan skilning á áhuga ráðherra að nýta fjármuni betur. Aðferðin, sem valin hefur verið, hlýtur að teljast vafasöm og varasöm. Svo að enginn þurfi að velkjast í vafa skal sagt afdráttarlaust: Engar athugasemdir eru gerðar við notkun samheitalyfja, en sjúklingar eiga að fá þau lyf sem þeir þurfa að mati lækna. Ef ódýrustu lyfin hjálpa sjúklingi til að fá bót meina sinna er það auðvitað ljómandi gott. Við Einar hljótum á hinn bóginn að vera sammála um að mestu skipti að lyfjanotkun sé markviss með heilsu og öryggi hvers sjúklings í öndvegi, jafnframt því að lyf séu hvorki ofnotuð né vannotuð. Mikið getur oltið á réttri lyfjanotkun – tilgangurinn skal helga meðalið. Vaka á yfir velferð sjúklinga og gera þeim kleift að njóta vandaðrar heilbrigðisþjónustu án tillits til efnahags. Í lok greinar sinnar varpar Einar Magnússon fram spurningu, sem er býsna rætin í minn garð, starfsfélaga minna og reyndar lækna líka. Spurningunni skal nú svarað, en hún er svona: „Skyldi það vera af umhyggju Ólafs fyrir sjúklingum og skattgreiðendum að hann hefur á undanförnum árum haldið því lyfi að læknum sem hann hefur hagsmuni af að selja?“ Svarið er einfalt.

 

Ég hef á undanförnum árum haft af því mikla ánægju að geta kynnt læknum nýjungar á sviði hjartalækninga og gefið út fræðsluefni ætlað sjúklingum til að hjálpa þeim að skilja og takast á við sjúkdómana enda hefur vísindaleg framþróun á þessu verið afar áhugaverð hvað varðar bata- og lífslíkur hjartasjúklinga. Það sem fékk mig til að andmæla ummælum ráðherra var umhyggja fyrir sjúklingum, engir hagsmunir aðrir en þeirra og alls ekki einhver vörn fyrir lyfjafyrirtæki. Þau eru fullfær um að svara fyrir sig sjálf. Einmitt af þessari ástæðu undirritaði ég pistil minn „lyfjafræðingur“. Þó svo að ég sé lyfjafræðingur, fannst mér sá titill ekki vera slíkt skammarheiti að ég mætti ekki tjá mig opinberlega. Meira að segja lyfjafræðingar geta haft heiðvirðar skoðanir og svarað fyrir sig.

 

Höfundur er lyfjafræðingur

 

Morgunblaðið 10. maí 2009

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *