Lyfjafræðingur fer rangt með

Einar Magnússon

MORGUNBLAÐIÐ birti 22. apríl sl. grein eftir Ólaf Ólafsson lyfjafræðing og var fyrirsögn hennar: „Ummæli ráðherra röng“. Hin röngu ummæli ráðherra telur Ólafur sig hafa eftir Ögmundi Jónassyni heilbrigðisráðherra í umfjöllun hans um breytingar á greiðsluþátttöku ákveðinna lyfja í tveimur lyfjaflokkum, annars vegar magalyfja og hins vegar blóðfitulækkandi lyfja, sem tók gildi 1. mars sl.

 

Einar MagnússonÍ grein sinni beitir Ólafur þeirri útúrsnúninga- og þrætubókarlist að gera öðrum upp skoðanir og ráðast svo á þær. Í þessu tilfelli verða bæði ráðherra og ráðgjafar hans fyrir barðinu á árásum Ólafs. „Fyrst ráðherra veit ekki betur hafa ráðgjafar hans brugðist honum illilega,“ segir hann.

Þau röngu ummæli sem Ólafur vill gera alvarlegar athugasemdir við og telur sig hafa eftir Ögmundi í frétt á mbl.is af fundi ráðherra með starfsfólki heilbrigðisþjónustunnar hinn 7. apríl sl. segir hann vera eftirfarandi: „Þá erum við að ræða lyf sem eru sambærileg við önnur lyf sem dýrari eru, það er verðið eitt sem skilur þar á milli.“

 

Ólafur segir jafnframt í grein sinni að um það vitni ógrynni af vísindalegum rannsóknum að um sé að ræða mismunandi lyf með mismunandi öfluga verkun.

 

Ef Ólafur hefði verið staddur á umræddum fundi hefði hann hins vegar getað heyrt ráðherra segja eftirfarandi:

„Eitt fyrsta verk mitt sem heilbrigðisráðherra var að setja reglugerð um lækkun lyfjakostnaðar upp á 650 milljónir króna. Reynt var að búa svo um hnúta að þessi sparnaður kæmi ekki niður á sjúklingum heldur var kostnaðarþátttöku ríkisins og sjúklinga beint í hagkvæmasta farveg sem völ er á. Það þýddi að niðurgreiðslur tækju til ódýrra lyfja í tveimur lyfjaflokkum þar sem völ er á fyllilega sambærilegri meðferð. Munurinn lyfjunum felst fyrst og fremst í mismunandi verðlagi.“

 

Ráðherra hefur hvergi haldið því fram að umrædd lyf, annars vegar prótópumpuhemlar sem er einn flokkur magalyfja og hins vegar statín sem er flokkur blóðfitulækkandi lyfja, séu ekki mismunandi lyf. Hann hefur hins vegar haldið því fram að þessi lyf hafi sambærilega verkun og er sú fullyrðing hans stutt „ógrynni vísindalegra greina“ svo notað sé orðalag Ólafs.

 

Lyfin eru mismunandi en með sambærilega verkun og sambærilegar aukaverkanir. Verðmunur getur hins vegar verið allt að 20 faldur og þess vegna hefur hér eins og í nágrannalöndunum verið farin sú leið til sparnaðar að beina ávísun lækna í ódýrari farveg og niðurgreiða almennt ekki dýrari meðferð þegar um er að ræða sambærilega meðferð eins og um er að ræða í þessum tveimur lyfjaflokkum. Í ljósi efnahagsástandsins væri ámælisvert ef heilbrigðisyfirvöld reyndu ekki að fara þessa leið sem farin hefur verið og reynst vel í nágrannalöndunum.

 

Þetta veit Ólafur. Kýs að láta þess ógetið að hann starfar sem sölumaður fyrir lyfjafyrirtæki hér á landi sem markaðssetur bæði magalyf og blóðfitulækkandi lyf en það eru einmitt þeir lyfjaflokkar sem reglugerð ráðherra tekur til. Hann reynir þess í stað að villa um fyrir lesendum með því að titla sig einungis lyfjafræðing. Ljóst er að um mikla fjárhagslega hagsmuni er hér um að ræða. Ólafur sýnir því engan skilning að ráðherra hafi áhuga á því að nýta þá fjármuni betur sem í mörgum tilfellum er eytt að óþörfu í dýrari lyf. Hann getur þess heldur ekki að umrædd reglugerð útilokar ekki að sjúklingar geti fengið niðurgreidd út á lyfjaskírteini önnur blóðfitu- og magalyf, þar með talið það lyf sem hann hefur hagsmuni af að seljist hér á landi, geti þeir ekki af einhverjum ástæðum notað ódýrustu lyfin.

 

Ólafur ræðst þess í stað á ráðherra og hefur uppi stór orð um „að ráðherra geti ekki logið svona blákalt að þjóðinni“ og að reglugerðin sé „árás á sjúklinga“. Skyldi það vera af umhyggju Ólafs fyrir sjúklingum og skattgreiðendum að hann hefur á undanförnum árum haldið því lyfi að læknum sem hann hefur hagsmuni af að selja?

 

Því fylgir mikil ábyrgð að fara með almannafé og úthluta því á sem réttlátastan og hagkvæmastan hátt til heilbrigðismála. Þá ábyrgð hefur ráðherra axlað með umræddri reglugerð.

 

Höfundur er lyfjamálastjóri í heilbrigðisráðuneytinu.

 

Morgunblaðið 28. apríl 2009

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *