Ummæli ráðherra röng

Ólafur Ólafsson

Á VEFSÍÐUNNI mbl.is hinn 7. apríl birtist frétt undir fyrirsögninni „Kæra Frumtaka árás á þjóð í þrengingum“. Þar er fjallað um kæru Frumtaka til ESA-dómsins í Brussel vegna nýrrar reglugerðar um endurgreiðslur Sjúkratrygginga Íslands vegna lyfjakostnaðar sjúklinga. Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda og starfa á Íslandi. Umrædd reglugerð breytti verulega ákvæðum um endurgreiðslu lyfjakostnaðar og kom hún harðast niður á hjarta- og magasjúklingum.

 

Ólafur ÓlafssonÞótt margt í reglugerðinni sé til hagsbóta fyrir sjúklinga, þá bitnar hún illa á umræddum sjúklingahópum. Þau ummæli Ögmundar Jónassonar heilbrigðisráðherra sem ég vil gera sterkar athugasemdir við eru eftirfarandi: „Þá erum við að ræða lyf sem eru sambærileg við önnur lyf sem dýrari eru, það er verðið eitt sem skilur þar á milli.“ Þessi ummæli eru kolröng. Það er verið að ræða mismunandi lyf með mismunandi öfluga verkun, þó svo að þau séu í sama lyfjaflokki. Um það vitna ógrynni af vísindalegum rannsóknum.

 

Fyrst ráðherra veit ekki betur hafa ráðgjafar hans brugðist honum illilega. Ég trúi því ekki að ráðherra geti logið svona blákalt að þjóðinni. Hér er ekki um skipti yfir í samheitalyf að ræða. Slíkt hefur tíðkast lengi og hef ég engar athugasemdir við slíkt. Með reglugerðinni er verið að knýja sjúklinga til að skipta um meðferð þ.e. fara á aðra meðferð en læknir hefur ákveðið. Það er verið að virða að vettugi faglegt mat lækna, þekkingu þeirra og reynslu. Það er verið að knýja sjúklinga til að skipta um meðferð með því að leggja óréttmætar fjárhagslegar byrðar á herðar þeirra að öðrum kosti.

 

Ráðherra segir að það sé verðið eitt sem skilur á milli. Það er rangt. Það er verðið eitt sem ræður því hvort Sjúkratryggingar taka þátt í kostnaði sjúklinga, ekki eiginleikar lyfjanna sem um ræðir og svo sannanlega ekki þarfir sjúklinga. Fyrirsögn greinarinnar er „Kæra Frumtaka árás á þjóð í þrengingum“. Í mínum huga er reglugerðin árás á sjúklinga, sem eiga betra skilið.

 

ÓLAFUR ÓLAFSSON, lyfjafræðingur.

 

Morgunblaðið 22. apríl 2009

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *